07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5472 í B-deild Alþingistíðinda. (4749)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Eftir þessa stórmerku ræðu hv. 7. þm. Reykv. Guðmundar J. Guðmundssonar, væri kannske ekki miklu við að bæta efnislega, en ég vil taka undir það, sem mér fannst vera kjarni málsins í hans ræðu, að það ber að leggja áherslu á að ríkismat á því sviði sem hér er fjallað um sé óháð, þ. e. eins og þetta hefur tíðkast á liðnum áratugum, ríkismat óháð bæði hagsmunaaðilum og einnig hinu pólitíska valdi.

Það var ekki ofmælt sem hv. þm. sagði þegar hann lýsti því í stórum dráttum hvað þetta fyrirkomulag hefur gefist Íslendingum vel. Það er viðurkennd staðreynd, hvað sem líður harðnandi samkeppni frá öðum þjóðum, að Íslendingar hafa með því fyrirkomulagi, sem tíðkast hefur á liðnum áratugum, náð þeim árangri í framleiðslu og gæðum á sjávarafurðum að standa fremstir þjóða í því að selja gæðavörur á erlendum mörkuðum og er óþarft að bæta miklu við það sem hv. þm. sagði um það efni.

Þar hafa margir komið við sögu, en ég held að það hafi ekki verið ofmælt hjá hv. þm. þegar hann tiltók hér sérstaklega störf Jóns heitins Gunnarssonar verkfræðings þegar hann fór til Bandaríkjanna í stríðslokin og ruddi brautina. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að sá heiðursmaður, Jón Gunnarsson, markaði brautina, sagði Íslendingum það sem skipti meginmáli, þegar þeir ætluðu að ná árangri miðað við nútímaaðstæður, að gæðin væru það sem skipti höfuðmáli ef Íslendingar vildu vera hlutgengir á erlendum mörkuðum í sölu matvæla. Jón heitinn Gunnarsson lagði ásamt mörgum öðrum, sem tóku þátt í þessu starfi á árunum frá 1950, og ég vil segja sérstaklega áratugnum 1950 til 1960, áherslu á að mat á sjávarafurðum, bæði í vinnslu og einnig við útflutning, þyrfti að vera óháð, það var grundvallaratriði, þ. e. óháð því sem ég gat um hér áðan, að hið pólitíska vald kæmi inn í þessi mál með óvenjulegum hætti eða einstaka framleiðendur reyndu að hafa áhrif á þessi mál með þeim hætti að það gæti skaðað heildarhagsmuni þjóðarinnar þegar varan væri boðin á hinum erlendu mörkuðum því það mætti ekki ske að skemmd eða léleg vara færi í íslenskar umbúðir. Þess vegna er ég sammála hv. þm. í því, sem hann sagði í sinni ræðu, að það frv. sem hér liggur fyrir er í grundvallaratriðum breyting frá rík] andi fyrirkomulagi — fyrirkomulagi sem hefur reynst Íslendingum vel.

Það kann að vera að stjórnarflokkarnir séu búnir að ganga þannig frá málum að þetta frv. eigi að fara í gegn, en ég vil þá taka undir orð hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar um að það er verið að taka upp verra fyrirkomulag. Gildandi fyrirkomulag hefur reynst mjög vel. Ég hef ekki séð, hvorki í grg. með því frv. sem hér liggur fyrir né heyrt í framsöguræðum þann tíma sem ég hef setið á þingi á liðnum vetri, sem munu vera hér um bil 80% af þingtíma þm. sem situr hér sem aðalmaður, þannig að ég hef fylgst töluvert með þessu máli, — ég hef ekki heyrt þá gagnrýni á ríkjandi fyrirkomulag sem réttlætir þær grundvallar- og róttæku breytingar sem eru í því frv. sem hér er til meðferðar. Gildandi fyrirkomulag hefur verið mjög gott. Það hefur verið aðhaldskerfi í þeim skilningi að það hefur bæði veitt framleiðendum mjög gott aðhald og haldið stjórnmálamönnum í hæfilegri fjarlægð frá framkvæmd þessara mála, sem er mjög æskilegt.

Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. sjútvrh. hugsi sér að þetta frv. eigi að leiða til þess að stjórnmálamenn fari að fjalla mikið um framkvæmd þessara mála. Allavega hefur það ekki verið hugsun hans hér á þingi þann tíma sem hann hefur verið alþm. Það hefur a. m. k. hvorki komið fram hér á hv. þingi né opinberlega. Hins vegar held ég að hér sé hæstv. ráðh. samt með á ferðinni frv. sem geti leitt til óeðlilegra og óæskilegra pólitískra afskipta, ef lögunum er beitt þannig.

Ég vildi undirstrika það sjónarmið að það fyrirkomulag sem hefur verið í gildi hefur reynst vel, eins og kom fram hjá hv. ræðumanni Guðmundi J. Guðmundssyni. Það hefur ekki komið fram gagnrýni á ríkjandi fyrirkomulag frá þeim aðilum, sem títt er vitnað til, sem eru hagsmunaaðilarnir. Mér finnst það ljóður á þessu frv., og það kann ýmsum hv. þm. að þykja einkennilegt að ég skuli segja það þar sem ég er talsmaður hagsmunasamtaka, hvað aðild hagsmunasamtakanna á að vera miklu meiri gagnvart þeirri framkvæmd sem hér um ræðir. Þannig hefur hún ekki verið. Það hefur einmitt verið styrkur fiskmatsins á liðnum áratugum að hagsmunasamtökin hafa ekki getað haft of mikil áhrif á framkvæmd þessara mála. En það þýðir aftur á móti ekki að þar hafi ekki verið um ágætt samstarf að ræða oft og tíðum og yfirleitt alltaf og sérstaklega á síðustu árum.

Það er ekkert leyndarmál, og vita allir sem hafa komið nálægt þessari atvinnugrein, að oft eru árekstrar mjög harðir einmitt á milli hagsmunasamtakanna annars vegar og starfsmanna fiskmatsins hins vegar. Þá skiptir það miklu máli fyrir þá sem eiga að framkvæma fiskmatið að hagsmunasamtökin nái ekki til þessara manna, sem vinna oft mjög erfitt og vanþakklátt starf, sem er að framkvæma fiskmat, og úrskurða oft og tíðum vöru óhæfa til sölu erlendis eða hráefni ónothæft í vinnslu. Það getur vel verið að sá tíðarandi sé að ryðja sér til rúms að allt sé réttlætanlegt í nafni kerfisins og stjórnunar og skipulags, en ég vil þá segja það sem mína skoðun að í þessu tilviki er það ekki. Hér erum við að ræða um fjöregg þjóðarinnar og um leið að vernda líka þá menn sem eiga að framkvæma það verk sem Fiskmat ríkisins á að sjá um á hverjum tíma. Ég kannast ekki við það úr þeim samtökum sem ég starfa hjá að verið sé að kalla eftir því að gera störf þessara manna háðari framleiðendum eða hagsmunasamtökum eða gera þeim þessi störf erfiðari en æskilegt er. Ég tel því að þetta frv. sé afturför frá ríkjandi fyrirkomulagi og sérstaklega með tilliti til framkvæmdar þessa mats sem hér um ræðir.

Í nál. er vísað til þess, og einnig í frv. er gert ráð fyrir því, að hagsmunasamtökin skipi í fiskmatsráð. Ég les nú nokkur orð úr nál. sem merkt er skjal 734. Þar segir, með leyfi forseta, m. a.:

„Frv. barst sjútvn. 28. nóv. s. l. Málið var síðan sent til umsagnar 8. des. Alls bárust 16 umsagnir um frv. og hefur n. fjallað um það á níu fundum.“

Ég vildi óska eftir því við hv. formann sjútvn. að hann læsi fyrir þingheim þær umsagnir sem hafa komið skriflega til n. (Gripið fram í: Allar?) Allar, já. Ég held að það taki ekki mjög langan tíma að lesa upp þessi gögn, einhvern veginn held ég það. En það kemur þá í ljós þegar það verður lesið upp.

Ég tel það vera mikinn ljóð á hæstv. Alþingi og hef tekið eftir því s. l. vetur að það er oft vitnað til hagsmunasamtaka og hagsmunaaðila, en þegar á reynir virðist stundum vanta skriflegar umsagnir frá þessum aðilum. Hins vegar kunna kannske einstaka starfsmenn frá viðkomandi hagsmunasamtökum eða fyrirtækjum að hafa mætt á fundum og þá er náttúrlega mjög æskilegt að það liggi fyrir hvort viðkomandi menn tali í umboði þeirra hagsmunasamtaka sem vitnað er til. Þetta segi ég m. a. sérstaklega með tilliti til þess að ég held það sé mjög nauðsynlegt að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að þeir verða að veita þessum aðilum ákveðna vernd fyrir því valdi sem hæstv. Alþingi hefur þegar verið er að vitna annaðhvort í ummæli einstakra manna eða til einstakra hagsmunasamtaka. (Gripið fram í: Hv. þm. Bara til upplýsingar. Umsögnin frá einum aðila er t. d. upp á 28 vélritaðar síður. Það yrði farið að síga á fundinn ef ég læsi þetta allt saman.) Já, þá vil ég ráðleggja hv. þm. að hraðlesa þá umsögn. Einhvern veginn held ég að sú umsögn komi úr kerfinu. Það er kannske ekki það sem skiptir mestu máli að lesa upp umsagnir sem koma úr kerfinu sjálfu. Við þekkjum það, gamlir kerfiskarlar. Ég var einn af þeim áður fyrr, en hætti sem betur fór að starfa í kerfinu og reyndi að vinna úti í atvinnulífinu. Það er einu sinni háttur kerfiskarla að skrifa langar umsagnir, annars væru þeir starfslausir.

Ég mun þá halda áfram þar sem ég endaði áður en var gripið fram í fyrir mér. Það er áminning til hv. þm. og nefnda Alþingis. Menn verða að gæta sín í því þegar verið er að vísa til þess að talað hafi verið við hagsmunaaðila og síðan er ekkert farið nánar út í það. Hins vegar kemur það kannske fram í umsögnum að það hafi komið Jón Jónsson frá þessu fyrirtæki eða hinu, en þegar á á að herða gæti kannske verið að viðkomandi hefði ekki það umboð sem gefið er í skyn að hann kynni að hafa haft þegar verið er að afgreiða mál á þingi. Það getur komið sér mjög illa fyrir ákveðna menn utan þings að gera grein fyrir sínum málum þannig að alþjóð heyrði, en hv. þm. gætu hins vegar gengið í það verk að samþykkja hér veigamikil lagafrumvörp, sumir í þeirri góðu trú að viðkomandi hagsmunasamtök eða aðilar séu að tala fyrir hóp þeirra sem framkvæmd þeirra laga sem hv. Alþingi er að samþykkja skiptir máli fyrir. Það kemur þá væntanlega fram hvort þessu sé fullnægt þegar hv. formaður sjútvn. Nd. hefur lesið umsagnirnar. Ég tel málið einnig það stórt í sniðum að þótt ein umsögn sé upp á 20 síður sé það ekkert stórmál að hraðlesa það á 15 eða 20 mínútum. Sumar umsagnir eru örugglega það stuttar að það gengur allt saman upp.

Því miður hefur mér ekki gefist kostur á að skoða einstakar greinar frv. nýlega. Ég hef nú lesið það, en þar sem ég settist inn á þing í dag er það ekki jafnfast í huga mínum og fyrir hálfu ári, þannig að ég get ekki fjallað um margar greinar. En litum t. d. á 3. gr., sem fjallar um fiskmatsráð. Ekki er nokkur vafi á að fiskmatsráð mun hafa mjög mikið vald þótt öðrum þræði sé verið að reyna að leggja áherslu á það í grg. að það sé ekki mjög valdamikil stofnun. En þessi stofnun verður valdamikil þegar haft er í huga hvernig fiskmatsráð er skipað. Það er gert ráð fyrir að þarna sé um sjö menn að ræða og þar af skuli eigi færri en fjórir vera úr röðum helstu hagsmunasamtaka sjávarútvegsins. Þá kem ég að því einu sinni enn að mönnum kann að finnast einkennilegt að talsmaður hagsmunasamtaka skuli taka til orða eins og ég ætla að gera á eftir. Hvað eru helstu hagsmunasamtök? Hvers vegna helstu hagsmunasamtök? Það er staðreynd að mjög margir framleiðendur eru utan hagsmunasamtaka. Það er staðreynd að ríkjandi hefur verið áhugi fyrir því að fjölga frekar útflytjendum á vissum mörkuðum í sambandi við útflutning ákveðinna sjávarafurða. Það hefur verið talið af hinu góða og það jafnvel af stærstu útflutningssamtökum þjóðarinnar.

Þar hefur orðið ákveðin viðhorfsbreyting í vissum efnum. Ég nefni sem dæmi t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem vitnað var til áðan. Þau samtök, sem eru mjög stór að vísu, hafa ekki lagt áherslu á að allir skuli endilega vera annaðhvort innan vébanda SH eða sjávarafurðadeildar SÍS til þess að mega framleiða sjávarafurðir og flytja þær út. Það sem hefur verið lögð áhersla á af hálfu þeirra sem hafa ráðið þeim samtökum er sama grundvallaratriðið sem hér hefur komið fram um óháð ríkismat, þ. e. að allir sætu við sama borð og mönnum yrði ekki mismunað í sambandi við framleiðslu, vinnslu og yfirleitt alla aðstöðu í sambandi við vinnslu sjávarafurða og útflutning. Inn í það dæmi kemur að sjálfsögðu að það þarf að afnema allan aðstöðumun, hvort sem er í sambandi við staðbundna, pólitíska eða fjárhagslega fyrirgreiðslu hins pólitíska valds eins og hefur því miður tíðkast á liðnum árum.

Þetta frv. stefnir ekki í þá átt í sambandi við fiskmat ef á að ákveða að helstu hagsmunasamtökin skuli ásamt stjórnmálavaldinu ákveða hverjir skuli mynda fiskmatsráð. Þá er spursmálið: Hvað þá um hina sem ekki eru í hagsmunasamtökum? Hvað er þá um litla manninn í íslensku þjóðfélagi? Ég tel mig vera í stjórnmálum m. a. vegna litla mannsins og litli maðurinn á að lifa þrátt fyrir stóru samtökin og stóru fyrirtækin. Það er yfirlýst stefna þess flokks sem ég styð og berst fyrir og er í forustu fyrir að sá litli skuli lifa jafnt og hinn stóri. Skv. þessu er ekki rúm fyrir hann í fiskmatsráði. Það þykir mér slæmt.

Þetta var sett fram til umhugsunar vegna þess að fiskmatsráð á að ráða mjög miklu skv. 12. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkismat sjávarafurða skal hafa eftirlit með gæðum hráefnis og skal stöðva vinnslu, ef gæði hráefnis fullnægja ekki kröfum, sem settar eru í reglum skv. lögum þessum.“

4/7 hlutar fiskmatsráðs skulu ákveða hvort eigi að stöðva framleiðendur í viðkomandi hagsmunasamtökum brjóti þeir af sér, hvort eigi að stöðva þá eða koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að starfa. Ég vil segja að til þessa hefur þess verið gætt í stóru sölusamtökunum að menn kæmust ekki upp með að framleiða skemmdar eða lélegar vörur. Það hefur ekki þurft lagaboð með þeim hætti né eftirlit umfram það sem verið hefur til að koma í veg fyrir það.

Þá er annað atriði sem ég held að sé mjög þýðingarmikið að fjalla um. Það er í sambandi við 18. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Framleiðendur skulu hafa í sinni þjónustu til matsstarfa löggilta matsmenn, sem samþykktir eru af afurðadeild, eða fá til þess matsmenn sem ríkismatið samþykkir.“

Það verður fróðlegt að sjá hvernig á að framkvæma þetta á minni stöðum. Hvernig verða slíkir menn óháðir í litlu kauptúni sem telur 200, 300, 400 manns? Hingað til hefur það verið þannig að fiskmatið hefur sent sína menn á þessa staði eftir þörfum og aðstæðum, en hvernig á það að vera hjá framleiðanda eða framleiðendum á þessum litlu stöðum? Hvernig verða slíkir eftirlitsmenn óháðir? Mér er spurn.

Ég held það sé nauðsynlegt að menn hafi í huga að við höfum búið við mjög gott kerfi í þessum efnum, annars vegar kerfi framleiðenda sjálfra, sem þeir hafa borið ábyrgð á eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar áðan, og hins vegar þetta óháða opinbera vald eða eftirlit. Þetta hefur reynst mjög vel. Auðvitað má kannske breyta þar einhverju og lagfæra eitthvað. Það þarf alltaf að gera slíkt. Það þarf alltaf að breyta og lagfæra, en ég er þeirrar skoðunar að ekki þurfi að umbylta þessu með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.

Síðan er það 19. gr. Þar segir m. a.:

„Eftirlitsmenn skulu vinna að samræmingu mats og eftirlits ásamt yfirfiskmatsmönnum og taka þátt í yfirmati á afurðum áður en útskipun fer fram.“

Ég veit ekki hvernig á að orða það svo að vel sé, en kannske er það þannig að eftir því sem maður vinnur lengur í viðkomandi atvinnugrein og þekkir betur til þar, þá veit maður minna um hvernig þetta er framkvæmt. En ég spyr: Hvernig í ósköpunum á að framkvæma þetta? Það væri fróðlegt að fá það upplýst. Ég held að þarna sé verið að gera einfalt mál mjög flókið. Síðan segir:

„Útflytjendum sjávarafurða, sem ekki hafa í þjónustu sinni löggilta eftirlitsmenn, er skylt að kaupa þessa þjónustu af aðilum sem Ríkismat sjávarafurða samþykkir.“

Út af fyrir sig er hægt að fallast á það, en þá væri fróðlegt að heyra hvernig ætti að framkvæma þetta svo að vel sé á hinum minni stöðum. Ég held að um leið og verið sé að setja hagsmunaaðila inn í þessi mál meira en ég tel æskilegt sé einnig verið að gera þau flóknari. Það er því ekki til bóta að gera þær breytingar sem hér um ræðir.

Varðandi það hvernig að þessum málum hefur verið staðið er rétt að ítreka að af hálfu framleiðenda sjálfra hefur verið í frjálsu samstarfi reynt að skipuleggja þessi mál og það hefur reynst mjög vel. Auðvitað koma upp einstöku sinnum þau vandamál að menn gera mistök. Það er misjafn sauður í mörgu fé. Það getur komið fyrir að einstaka framleiðendur fullnægja ekki þeim kröfum eða skyldum sem útflytjendur, hvort sem það eru samtök eða einstaklingar, leggja þeim á herðar. Þá þarf auðvitað að stöðva slíka aðila eða koma vitinu fyrir þá. En af hálfu þeirra aðila sem hafa unnið að þessum málum á liðnum áratugum hefur ekki verið kallað eftir ríkismati með þeim hætti sem hér er gert svo að mér sé kunnugt um. Það kann að koma fram í þeim umsögnum, sem verða væntanlega lesnar upp á eftir, að þetta sé rangur skilningur hjá mér.

Þeir aðilar sem fjalla um þetta hafa haft mikið og gott aðhald vegna þess skipulags sem hefur verið ríkjandi af hálfu ríkisvaldsins, en þá er einnig vert að vekja athygli á, og mér finnst hér skjóta skökku við, að á sama tíma sem t. d. stærstu sölusamtökin, eins og t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeild SÍS, hafa stóraukið sína starfsemi á þessu sviði er verið að breyta ríkismatinu, þ. e. eftirliti hins opinbera, með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Það er verið að færa þetta nær því að njörva þetta niður í svipað fyrirkomulag og við þekkjum frá landbúnaðinum. Það þykir mér mikil afturför og það spáir ekki góðu um framtíðina fyrir þessa aðila.

Það sem þessir aðilar hafa verið að gera á undanförnum árum er: 1. Þeir hafa verið að fjölga eigin eftirlitsmönnum. 2. Þeir hafa verið að auka hið frjálsa góða samstarf við ríkiseftirlitið. 3. Þeir hafa lagt aukna áherslu á fræðslu og gildi menntunar fyrir starfsfólk í fiskiðnaði. Það er mjög mikilvægt atriði. Þetta hefur gerst bæði í sambandi við almenna fræðslu fyrir fólk í fiskvinnslu og einnig í tengslum við breytingu á launakerfum í fiskiðnaði. Meginþorri verkafólks og fiskiðnaðarfólks þekkir því þessi mál mun betur en var fyrir svona áratug. Í þessu fræðslustarfi og einnig í sambandi við samninga við verkalýðshreyfinguna hefur verið lögð mikil áhersla á vöruvöndun og þá með sérstöku tilliti til þess hvers konar efni er til meðferðar, þetta er matvælaframleiðsla, og einnig með sérstöku tilliti til óska og þeirrar kröfu sem markaðirnir gera til gæða vörunnar. Þetta hefur verið gert í stórauknu átaki á síðasta áratug. Eins og ég sagði hefur það verið gert í frjálsu og góðu samstarfi við fiskmatið og fiskvinnsluskólana og einnig aðra opinbera aðila sem koma við sögu. Ég vil vekja athygli á að í þessu starfi hefur tekið þátt mikið af ungu fólki. Það starfar mikið af ungu fólki í íslenskum fiskiðnaði, miklu fleira en menn gera sér grein fyrir. Menntun þessa fólks er allt önnur en hún var fyrir svona rúmum áratug.

Sölusamtök, eins og t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna svo að ég taki bara dæmi til að gera þetta skýrara, hafa allt frá upphafi, 1942, lagt alveg sérstaka áherslu á vöruvöndun. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar var það alveg sértaklega eftir tilkomu Jóns Gunnarssonar, — árið 1944, sem þessi þáttur var tekinn upp sérstaklega á vegum þessara samtaka, þ. e. að kenna fólki vöruvöndun í frystihúsunum, og það starf hófst skipulega sérstaklega á vegum SH um og eftir 1944. Þetta starf var á þeim tíma fyrst og fremst í höndum eigenda, verkstjóra og leiðbeinenda í því fiskmati sem þá var framkvæmt. Það var útfært þannig m. a., að starfsmenn sölusamtakanna komu sem leiðbeinendur inn í fiskvinnslustöðvarnar eða eftirlitsmenn á vegum samtakanna fylgdust með þessu og kenndu fólkinu. Á síðustu árum hefur þetta starf verið stóraukið og er orðinn veigamikill kostnaðarliður t. d. í starfsemi Sölumiðstöðvarinnar að reka þá deild sem kölluð er framleiðsludeild. Það er gert þannig að í gegnum eftirlitsmenn og leiðbeinendur var kennt ákveðið vinnuskipulag. Það er kennt hvernig á að ganga frá vörunni, snyrta hana, skera í burtu galla o. s. frv. Það eru ekki aðeins verkstjórar eða eigendur sem koma við sögu, heldur ungt fólk sem hefur lært sérstaklega til þessara hluta bæði hér heima og erlendis. Þá hefur það aukist á síðustu árum að starfsmenn, sérstaklega verkstjórar, fari á helstu markaði og kynni sér kröfur og óskir kaupenda. Sem dæmi get ég nefnt það, til þess að það komi nú fram einhvers staðar, að á vegum Sölumiðstöðvarinnar fóru til Bandaríkjanna á s. l. vetri á annað hundrað verkstjórar og eftirlitsmenn til að kynna sér þessi mál. Þetta var unnið m. a. í góðu samstarfi við starfsmenn þess fiskeftirlits sem nú á að fara að leggja niður og breyta.

Það er ekki eins og hér hafi ekkert verið gert. Til viðbótar hefur einnig verið varið stórfé í að útbúa alls konar fræðsluefni og það hefur verið gert í samstarfi við ferskfiskeftirlitið. Það er gert bæði í rituðu máli og það hafa verið útbúnar kvikmyndir, myndbönd. Sem dæmi get ég nefnt að á 11/2 ári hefur verið dreift á þriðja hundrað myndböndum og kvikmyndum á vegum SH, bæði hér heima og erlendis, þar sem sýnt er hvernig varan er unnin í íslenskum fiskiðnaði. Menn væru ekki að leggja þetta á sig ef þeir teldu að það mat sem hefur verið í þessum efnum, sérstaklega í sambandi við fiskmatið, væri þess eðlis að ekki væri hægt að sýna það erlendum aðilum eða vinna skv. því. Þetta vil ég undirstrika. Mér finnst mjög ómaklegt þegar verið er að fjalla um jafnviðkvæm og erfið mál og hér eru á ferðinni í sambandi við fiskmat yfirleitt, að þá skuli það vera gert með þeim hætti sem hér er nú að staðið.

Það vita allir, sem koma nálægt sjávarútvegi og fiskiðnaði, að á hverju ári koma fram kvartanir frá erlendum kaupendum. Það kemur því miður gallaður fiskur á land og þarf að úrskurða þann fisk óhæfan í framleiðslukerfinu. En ef við höfum í huga hversu gífurlega mikið magn sjávarafurða er til meðferðar hér á Íslandi á ári hverju er það tiltölulega lítið sem hefur farið í úrkast. Það geta auðvitað komið upp einstöku tilfelli sem eru því miður allt of stór. Ég tel ómaklegt að kenna um þeim starfsmönnum sem hafa haft með höndum framkvæmd fiskmats skv. gildandi lögum. Sem betur fer hafa þm. sem eru 100% þm. tekið þetta mál fastari tökum en varaþm. gerðu. En því miður vil ég segja að þeir hafa gert það með þeim hætti þann 3. maí að ég held að það hefði verið æskilegra fyrir hv. sjútvn. að lofa þessu máli að hvíla um stund, alla vega í sumar, þannig að það væri hægt að skoða þetta enn betur. Ég veit að það er ekki knýjandi nauðsyn að breyta frá ríkjandi fyrirkomulagi í framkvæmd þessara mála.

Varaþm. er fullgildur þm. Ég set því fram mínar skoðanir sem slíkur. Ég hefði talið æskilegt að þetta mál hefði ekki verið keyrt áfram með þeim hætti sem nú virðist eiga að gera og vildi segja það að lokum sem mína skoðun að best væri að þing frestáði nú afgreiðslu þess og einnig væri best að frv. væri allt tekið til rækilegrar endurskoðunar og væri skoðað betur það góða sem hefur verið í ríkjandi fyrirkomulagi, en ekki sé farið að umbylta þessu og tengja of mikið annars vegar hagsmunaaðilum og hins vegar pólitíska valdinu í landinu. Það er mikil afturför og er ekki til góðs fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskiðnað. Í þeirri atkvgr. sem fram fer um þetta frv. mun ég því greiða atkv. gegn framkvæmdum þessum.