07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5424 í B-deild Alþingistíðinda. (4699)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Í því frv. til l. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði sem hér er nú til 2. umr. er aðeins um að ræða lítinn hluta af því samkomulagi sem samninganefnd um stóriðju og fulltrúar Elkem og Sumitomo hafa gert með sér og undirritað var 6. apríl s. l. Frv. snertir aðeins fjármögnunarþátt samninganna, en það fer þó ekki hjá því að afstaða til þessa frv. hlýtur að mótast af efnisþáttum samkomulagsins í heild auk þeirra sjónarmiða í stóriðjumálum sem þm. annars hafa. Í þessu samkomulagi er fyrst og fremst leitast við að reisa við fjárhagsgrundvöll fyrirtækisins sem rekið hefur verið með stórfelldu tapi á undanförnum árum eins og hæstv. iðnrh. hefur m. a. greint samviskusamlega frá.

Á Íslandi hefur sú meginröksemd verið uppi höfð, þegar farið hefur verið út í að reisa fyrirtæki á borð við það sem við erum nú að fjalla hér um, að slíkt sé nauðsynlegt til að nýta alla þá orku sem annars streymir óbeisluð til sjávar í fallvötnum landsins. Það má því undarlegt vera, fyrst ástæðan er sú að koma verði orku landsins í verð, að ævinlega þarf að borga með orkunni til fyrirtækja sem reist eru, að því er sagt er, til að nýta orkuna. Hið lága verð á Íslandi á raforku til stóriðju er vitaskuld orðið víðfrægt um allan heim, rétt eins og hið ódýra vinnuafl sem hér er fyrir hendi eins og hæstv. iðnrh. hefur verið óspar á að benda heiminum á. Auðvitað eru Japanir, sem eru allra manna framsæknastir í iðnaðarmálum, ekki lengi að átta sig á þessu gósenlandi stóriðjunnar í norðri, enda eru þeir nú komnir inn á gafl hjá okkur í því samkomulagi sem hér um ræðir.

Ég minnist þess að þegar fulltrúar Sumitomo komu hingað til viðræðna í sept. s. l., um sama leyti og heilmikið gekk á og það ekki að ástæðulausu út af samkomulagi ríkisstj. og Alusuisse vegna álversins í Straumsvík, voru Japanarnir órólegir mjög út af þeim röddum sem þá heyrðust nefna hærra raforkuverð til stóriðju hér á landi, raddir sem töldu að lítið vit væri í því að selja orkuna undir framleiðsluverði svo að ekki sé minnst á það vit sem væri í því að selja hana með einhverjum hagnaði.

Það er nú ljóst af því samkomulagi sem hér liggur fyrir að hæstv. iðnrh. hefur tekist að róa Japanana, enda er svo kveðið á í samkomulaginu, eftir því sem lesa má í grg. með frv., að orkuverð til járnblendiverksmiðjunnar skuli ekki hækka fyrr en einhverju sem nefnt er „tiltekin arð- og eignarfjárstaða“ er náð. Hvað felur þetta í sér? Um hvað er verið að tala hér? Það skiptir þó e. t. v. ekki svo miklu máli því þessari svokölluðu tilteknu arðs- og eignarfjárstöðu verður sennilega aldrei náð ef marka má það sem stendur á bls. 2 í grg. með frv. þar sem verið er að ræða um fjárhagsþátt málsins, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Mjög hefur dregið úr þrengingum verksmiðjunnar á síðustu mánuðum, þar sem jafnvægi hefur ríkt milli framborðs og eftirspurnar frá því síðla vors 1983 og verksmiðjan því starfað með fullum afköstum, auk þess sem markaðsverð hefur hækkað verulega. Tap Járnblendifélagsins varð því miklu minna 1983 en 1982 og útlit er fyrir að það nái hallalausum rekstri á yfirstandandi ári. Vandinn er þó ekki úr sögunni, þar sem enn ríkir lægð í stáliðnaði víðast hvar í heiminum og afturkipppur gæti komið í þann bata sem orðið hefur á járnblendisviðinu.

Ástæða er því til að ætla að núverandi hluthafar, annar eða báðir, gætu enn þurft að bregðast við vanda félagsins á einhvern hátt, hvort sem þriðji hluthafinn kæmi til skjalanna eða ekki, með auknum framlögum eða ábyrgðum.“

Vandinn er sem sagt að öllum líkindum ekki úr sögunni þó að sú neyðarráðstöfun, sem þetta frv. hljóðar upp á, sé gerð, og því er ekki nokkur ástæða til að ætla að þeirri tilteknu arð- og eignarfjárstöðu, sem falað er um í samkomulaginu, verði náð svo að hægt verði að hækka raforkuverð til fyrirtækisins. M. ö. o. felur þetta samkomulag ekki í sér neina breytingu á orkuverði til þessa stóriðjufyrirtækis, enda held ég að slíkt hafi aldrei verið meiningin þótt þetta gagnslausa ákvæði um raforkuverð sé sett inn í samkomulagið. Það er því ljóst að almenningur á Íslandi á að halda áfram að greiða niður orkuna til þessa fyrirtækis eins og hann hefur alla tíð gert.

Í kaupbæti má svo almenningur eiga von á töluverðum verðhækkunum á raforku til sinna eigin nota í nánustu framtíð því að eins og fram kom á ársfundi Landsvirkjunar 27. apríl s. l. er talið nauðsynlegt að hækka orkuverð til almenningsveitna um 5% á þessu ári. Er þá von að mönnum blöskri.

Á grundvelli þess að í þessu samkomulagi er ekki gerð nokkur einasta tilraun til að hækka raforkuverð til þessa íslensk-erlenda stóriðjufyrirtækis á sama tíma og taka á fé íslenskra skattborgara til að reisa við fjárhag fyrirtækisins, fólks sem greitt hefur margfalt orkuverð á við þann taprekstur sem hér um ræðir og á enn að bæta við sig byrðum í þeim efnum, mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.

Það er ýmislegt fleira sem er athugavert við þetta frv., það samkomulag sem það byggir á og þann málflutning sem fram kemur í grg. með frv. Það má t. d. nefna þá stórundarlegu afstöðu sem fram kemur á bls. 6 í grg., þar sem verið er að ræða um tæknisamning Elkem við Járnblendifélagið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rætt hefur verið um þetta gjald og niðurstaðan orðið að halda því óbreyttu, m. a. vegna þess að Sumitomo telur enga ástæðu til að lækka það.“

Sem sagt: árlegum frádrætti Elkem vegna tækniaðstoðar, sem telja verður bagalegt atriði fyrir Íslendinga, sem ættu að geta sinnt þessu sjálfir fyrirtækinu til framdráttar, er haldið óbreyttum, m. a. vegna þess að Sumitomo telur enga ástæðu til að breyta því. Þá vitum við hvað Sumitomo finnst. En hvað finnst okkur sjálfum? Okkar eigin skoðun í þessum efnum kemur hvergi til álita að því er virðist. Á slíku er hvergi tæpt í grg. Þannig má tína til eitt og annað í þessu máli öllu.

En merkilegastur er e. t. v. málflutningur hæstv. iðnrh. í þessu máli svo og allra þeirra þm. sem töluðu við 1. umr. þessa máls. Bar þar allt að sama brunni. Menn töluðu um tapið á fyrirtækinu undanfarin ár þótt starfræksla verksmiðjunnar hafi gengið eins og best verður á kosið. Menn töluðu um gagnsleysi rannsókna til að segja af eða á um atvinnurekstur af þessu tagi og menn töluðu um byggingu þessa fyrirtækis sem gríðarleg fjárfestingarmistök, svo að eitthvað sé nefnt af þeim fjölmörgu neikvæðu atriðum sem tiltekin voru varðandi þennan stóriðjurekstur. Samt komust allir sem töluðu að þeirri niðurstöðu að þetta mikilvæga fyrirtæki, eins og hv. þm. Eiður Guðnason orðaði það, yrði að styrkja, kappkosta skyldi að halda rekstrinum áfram. Og Japanana skal taka inn í fyrirtækið þótt nefnt sé í sama orðinu, eins og þm. Skúli Alexandersson gerði, að hinir forsjálu Japanar séu um þessar mundir að flytja stóriðjurekstur sinn úr landi til að rýma til fyrir arðbærari og hugnanlegri léttiðnaði heima fyrir. Hvers konar endileysa er þetta? Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að stóriðju skuti haldið áfram hér á landi og ný stóriðja sett á laggirnar á meðan tínd eru til um leið mörg og þung rök fyrir hinu gagnstæða? Sú þráhyggja, sem endurspeglast í íslenska stóriðjudraumnum, á sennilega vart sinn líka á byggðu bóli ef áfram gengur svo sem hingað til.

Það má segja að hér á Alþingi Íslendinga megi finna þrjár meginstefnur í stóriðjumálum með nokkrum blæbrigðum eftir mönnum eins og gengur. Í fyrsta lagi er sú stefna sem hæstv. iðnrh. túlkar og sem felst í því að byggja hér upp stóriðju með meiri hluta eignaraðild erlendra aðila. Sú stefna sem hljóðar upp á sölu úr landi á íslensku vatns- og vinnuafli á spottprís er fyrir mér nánast það sama og að selja sjálfstæði þessarar þjóðar í hendur erlendra aðila. Af slíkum viðskiptum höfum við ríkulega reynslu þar sem eru viðskipti okkar við Alusuisse svo sem alþjóð eru kunn.

Í öðru lagi er sú stefna í stóriðjumálum sem þm. Alþb. túlka hér og sem felur í sér að hér skuli reist stóriðja en með meirihluta eignaraðild Íslendinga. Ég er hæstv. iðnrh. hjartanlega sammála um að þetta er afleit stefna þótt ekki sé að öllu leyti á sömu forsendum. Ég hygg að við séum sama sinnis um að Íslendingar hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa að slíkum fyrirtækjum sjálfir né fái þeir nokkru ráðið á þeim markaði þar sem stóriðjuframleiðsla er seld, eins og reyndar saga járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga tekur af öll tvímæli um.

En svo skilja leiðir okkar hæstv. iðnrh. Á meðan hann og reyndar Alþb.-menn með honum vilja auka enn stóriðjurekstur hér á landi vil ég ekki sjá neinn þungaiðnað hér innanlands og er það þriðja stefnan í stóriðjumálum hér í þinginu.

Ég vil ekki frekari stóriðju hér á landi vegna þess að það þýðir í reynd aukin fjárhagsleg ítök erlendra aðila hér á landi, sem sumir hverjir eru voldugri á alþjóðavettvangi en smáríki á borð við Ísland.

Í öðru lagi hefur stóriðja hér löngum verið rekin með bókfærðu tapi, sbr. járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, þannig að ég sé ekki hver er fjárhagslegur ávinningur af slíkum atvinnurekstri.

Í þriðja lagi er hér um mengandi og náttúruspillandi iðnað að ræða, og væri reyndar nógu fróðlegt að fá að heyra hvernig mengunarvörnum er háttað við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga ef hæstv. iðnrh. getur svarað því með svo stuttum fyrirvara.

Í fjórða lagi þýðir aukin stóriðja enn auknar virkjunarframkvæmdir, en eins og menn vita hefur vegna stóriðjusjónarmiða verið farið of hratt í slíkar framkvæmdir á undanförnum árum eins og erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins sanna.

Í fimmta lagi er sérhvert atvinnutækifæri í þungaiðnaði margfalt dýrara en á öðrum atvinnusviðum, og væri einnig fróðlegt að fá að vita í þessu sambandi nákvæmlega hvað hvert atvinnutækifæri í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hefur hingað til kostað.

Í sjötta lagi eru allar líkur á að aukin stóriðjuuppbygging leiði það af sér að önnur atvinnuuppbygging á Íslandi verði látin sitja á hakanum og það mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Það vita þeir sem vita vilja að stóriðja er gamaldags og úreltur atvinnu- og framleiðslukostur. Öll framsæknustu iðnaðarríki heims eru nú að flytja þungaiðnað sinn úr landi og þau flytja hann til þróunarlandanna og landa eins og Íslands, sem reyndar má færa rök fyrir að flokkist til þróunarlanda frá efnahagslegu sjónarmiði. Ef við Íslendingar ætlum okkur upp úr þeirri einhæfni, sem í dag einkennir efnahagslíf okkar, gerum við það ekki með því að taka hér við erlendri stóriðju, heldur með því að þróa hér innlendan léttiðnað byggðan á okkar eigin vitsmunum og þekkingu, svo að ekki sé minnst á okkar eigin hráefnum. Sem dæmi um slíkan iðnað má nefna rafeindatækni ýmiss konar, líftækni sem mikið hefur verið rætt um undanfarið og tækni við fullvinnslu matvæla. Enn fremur má benda á að við Háskóla Íslands fara fram margvíslegar rannsóknir sem leitt gætu til stórkostlegra möguleika á þessum sviðum. Þessar rannsóknir hafa á undanförnum árum búið við mikið fjársvelti og vil ég í því sambandi taka undir þau orð Halldórs Guðjónssonar kennslustjóra Háskólans, að ef svo haldi áfram sem hefur verið gerum við okkur ekki aðeins seka um dugleysi, heldur einnig um heimsku.

Virðulegi forseti. Konur hafa hvergi komið nærri því rándýra brambolti sem uppbygging stóriðju hér landi hefur verið, þar á meðal bygging járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Það hefur hingað til verið verksvið karla og verður alfarið að skrifast á ábyrgð þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem lengst hafa starfað í landinu. Nú segum við konur hins vegar: Nei. Hingað og ekki lengra. Þetta viljum við ekki.