04.05.1984
Neðri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5414 í B-deild Alþingistíðinda. (4678)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég styð þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum. Mitt álit er samt að ekki hafi verið gengið nógu langt í niðurskurði eða tekjuöflun á móti auknum útgjöldum. Hv. 3. þm. Reykv. gagnrýndi í sinni ræðu auknar erlendar lántökur. Með því lýsir hann stuðningi við frekari aðhaldsaðgerðir og hlýtur hæstv. ríkisstj. að eiga hann að þegar taka þarf á ríkisfjármálunum á komandi misserum, annars væri hann ekki samkvæmur sjálfum sér. Það er afar nauðsynlegt að menn átti sig á því að erfiðleikarnir í ríkisfjármálum nú eru mestmegnis afleiðingar óstjórnar undanfarandi ára, þegar erlendar lántökur jukust gífurlega sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu og ríkissjóður nærðist á umframeyðslu þjóðarbúsins. sem dæmi um þetta má geta þess að árið 1980 voru erlendar skuldir 34.4% af þjóðarframleiðslunni. Árið 1983, þegar hv. þm. gekk úr ríkisstj., var skuldastaðan komin upp í 60.6% af þjóðarframleiðslu.

Auk þess dró röng fjárfestingarstefna úr lífskjörum almennings og hagvexti og þar með jókst enn sá vandi sem núverandi ríkisstj. fékk í arf. Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur náð stórkostlegum árangri í verðbólgumálum og fært hana úr 130 stigum Svavars Gestssonar í 15 stig Alberts Guðmundssonar. Slíkur árangur er án efa einsdæmi hjá lýðræðisþjóð. Þennan árangur ber að verja. Slíkt kostar áframhaldandi þrotlausa baráttu. Vonandi sýnir stjórnarandstaðan í verki að hún sé tilbúin til að standa með hæstv. ríkisstj. í þessari baráttu, ekki síst við aðhaldsaðgerðir, sem bersýnilega þarf að grípa til við gerð næstu fjárlaga.