07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5442 í B-deild Alþingistíðinda. (4723)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég talaði í þessu máli við 1. umr. þess og ætla að bæta nokkrum orðum við þar sem hér hefur komið fram að það mál sem síðast var um fjallað og varðaði kristfjárjarðir hér á hv. Alþingi voru þrjár jarðir í núverandi Reyðarfjarðarhreppi, sem samþykktir voru gerðar um þegar fjallað var um frv. til l. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Það hefur þegar verið nefnt að þar var tekin afstaða til þess hvernig með skyldi fara afgjald eða söluandvirði þessara jarða, og er það í fullu samræmi við þær hugmyndir sem lágu fyrir, meðan þær voru í reynd meðhöndlaðar sem kristfjárjarðir. En gjafabréf fyrir þessum jörðum eru týnd lágu ekki fyrir, og afgjald hafði ekki verið innheimt frá því snemma á þessari öld. Það lagðist síðan niður og umsjá jarðanna virðist hafa farið í svipaðan farveg og ríkisjarða.

En ég vil taka undir það mjög eindregið, að þessi mál þurfa heildarskoðunar við. Væntanlega verður þessi umr. til þess að slík athugun fari fram svo og það sem fram kann að koma þegar hæstv. dómsmrh. svarar fsp. um kristfjárjarðir.