07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5436 í B-deild Alþingistíðinda. (4718)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um að ríkisstj. sé heimilt að selja Hafsteini Lúðvíkssyni kristfjárjörðina Ytra-Vallholt í Seyluhreppi í Skagafirði. 1. flm. þessa frv. ræddi þetta mál mjög skilmerkilega á fundi í Nd., þannig að ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál frekar að öðru leyti en því að það kom fram í máli hans að sá sem óskar eftir að fá að kaupa jörðina á allar framkvæmdir í ræktun og byggingum á jörðinni og kristfjársjóður mundi ekki hafa bolmagn til þess, ef bóndinn hætti búskap þarna, að kaupa mannvirkin.

Það má geta þess að fyrrverandi prófastur í Skagafjarðarprófastdæmi hefur undirritað umsögn bæði hreppsnefndar í Seyluhreppi og enn fremur umsögn jarðanefndar þar sem er lagt til að við þessari beiðni verði orðið.

Eins og fram kemur í nál. 741 mælir landbrn. einróma með því að þessi sala verði heimiluð, frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.

Jón Baldvin Hannibalsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.