07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5434 í B-deild Alþingistíðinda. (4712)

83. mál, lögræðislög

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. Nd. um 83. mál, sem er frv. til lögræðislaga. Nál. er prentað á þskj. 701. Nefndin varð sammála um þetta nál. og einnig sammála um brtt. sem dreift hefur verið og eru prentaðar á þskj. 702.

Hér er um að ræða frv. sem samþykkt hafði verið í Ed. óbreytt, en allshn. Nd. gerir till. um breytingu á þremur greinum frv. Efnislega er hér raunverulega um sömu breytingarnar að ræða. Þær felast fyrst og fremst í því að í 17. gr. frv., eins og það liggur fyrir og eins og það kom frá Ed., er gert ráð fyrir að á vegum dómsmrn. skuli starfa trúnaðarlæknir sem rn. geti leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til vistunar manns á sjúkrastofnun eða hæli. Frv. gerir ráð fyrir að um slíka tímabundna vistun geti verið að ræða án samþykkis hlutaðeigandi, allt að 15 dögum, án þess að á þeim fresti komi til sjálfræðis- eða fjárræðissvipting, lögræðissvipting jafnvel. Nefndin gerir þá breytingu við þetta ákvæði og þá tilsvarandi breytingar á tveimur öðrum greinum frv. sem leiða af þessari breytingu við 17. gr., þ. e. á 9. gr. og 18. gr., að í stað þess að hér starfi að þessum málum til ráðuneytis dómsmrn. aðeins einn trúnaðarlæknir verði hér sett á laggirnar sérstök nefnd, þ. e. trúnaðarnefnd dómsmrn., sem annast það hlutverk og þau störf sem frv. gerir ráð fyrir að trúnaðarlæknirinn einn gegni. Trúnaðarnefnd þessi skal fjalla um alla úrskurði um fjárræðis-og lögræðissviptingu sem fallið hafa á grundvelli 3. gr.

Jafnframt starfar þessi trúnaðarnefnd á þann veg að dómsmrn. leitar umsagnar hjá trúnaðarnefndinni þegar þörf krefur áður en það veitir heimild til vistunar manna skv. ákvæðum 13. gr. Dómsmrn. skal tilkynna trúnaðarnefndinni þegar heimild hefur verið veitt til vistunar og skal trúnaðarnefndin einnig kanna ástand og aðstæður sjúklings er dvelst á sjúkrahúsi eða hliðstæðri stofnun gegn vilja sínum svo fljótt sem auðið er og eigi seinna en innan viku frá innlagningu.

Það má segja að þetta sé meginefni breytinganna. Í þessari trúnaðarnefnd skulu eiga sæti lögmaður, sem er formaður nefndarinnar, geðlæknir og einn fulltrúi hins almenna borgara. Varamenn séu jafnmargir. Það er dómsmrh. sem skipar í þessa nefnd.

Meginrökin til þess að nefndin varð sammála um þessa breytingu frá frv. eru þau, að með þessu er talið að hagsmunum þess sem úrskurðaður er til vistunar gegn vilja sínum sé betur borgið og frekari stoðum skotið undir réttaröryggið á þessu sviði en ef þarna væri aðeins um einn lækni að ræða. Hér er um það að ræða að í nefndinni á sæti fulltrúi frá leikmönnum, eins og það er orðað, ekki eingöngu læknir eða lögmaður, og hlutverk nefndarinnar er að láta í ljós álit um vistun. Jafnframt að kanna jafnan ástand og aðstæður sjúklings sem dvelst á sjúkrahúsi gegn vilja sínum svo fljótt sem auðið er og alla vega ekki seinna en innan viku frá innlagningu. Þetta er vitanlega gert sérstaklega með hagsmuni sjúklingsins í huga, en hér er oft um vandasöm og erfið mál að ræða.

Ég vil geta þess jafnframt að þessi háttur er í þessum efnum hafður á á hinum Norðurlöndunum og eftir upplýsingum sem nefndin aflaði sér — hún átti viðræður við marga aðila og ræddi þetta mál á mörgum fundum — hefur slíkt nefndarfyrirkomulag gefist ágætlega vel á Norðurlöndum þar sem þegar er nokkur reynsla komin á það. Um þessar breytingar var allshn. alveg sammála eins og þær liggja hér fyrir.