17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram frv. til l. um afnám laga nr. 81 frá 23. des. 1980, um álag á ferðagjaldeyri. Hér er um brbl. að ræða.

Hinn 29. júlí s.l. voru sett brbl. um afnám laga um skatt á ferðagjaldeyri. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á þeim, sbr. 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Upphaflega var skatturinn, sem var 10% álag á söluverð gjaldeyris, lagður á með 17. gr. brbl. nr. 96 frá 1978, sem síðan voru staðfest með lögum nr. 121 frá 1978 og var þeim ætlað að gilda í eitt ár. Gjaldið var síðan framlengt tímabundið með lögum nr. 100 frá 1979 til ársloka 1980 og með lögum nr. 81 frá 1980 var gjaldið gert að ótímabundnum tekjustofni ríkissjóðs.

Að mörgu leyti var þessi skattlagning hæpin á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga Íslands varðandi gjaldeyrismál. Með aðild sinni að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum skuldbundu Íslendingar sig til að taka ekki upp tvöfalda gengisskráningu. Veitti sjóðurinn þó tímabundna undanþágu fyrir þessari skattlagningu, en lagði jafnframt áherslu á að gjaldið yrði afnumið við fyrsta tækifæri.

Gjaldið var upphaflega réttlætt á þessum vettvangi sem tímabundin bráðabirgðaráðstöfun, en sú réttlæting varð að sjálfsögðu æ veikari því lengur sem skatturinn var í gildi auk þess sem gjaldið var formlega séð orðið ótímabundinn skattur. Auk þess skapaði gjaldið erfiðleika í framkvæmd og hættu á óeðlilegum gjaldeyrisviðskiptum, sem út af fyrir sig gáfu fullt tilefni til afnáms gjaldsins. Þarf ekki að fara mörgum orðum um þá augljósu hættu á svartamarkaðsbraski með erlendan gjaldeyri sem yfirverð á ferðamannagjaldeyri skapar. Þeir sem vegna starfsemi sinnar eða aðstöðu höfðu undir höndum erlendan gjaldeyri höfðu vegna gjaldsins möguleika á að selja þann gjaldeyri þeim sem hugðu á ferðalög til útlanda á hærra verði en fékkst fyrir gjaldeyrinn við lögskyld gjaldeyrisskil. Er ástæða til að ætla að þó nokkuð hafi verið um slík gjaldeyrisviðskipti vegna álagsins.

Þá skapaði gjaldið einnig mismunun milli þeirra sem höfðu tekjur í erlendum gjaldeyri, sem þeir gátu notað til að sinna viðskiptavinum sínum erlendis, og hinna sem ekki höfðu slíka aðstöðu. Loks var gjaldið erfitt í framkvæmd, þar eð það lagðist aðeins á gjaldeyri sem var seldur til að standa undir dvalarkostnaði erlendis en ekki á gjaldeyri vegna eiginlegs ferðakostnaðar. Var oft mjótt á munum milti þess hvað skyldi teljast til dvalarkostnaðar og hvað til ferðakostnaðar. Einnig sköpuðu undanþáguákvæði laganna um gjaldfrelsi vegna dvalarkostnaðar námsmanna og sjúklinga ýmis vandamál vegna takmarkatilvika.

Samkv. framansögðu er ljóst að álag á ferðagjaldeyri er mjög vafasamur skattur og því augljóst að full ástæða var til að afnema þessa gjaldheimtu.

Til upplýsinga vil ég geta um að tekjur af 10% álagi á ferðagjaldeyri voru 1981 37 millj. 307 þús., 1982 65 millj. 408 þús. og á fjárl. 1983 má gera ráð fyrir 75 millj. Innheimtar á árinu 1983 samkv. ágústyfirliti bókhalds voru 58 millj., kr.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.