08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

41. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrri spurningunni, um hvað líði framkvæmd laganna, svara ég svona: Í lögunum um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25 frá 1975 er sérstaklega kveðið á um fræðslu varðandi kynferðismál. Gert var ráð fyrir að auka almenna ráðgjöf og fræðslu í skólum. Til að tryggja að allir njóti einhverrar fræðslu um þessi mál, án tillits til áframhaldandi skólagöngu, var gert ráð fyrir kynfræðslu á skyldunámsstigi.

Við undirbúning lagasetningarinnar var m.a. gerð úttekt á kynfræðslu í skyldunámsskólum á þeim tíma. Í námsskránni, sem þá var í gildi og var útgefin 1960, var ekki gert ráð fyrir almennri kynfræðslu. Lítillega var fjallað um þessi mál í námsefni og þá einna helst í heilsufræði en langt í frá að það væri talið fullnægjandi. Dæmi voru um það að kennarar skipulegðu ítarlega fræðslu að eigin frumkvæði.

Formlega séð var kynfræðsla mál skólayfirlæknis í samráði og samvinnu við fræðsluyfirvöld. Að þessu leyti var skólayfirlæknir eins konar tengiliður milli heilbrigðisyfirvalda og fræðsluyfirvalda. Á vegum þess embættis önnuðust skólahjúkrunarkonur allvíða kynfræðslu en hún var gjarnan takmörkuð við stúlkur einar og þá þætti sem snerta tíðahringinn og hreinlæti. Örstutt grg. verður nú gefin um kynfræðslu eftir aldri nemenda.

Hinir ýmsu þættir kynfræðslu í grunnskólum dreifast á námsárin og megináherslan er lögð á upphaf og lok kynþroskaskeiðsins. Varðandi nemendur á ýmsum aldri er staðan svona:

7 ára nemendur: Í samfélagsfræði er tekinn fyrir námsþátturinn „Barn verður til“ í tengslum við umfjöllun um fjölskylduna.

11–12 ára nemendur: Í líffræði er fjallað um mannslíkamann. Um það bil þriðjungur námsefnisins er kynfræðsla.

13–14 ára nemendur: Í samfélagsfræði er í undirbúningi námsefni um fjölskylduna, skólann og atvinnulífið. Málefni unglingsins verða þar í brennidepli og þá fjallað um kynlíf. Í líffræði er stór hluti námsefnisins bein kynfræðsla. Í kristinfræði er fjallað um siðfræði og þar með siðfræði kynlífs.

15 ára nemendur: Í heimilisfræði er ráðgert að taka fyrir námsþáttinn „Barnið í fjölskyldu og samfélagi“. Í öðrum námsgreinum gefast tilefni til að fara inn á kynfræðslu á ýmsum aldursstigum, en það fer eftir kennurum hvort það er gert og á hvern hátt.

Um náms- og kennslugögn er þetta að segja: Námsgagnastofnun hefur gefið út það námsefni sem samið hefur verið á vegum skólarannsóknadeildar, en auk þess hefur stofnunin á boðstólum ýmis önnur námsog kennslugögn sem nýtast við kynfræðslu.

Ef upp er talið útgefið námsefni, þá er það þetta: „Barn verður til“, samfélagsfræði fyrir 7 ára börn, og verkefnablöð fyrir nemendur, litskyggnuflokkur með skýringum og kennsluleiðbeiningar.

„Maðurinn“, þ.e. fyrsti hluti þess efnis, líffræði fyrir 11–12 ára börn, textahefti með vinnublöðum fyrir nemendur, litskyggnuflokkar með skýringum, kennsluleiðbeiningar.

„Æxlun lífvera“, það er líffræði fyrir 14 ára nem endur, textahefti og vinnublöð fyrir nemendur.

„Æxlun mannsins“, það er líffræði fyrir 14 ára nemendur, textahefti, vinnublöð fyrir nemendur og litskyggnuflokkar með skýringum.

„Siðfræði“, það er í kristinfræði fyrir 14 ára nemendur, textahefti með verkefnum, spurningum og umræðuefnum ásamt kennsluleiðbeiningum.

Síðan eru það fræðslurit landlæknisembættis, 7.–9. bekkur, bæklingur um kynsjúkdóma og helstu getnaðarvarnir.

Margs konar annað efni stendur kennurum til boða. svo sem kvikmyndir á Fræðslumyndasafni, glærur og lesefni á skólasöfnum auk efnis á frjálsum markaði. Í undirbúningi er nokkurt efni. Ólokið er samningu kennsluleiðbeininga með líffræðiefni fyrir 14 ára nemendur. Efni innan heimilisfræði, „Barnið í fjölskyldu og samfélagi“, er til í tilraunaútgáfu og eftir um það bil mánuð er væntanleg úr prentun vönduð bók um fósturþroska. Hún verður hluti af námsefni í líffræði. Komin er grind að námsefni um unglinginn, en það verður hluti samfélagsfræðiefnisins um fjölskylduna, skólann og atvinnulífið.

Ef ég vík að kennaranum og kennslunni, þá eru kennarar misjafnlega vel í stakk búnir til að annast kynfræðslu. Þar kemur tvennt til. Annars vegar eru skiptar skoðanir á því hvernig standa skuli að kennslunni og á hvaða þátt skuli leggja áherslu. Hins vegar er ókunnugleiki á nýju efni. Á undanförnum árum hefur nýtt námsefni í kynfræðslu sem öðru verið sýnt rækilega á námskeiðum og fundum með kennurum auk þess sem umfjöllun um kynfræðslu er fastur liður í kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands. Full þörf virðist vera á námskeiðum um kynfræðslu fyrir kennara og leiðbeiningum um kennslu og auk þess á samstarfi við foreldra um þessi efni.

Það er erfitt að segja nákvæmlega hve mikill tími fer í kynfræðslu í grunnskóla. Þó er óhætt að fullyrða að sá tími hefur margfaldast á síðustu árum. Fyrir endurskoðun námsefnis má áætla að kynfræðsla hafi numið að meðaltali um 10 kennslustundum á skyldunámsferli hvers nemanda. Ef gert er ráð fyrir notkun þess nýja efnis sem nú er á boðstólum má ætla að lágmarki 80 kennslustundir á skyldunámsferli nemenda. Efni sem beinlínis er ætlað til kynfræðslu hefur margfaldast og vantar í raun lítið á að tekist hafi til fulls að hrinda áætlun skólarannsóknadeildar í framkvæmd um þetta efni. Hins vegar þarf að gera átak í að fylgja nýju efni eftir í skólum með námskeiðum fyrir kennara og leiðbeiningu og aðstoð. Gert er ráð fyrir að kennarar þurfi nokkurn aðlögunartíma til að taka upp nýtt námsefni og kennsluhætti. Hið nýja kynfræðsluefni er því ekki komið í alla skóla enn þá. Veturinn 1980–1981 var gerð könnun á útbreiðslu nýs námsefnis í líffræði. Samkvæmt henni nær sá hluti efnisins sem lýtur að kynfræðslu til um það bil 60% nemenda á aldrinum 11–12 ára og 80% 14 ára nemenda. Mörg dæmi eru um það að skólar sem ekki hafa alfarið tekið upp nýtt námsefni hafa nýtt sér ýmsa hluta þess, t.d. kynfræðsluefni. Síðan könnunin var gerð hafa nokkrir stórir skólar bæst við og má því segja að kynfræðslan í líffræði nái til velflestra nemenda á landinu.

Vík ég þá að helstu annmörkum, sem komið hafa í ljós, og er þá ekki úr vegi að geta einnig um kostina. — Það er augljós kostur að fella kynfræðslu að námsefni í einstökum greinum. Ókostirnir við slíkt fyrirkomulag eru hins vegar þeir, að erfitt er að tryggja það að nemendur fái heildstæða umfjöllun um þessi efni og þau margvíslegu atriði sem óhjákvæmilega tengjast þeim. Þá hefur greinabindingin þá hættu í för með sér að um óþarfa endurtekningu verði að ræða eða að mikilvægar hliðar kynferðismála verði út undan. Líkt og umhverfisfræðsla og heilbrigðisfræði er kynfræðsla í eðli sínu ógreinabundin og að því leyti betur komin sem heilsteypt námskeið í umsjá fleiri en eins kennara, eða svo þykir ýmsum í það minnsta. Komið hefur til tals að æskilegra væri að haga útgáfu námsefnis í 7.–9. bekk á þann veg að kennurum gefist kostur á hvoru tveggja, til að tryggja betur að félagslegum, siðfræðilegum og líffræðilegum þáttum verði gerð skil í samhengi.

Frá kennslufræðilegu sjónarmiði eru kynfræðslumál oft vandmeðfarin. Um líffæra- og lífeðlisfræðileg atriði er tiltölulega einfalt að fjalla. En þegar kemur að siðrænum þáttum, tilfinningamálum og félagslegum atriðum er engan veginn auðséð hvernig best er að skipuleggja nám og kennslu svo að vel fari. Þá má bæta því við, að skiptar skoðanir eru meðal kennara um það á hvaða aldri heppilegast sé að taka fyrir atriði eins og getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, fóstureyðingar og kynlíf. Loks skal bent á tengsl kynfræðslu og heilbrigðisfræðslu. Vaxandi áhersla er nú lögð á fyrirbyggjandi fræðslu, sem hvetur einstaklinga til að taka ábyrga afstöðu til eigin lífernis og heilsu, og svo er vitanlega um báða þessa þætti. Í gegnum heilbrigðisfræðslu er unnt að tengja saman heilsufræði, kynfræðslu og umhverfisfræðslu, fíkniefnafræðslu o. fl. sem brýnt þykir að sinna bæði í skólum og utan þeirra.

Síðari spurningin er um það, hvort ráðh. hyggist notfæra sér tillögur um fræðsluherferð í skólum og meðal almennings er samstarfshópur 57 kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum og mörgum starfsstéttum vann að og afhenti ráðherrum í júlí s.l. Um hana er það að segja, sem ég fjallaði um núna í því sem ég hef þegar sagt, að kynfræðsla og fræðsla um kynlíf og barneignir hefur margfaldast í grunnskólum á síðustu árum. Þess vegna tel ég ofmælt í bréfi samstarfshópsins þar sem sagt er að undirstöðuþáttur löggjafarinnar, fræðslumálin, hafi að mestu verið sniðgenginn öll þessi ár. Enda þótt margt hafi áunnist má vissulega margt enn gera betur, en það vantar herslumun á að áætlanir um kynfræðslu, sem unnið hefur verið eftir í skólarannsóknadeild menntmrn., komist að fullu til framkvæmda.

Ég vil aðeins bæta við í þessu svari, herra forseti, að áherslan hefur verið á því að tengja kynfræðslu einstökum námsgreinum. Að þessu vék ég áðan, en þetta atriði er einmitt eitt af því sem samstarfshópurinn, sem um er fjallað í fsp. nr. 2, lagði hvað mesta áherslu á að nauðsynlegt væri að haga með þeim hætti sem gert er.