07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5433 í B-deild Alþingistíðinda. (4708)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Eins og fram kemur gerði Nd. nefndin smávægilegar breytingar á þessu frv. Raunar varða breytingarnar báðar 1. gr.

Í fyrsta lagi er gerð breyting á 3. lið 1. gr. Þar standi „svæðisnefnd“ í stað svæðisstjórnar.

Önnur brtt., sem gerð var í Nd., varðar 6. liðinn. Þar standi „sveitarstjórnum“ í stað svæðisstjórna, sem á nú líklega að vera: svæðisnefnda: — Heimilt er sveitarstjórnum að höfðu samráði við hlutaðeigandi svæðisnefndir að innheimta gjald o. s. frv.

Þessar breytingar eru trúlega gerðar svo að ekki sé verið að stofna til sérstaks innheimtuapparats í þessu tilviki heldur innheimti sveitarstjórnir það gjald sem hér er gerð tillaga um að heimilað verði að innheimta.

Um aðrar greinar frv. er ekki ástæða til að fara mörgum orðum. Ég vildi þó hlaupa yfir þær í örskömmu máli.

1. gr. frv. er í meginatriðum um að kveðið er á um heimildir fyrir sveitarstjórnir, eins og þetta er orðið núna, til gjaldtöku af eftirlitsskyldri starfsemi.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því að Geislavarnir ríkisins verði sérstök deild innan stofnunarinnar.

3., 4., 5. og 6. gr. leiðir raunar af því að Geislavarnir ríkisins eru orðnar að sérstakri deild innan Hollustuverndar.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins sé ekki skylt að annast aðrar rannsóknir en þær sem hún getur sjálf annast nema til komi sérstakar fjárveitingar á fjárl.

8. gr. frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hollustuvernd ríkisins getur samið við aðrar rannsóknastofnanir um að annast rannsóknir fyrir heilbrigðiseftirlitið í landinu, að svo miklu leyti sem stofnuninni er ekki kleift að annast þær og fé er veitt til þess í fjárlögum“.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Það er í sjálfu sér einfalt að allri gerð. Heilbr.- og trn. leggur til einróma að frv. verði samþykkt eins og það var afgreitt frá Nd.