04.05.1984
Neðri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5367 í B-deild Alþingistíðinda. (4666)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Að gefnu tilefni er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram við þessa atkvgr.:

1. Ríkisstj. hefur hrundið í framkvæmd mjög verulegri hækkun á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins jafnframt því sem greiðslum lána hefur verið flýtt til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn. Við þau erfiðu efnahagsskilyrði sem við búum nú við er þess ekki að vænta að unnt sé að veita verulegar fjárveitingar til húsnæðismála eins og sakir standa.

2. Það er hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins að veita lán til byggingar leiguíbúða sem ætlaðar eru fyrir almennan markað. Þessi skilningur er í samræmi við skoðun meiri hl. félmn. eins og fram kemur á þskj. 692.

3. Í kafla frv. um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðir er ítarlega fjallað um íbúðir í verkamannabústöðum og réttarstöðu þeirra sem vilja kaupa eða selja slíkar íbúðir. Enn fremur er sérstakur kafli um byggingarsamvinnufélög. Engin slík ákvæði eru um húsnæðissamvinnufélög né önnur félög sem stofnuð eru til að reka og leigja íbúðir með búseturéttarákvæði né kaupleigusamningi. Af þessum sökum getur c-liður 33. gr. ekki átt við slíka atvinnustarfsemi.

4. Nauðsynlegt er að lögfest séu ítarleg ákvæði um búseturétt og kaupleigusamning áður en unnt er að opna Byggingarsjóð verkamanna fyrir einkaaðila, félög eða fyrirtæki sem starfa vilja á þeim grundvelli á almennum markaði.

Ég segi nei.