07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5428 í B-deild Alþingistíðinda. (4701)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Eiður Guðnason notar hér hvert tækifæri til að undrast málflutning kvenna á Alþingi Íslendinga og finnst mér vera svo komið að ef kona leyfir sér að taka sér orðið „kona“ í munn þá æðrist hv. þm. Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá hv. þm. því að um leið og konur fara að tala við aðrar konur og síðan á málþingum hvers konar, eins og hv. þm. nefndi hérna síðast þegar við vorum saman á fundi í hv. deild um konur, fer þetta að verða verulega hættulegt fyrir þá hagsmuni sem hv. þm. á að gæta í þessu samfélagi eins og aðrir kynbræður hans.

Hv. þm. var ekki hérna inni í salnum þegar ég gat um grundvöll þess að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. og þótt slíkt hljóti að teljast mikil tilhliðrunarsemi er mér alveg ósárt um að fara með það aftur fyrir hv. þm. Orð mín voru á þessa leið:

Ég gerði grein fyrir því að vandi verksmiðjunnar væri ekki leystur, eins og fram kemur í grg. með frv., og að ljóst væri að almenningur á Íslandi ætti að halda áfram að greiða niður orkuna til þessa fyrirtækis, eins og hann hefur alla tíð gert, og að í kaupbæti mætti íslenskur atmenningur eiga von á 5% hækkun á raforkuverði til eigin nota á þessu ári. (Gripið fram í.) Þú heyrðir þetta? — Síðan sagði ég: Á grundvelli þess að í þessu samkomulagi er ekki gerð nokkur einasta tilraun til að hækka raforkuverð til þessa íslensk-erlenda stóriðjufyrirtækis á sama tíma og taka á fé íslenskra skattborgara til að reisa við fjárhag fyrirtækisins, fólks sem hefur greitt margfalt orkuverð á við þann taprekstur sem hér um ræðir og fólks sem má búast við því að taka á sig auknar byrðar í þessum efnum, þá mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.

Ég tek afstöðu til þessa frv. á grundvelli þess samkomulags sem það byggir á. Þetta samkomulag er ég reyndar búin að gera ítrekaðar tilraunir til þess að fá í hendurnar frá iðnrh. Það hefur ekki gengið. Ég hef ekki fengið það í hendurnar enn í dag. Ef ég hins vegar hefði þetta samkomulag, svo að ekki sé minnst á önnur gögn er varða járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, væri kannske einhver möguleiki á því að forma raunhæfari tillögur um hvað væri hægt að gera. Þessi gögn höfum við einfaldlega alls ekki. Hvað á þá að gera? segir hv. þm. Ég segi: Til þess að menn geti komið með viturlegar uppástungur um það þarf að hafa upplýsingarnar í fyrsta lagi og í öðru lagi tel ég alls ekki fráleitt, sem hér var minnst á áðan, að það gæti verið vænlegur kostur að loka þessari verksmiðju einfaldlega. Þarna eru 300 atvinnutækifæri og það er vissulega töluvert. Þetta eru mjög dýr atvinnutækifæri. Það má vel vera að þetta borgi sig ekki. Þetta er kostur sem ég tel að kæmi vel til álita að athuga. En til þess þurfa menn að hafa þær upplýsingar í höndunum sem nauðsynlegar eru.