07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5449 í B-deild Alþingistíðinda. (4740)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. iðnn. um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að selja lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði. Nál. hljóðar þannig með leyfi forseta:

„Nefndin hefur haft málið til meðferðar. Leitaði hún umsagnar ríkisendurskoðunar um málið varðandi kaupverð og lánskjör. Ríkisendurskoðun gerði ekki athugasemdir við frv. og benti á „að skuldabréf fyrir kaupverð er verðtryggt að fullu miðað við lánskjaravísitölu auk þess sem það ber hæstu vexti af slíkum lánsskjölum. Slík skjöl hafa fram að þessu þótt góð fjárfesting og ávöxtunarleið hjá sparifjáreigendum.“

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. lagði til að frv. yrði samþykki, en Hjörleifur Guttormsson skilar séráliti.

Alþingi, 3. maí 1984.“

Undir þetta skrifa Páll Pétursson, Ingvar Gíslason, Friðrik Sophusson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Gunnar G. Schram og Kristín Halldórsdóttir með fyrirvara.