07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5439 í B-deild Alþingistíðinda. (4720)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það væri ástæða til að flytja langt mál og vitna í marga lærða menn í sambandi við þetta frv. til l. um heimild til að selja kristfjárjörðina Ytra-Vallholt í Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu. Flm. eru Pálmi Jónsson, Páll Pétursson og Stefán Guðmundsson. Gárungar hafa kallað þetta frv.: Þingmálið: þrír framsóknarmenn gegn Kristi. En sleppum slíku.

Ég vil geta þess að grg. 1. flm. Pálma Jónssonar er ákaflega heiðarleg og vel unnin og hann er þar engu að leyna. Hann getur gjafabréfsins og birtir það. Þetta er ákaflega merkileg íslensk hefð. Ég tek það fram líka að ég vil ekkert vera að leggjast gegn þeim bónda sem þarna býr, enda óþarfi. Hv. þm. pálmi Jónsson hefur farið um hann viðurkenningarorðum. Ég býst við að hv. þm. Ragnar Arnalds geri það líka í Ed. Það er háttur þeirra dreifbýlismanna að fara lofsamlegum orðum um einhverja ákveðna bændur, birta það í þingtíðindum og senda þeim. Við skulum fyrirgefa þeim það, ekki stríðir það á móti þingsköpum eða lögum.

En þessi gróna íslenska sögulega hefð um kristfjárjarðir. Það er eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni: Hver er réttarleg staða þeirra? Væri nú eiginlega nær að hv. 2. þm. Reykn., prófessor Gunnar Schram, væri hér lagaskýrandi. Staða kristfjárjarða er ákaflega þjóðlegt, sérstakt íslenskt fyrirbæri. Ég hef hér undir höndum gögn sem fjalla um kristfjárjörð. Þar segir í gjafabréfi: „til fullkomlegrar og ævinlegrar eignar og nota af voluðum og fátækum í þrem sýslum, Barðastranda-, Ísafjarðar- og Stranda.“

Síðan segir viðkomandi lögfræðingur, sem var nú sérfræðingur ríkisins í landamæraþrætum og gerðamálum og vitnar þar í gamlan ágreining: „sem sýnir að hvorki konungur, kirkja eða hreppar eru eigendur í lagalegum skilningi, heldur eiga jarðirnar sig sjálfar, ef svo má segja sjálfseignarstofnun. Eigandinn er Kristur,“ segir hann svo. Það má líka geta þess að fyrir utan það sem félmrn. hefur dregið saman er ákaflega fróðleg og ítarleg grein sem prófessor Guðbrandur heitinn Jónsson hefur skrifað um kristfjárjarðir.

Væri nú ekki ástæða til að staða þessara jarða væri athuguð og settar væru ákveðnar reglur og lög um takmarkanir, þannig að einhverjir hentistefnuþingmenn — þar hef ég ekki þessa þrjá flm. í huga — geti ekki til að afla fylgis í viðkomandi kjördæmi tekið kristfjárjörð, sem gefin var kannske fjórtán hundruð og eitthvað — konungur rændi meiri hlutanum af þessum jörðum við siðaskiptin — og sagt: Ég held að ég bjargi því á Alþingi að koma jörðinni til þín? Ég held að hefðir séu ákaflega merkilegur þáttur í íslenskri jarðaeign, sem þurfi að fjalla um ítarlegar en eftir hentistefnu einstakra þm. hverju sinni.

Ég tek undir með 3. þm. Reykv. Ég er ekki að veitast að flm. og til að taka mesta glansinn af ummælum frsm., þá er það sjálfsagt rétt að það er mætur og gegn bóndi sem býr á þessari jörð. — Þetta kemur þá líka í þingtíðindi. — En að það sé verið að ráðskast með sögulega hluti, sem eru gífurlega mikið lagaþrætumál, um réttarstöðu þessara jarða og meðferð alla, tel ég afleitt. Og ég tek undir ummæli 3. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, að þegar fsp. hans og hv. þm. Guðmundur Einarssonar kemur hér á dagskrá held ég að upp úr þeim umr. þyrfti annaðhvort að kjósa nefnd eða velja til þess sérhæfða menn eða mann að koma þessu í eitthvert ákveðið form. Þetta á ekki að vera skiptimynt frambjóðenda í einstökum kjördæmum. Við eigum að bera virðingu fyrir íslenskri sögu og íslenskum hefðum. Það er ekki þar með sagt að þarna sé um slæma hluti að ræða, en þessi hentistefnupólitík dreifbýlismanna hefur mér lengi óað.