04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5364 í B-deild Alþingistíðinda. (4661)

315. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur fjallað um þetta frv. til ljósmæðralaga. Eins og kunnugt er eru gildandi ljósmæðralög frá árinu 1933 og þótt ekki sé nema litið til þess er full þörf á því að endurskoða þau lög. M. a. sakar ekki að minna á að ljósmæðraumdæmi sem kveðið er á um í þeim lögum eru raunar úr sögunni með tilkomu laga um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um heilsugæsluumdæmi og um starf ljósmæðra við heilsugæslustöðvar. Nægir að minna á þetta til að rökstyðja að full þörf var á endurskoðun laganna.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þetta frv. fremur en hið fyrra er ég mætti hér fyrir nál. um. Frv. er einfalt að allri gerð. Ég vil þó geta þess að á fund n. kom formaður Ljósmæðrafélags Íslands ásamt Ingimar Sigurðssyni deildarstjóra í heilbrrn. Ljósmæðrafélag Íslands hafði sent umsögn um þetta mál til heilbr.- og trn. þar sem vikið var að tveimur atriðum fyrst og fremst.

Það var annars vegar 5. gr. frv. og eins og fram kemur í nál. flytur n. brtt. einmitt við þá grein. Þar er lagt til að greinin orðist þannig: „Óheimilt er að ráða til ljósmóðurstarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi skv, lögum þessum“ í stað. „Óheimilt er að ráða sem ljósmæður.“ Þetta orðalag „til ljósmóðurstarfa“ er talið vera ótvíræðara vegna þeirra starfa sem hér er við átt. Ég skal viðurkenna að þarna er að mínum dómi afskaplega mjótt á munum og sumir sjá nú ekki verulegan mun þarna á. En þeir sem þykjast betur til þekkja telja að þetta sé nauðsynlegt til að taka af allan vafa. Í umsögn Ljósmæðrafélagsins var jafnframt vikið að 4. gr. frv. Heilbr.- og trn. treysti sér ekki til að taka inn þá brtt. sem Ljósmæðrafélag Íslands lagði þar til og mun því að tilhlutan n. sú grein standa óbreytt í frv.

Það var aðeins vikið að því við meðferð þessa máls í n. hvort rétt væri að láta það bíða betri tíma væntanlega, ekki síst vegna þess að borist hafa spurnir af því að frv. um Ljósmæðraskóla Íslands, sem hér var til umr. fyrr, fari ekki í gegnum þingið, það sé jafnvel strandað í Nd., þó ég vilji ekki fullyrða það hér úr þessum ræðustóli. Við töldum, nm. í heilbr.- og trn., ekki ástæðu til að spyrða þessi frv. algjörlega saman þar sem frv. um Ljósmæðraskólann fjallar fyrst og síðast um menntun ljósmæðranna, þ. e. Ljósmæðraskólann og það starf sem þar fer fram, en hér er fyrst og fremst um lögverndun starfsheitis að ræða og tekið fram um þau réttindi og þær skyldur sem fylgja ljósmóðurstarfinu.

Herra forseti. Ég hef ekki um þetta fleiri orð en með þeirri breytingu sem heilbr.- og trn. flytur leggur n. til einróma að þetta frv. nái fram að ganga.