04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5364 í B-deild Alþingistíðinda. (4659)

314. mál, sjúkraliðar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur fjallað um þetta frv. til l. um sjúkraliða. Þetta frv. er raunar hliðstæða við sum önnur sem hér hafa verið til meðferðar í þinginu, þ. e. um lögverndun starfsheita þar sem tekið er fram um réttindi og skyldur þeirra sem við er átt. Það sakar ekki að minna á það að gildandi lagaákvæði um sjúkraliða er að finna í 8. gr. hjúkrunarlaga og fer ég ekki nánar út í það. Raunar felur þetta frv. í sér að sá hluti 8. gr. hjúkrunarlaganna falli niður nema að því er varðar nám sjúkraliða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. frekar. Það urðu eins og vænta má allnokkrar umr. um frv. þótt ekki sé það stórt í sniðum og raunar afskaplega einfalt að allri gerð. Ekki síst urðu umr. um 5. gr. en þar er gert ráð fyrir því eins og hingað til hefur verið og er í dag að sjúkraliðar skuli starfa undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðings.

Ingimar Sigurðsson deildarstjóri í heilbrrn. kom á fund n. og áttu nm. við hann gagnlegar umr. um þetta mál. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.