07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5442 í B-deild Alþingistíðinda. (4724)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Um mál þetta hafa orðið nokkuð langar umræður og er það að vonum. Það er nefnilega oft svo að það ríkir töluverð óvissa um eignarhald jarða.

Vitanlega er það svo, að þegar einhver ráðstafar eignum sínum eftir sinn dag er það fyrst og fremst vilji arfláta sem á að ráða. Það er að sjálfsögðu meginreglan.

Í fornum heimildum og nýjum eru fjölmörg ákvæði og yfirlýsingar um þessi efni. Ef maður grípur niður af handahófi, þá segir svo um Þórð kakala þegar hann kom „róstunum úr“ á 13. öld að hann gaf jörðina Skógtjörn á Álftanesi fyrir sálu föður síns og móður. Ekki veit ég meira um þessa jörð né hver á hana nú.

Hv. 7. þm. Reykv. tók svo til orða um einhverja jörð: Eigandinn er Kristur. Mig minnir að svo standi í Íslandsklukkunni um ábúðarjörð þess fræga manns Jóns Hreggviðssonar: „Kristur átti jörðina með sex kvígildum“.

Þannig mætti náttúrlega nefna fjöldamörg dæmi frá gamalli og nýrri tíð. Þess vegna hefur þótt hin fyllsta þörf á því að skýra þessi mál öll frá grunni, ef svo má segja. Og það hafa lengi verið uppi um það ákveðnar raddir af hálfu kirkjunnar manna. Sérstaklega hafa þeir vitnað í þá miklu byltingu sem varð í eignarumráðum af þessu tagi árið 1907 og raunar mætti nefna önnur ártöl frá fyrri öldum einnig. Því var það að ég skipaði nefnd sem dóms- og kirkjumrh., mig minnir árið 1982 eða 1983, til að rannsaka og kryfja öll þessi mál til mergjar. Og af því að það hefur verið haft á orði að þessi mál þyrfti að rannsaka mjög nákvæmlega ætla ég að gefa upplýsingar um það að mér er ekki um annað kunnugt en þessi nefnd starfi af miklum þrótti undir formennsku Páls Sigurðssonar dósents við lagadeild Háskólans. Í þessari nefnd eiga sæti auk formanns, ef ég man rétt fyrrverandi biskup dr. Sigurbjörn Einarsson, Benedikt Blöndal hæstaréttarlögmaður, Þórhallur Höskuldsson sóknarprestur og Allan Magnússon, lögfræðingur á Selfossi, en faðir hans, Magnús Már fyrrverandi prófessor við Háskólann, mun vera einn allra fróðasti Íslendingur um þessi efni. Er áreiðanlega gott og hollt að leita ráða hans um mörg vafaatriði á þessu sviði. Starfsmaður nefndarinnar nú í nokkra mánuði er Ólafur skólastjóri Ásgeirsson á Akranesi, en hann hefur sérstakt leyfi frá störfum til að vinna á vegum nefndarinnar. Hann er einnig mjög fróður um þessi málefni. Ég vil því vænta þess að árangur af starfi þessarar nefndar verði sá innan tíðar að það verði öruggari vissa og meiri birta í hugum manna um þessi mál í náinni framtíð.