07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5479 í B-deild Alþingistíðinda. (4750)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er að vonum rætt enn um þetta mál og nú á grundvelli nál. við 2. umr. málsins. Þann 23. nóv. s. l., þegar mælt var fyrir frv. hér í hv. Nd. urðu miklar umr. um málið og fram kom gagnrýni og það sumpart hörð gagnrýni nokkurra þm. sem þar tóku til máls. Ég var einn í hópi þeirra sem þá töluðu um málið og lét í ljós miklar efasemdir um að hér væri stefnt til réttrar áttar og lýsti verulegum áhyggjum yfir þeim breytingum og þeirri hugsun sem lá til grundvallar því frv. sem hér er komið í veigamiklum atriðum með litlum breytingum frá hv. sjútvn.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. hafa hér sagt við þessa umr. málsins, fyrst hv. 7. þm. Reykv. í yfirgripsmikilli og skýrri ræðu sem hann flutti hér áðan, þar sem hann tók fyrir lið fyrir lið einstaka þætti frv. og benti þar á marga veikleika. Á sama hátt kom hér fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni stuðningur við þau sjónarmið, eindreginn stuðningur við sjónarmið þeirra sem vefengja að með þessu frv. sé verið að ráða bót á einhverjum ágöllum ríkjandi kerfis. Þvert á móti sé verið að stefna út í óvissu breytinga sem fyrir fram er ekki líklegt að leiði til endurbóta sem þó væri nauðsynlegt að gerðar yrðu.

Ég vil að það komi fram strax við upphaf míns máls að með Framleiðslueftirliti sjávarafurða skv. gildandi lögum og þeirri starfsemi sem gert er ráð fyrir að við taki, að settum endurskoðuðum lögum, er ekki verið að taka á nema hluta af gæðamálum íslenskra sjávarafurða, að vísu gildum hluta þess máls en kannske ekki á þeim agnúum sem nærtækastir eru og mest nauðsyn er á að bæta. Ég lýsti því við 1. umr. málsins að ég held að þeir þættir liggi annars staðar og tengist meira veiðunum en vinnslunni þegar á land er komið. Það sé í mörgum þáttum veiðanna, sem snúa að gæðum aflans, sem brýn nauðsyn sé á að taka, brýnni nauðsyn en að leggja út í óvissa tilraunastarfsemi eins og hér er gert ráð fyrir með breytingum á þeim lögum sem í gildi hafa verið og upptöku á nýmælum sem í þessu frv. felast.

Ég tel að margt af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á Framleiðslueftirlit sjávarafurða á undanförnum árum sé af því sprottið að ekki hafa verið settar þær reglur á grundvelli gildandi laga sem unnt hefði verið að setja til leiðbeiningar fyrir matsmenn til að koma í veg fyrir ágalla á ríkjandi matskerfi. Auk þess hafi verið varið ónógum fjárveitingum til vissra þátta a. m. k. í framleiðslueftirlitinu. Það hefur svo gerst sem menn þekkja og ekki hefur farið lágt að mjög veruleg gagnrýni hefur komið fram á Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Manni er til efs að sú gagnrýni hafi alltaf verið af heilbrigðum rótum runnin. Hún hefur mótast oft á tíðum af persónulegum aðdróttunum og undirróðri af ýmsu tagi gagnvart starfsmönnum þeirrar stofnunar sem farið hefur með þessi mál. Þar með vil ég engan veginn segja að Framleiðslueftirlit sjávarafurða hafi verið fullkomin stofnun og þar hafi ekki verið og sé ekki úrbóta þörf, síður en svo. Það kann vel að vera, án þess að ég vilji kveða þar upp nokkra dóma, að stöðnunar hafi gætt í vissum þáttum þeirrar stofnunar. Ég hygg, eins og ég hef þegar sagt, að margt hefði mátt bæta með skýrari reglum varðandi ferskfiskmatið sérstaklega og rýmri fjárveitingu til vissra þátta á meðan e. t. v. hefði mátt spara í öðrum. Áherslur hafi sem sagt ekki verið þær sem æskilegastar gætu talist í þessu efni.

En slíkt á ekki að verða tilefni til þess að fara að umbylta lögum og breyta til um kerfi og leggja út á brautir sem að margra mati eru mikilli óvissu háðar og ólíklegt er að horfi til bóta og geti leitt til þess að dreifa ábyrgðinni á matinu og eftirlitinu á óæskilegan hátt.

Eins og frv. kom hér fram í haust sem stjfrv. var það helsta nýmæli þess að sett var inn sem mjög veigamikill og valdamikill aðili svokallað fiskmatsráð, skipað fulltrúum hagsmunaaðila að meiri hluta. Þetta var verulega gagnrýnt af ýmsum sem þátt tóku í 1. umr. málsins hér í Nd. Eftir störf hv. sjútvn., þar sem gekk á með ýmsum boðaföllum eins og hér hefur verið rakið en ég ætla ekki að fara að rifja upp frekar, hefur n. í brtt. sínum leitast við að sníða af vissa þætti sem snerta þetta fiskmatsráð og lúta að því að draga nokkuð úr völdum þess og áhrifum. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram hjá fleirum fyrr við þessa umr. að svo langt sem það nær horfir það til bóta. Ég tel hins vegar að till. um þetta fiskmatsráð eins og það var formað í frv. og eins og það er enn að teknu tilliti til brtt. hv. sjútvn. séu enn með þeim hætti að ekki sé hægt að mæla með þeim og það sé ekki rétt að hraða nú lagasetningu á grundvelli þeirra till. sem fyrir liggja. Þar er svo margt sem þyrfti að vera með öðrum hætti og þyrfti nákvæmari athugunar við áður en lögfest verður að ég treysti mér ekki til að mæla með eða taka þátt í að lögfesta þetta frv. á þessu þingi. Ég geri mér ekki von um að umtalsverðar breytingar á því náist fram á þeim stutta tíma sem þingið hefur til starfa frá þeim till. sem þegar liggja fyrir frá hv. sjútvn.

Það er nefnilega svo að enda þótt brtt. n., sem eru ekki ýkja miklar að vöxtum, dragi nokkuð tennurnar úr þessu fiskmatsráði þá dreifa þær jafnframt ábyrgðinni og skv. frv. verður afskaplega óskýrt hvar áhrifavaldið liggur í raun og veru í þessum málum. Það held ég að sé afskaplega óæskilegt og óheppilegt fyrir jafnvandasamt mál eins og hér er verið að fjalla um þar sem er fiskmatið.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er verið að rugla hér reytunum frá því sem er skv. gildandi lögum. Frá því að búa við óháð eftirlit þá er verið að taka hér inn fulltrúa hagsmunaaðila sem haft geta mjög veruleg áhrif á þessi efni. Heiti frv., sem verður nú að telja hið mesta öfugmæli eins og það var lagt hér fyrir í haust, getur síður en svo talist réttnefni enn þrátt fyrir þær breytingar sem hv. sjútvn. hefur gert á frv. Það getur ekki talist réttnefni að kalla það kerfi sem hér er verið að setja upp Ríkismat sjávarafurða. Það heiti gefur ótvírætt til kynna að hér sé óháður matsaðili á ferð, en ekki þarf lengi að leita í þessu frv., hvorki hinu upphaflega stjfrv. né því sem fyrir liggur hér með nokkrum breytingum frá hv. sjútvn., til að sjá að um óháð mat eða matskerfi er ekki að ræða. Og það er einmitt það sem er fyrst og fremst gagnrýnivert og varhugavert að mínu mati að það er verið að draga hér hagsmunaaðilana inn í þetta kerfi og veikja hinn óháða stimpil sem frekar væri þörf á að styrkja en hitt. Það er svo allt annað mál að það getur verið æskilegt markmið að tryggja skoðanaskipti og eðlilegar boðleiðir milli framleiðenda og útflytjenda annars vegar og matsmanna og hins opinbera matskerfis hins vegar. Á því er þörf. En það er hægt að gera og ætti að gera með allt öðrum hætti en hér er verið að leggja til.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða um einstök atriði í brtt. hv. sjútvn. þótt ástæða væri til þess. Ég get sparað mér það, sérstaklega með tilvísun í þær tvær ræður sem haldnar voru hér á undan og tóku á einstökum þáttum málsins, alveg sérstaklega hina skýru ræðu hv. 7. þm. Reykv., þar sem bent var á margháttaða veikleika og mótsagnir sem er að finna í frv., jafnvel þótt menn vildu nú taka undir það sem brúklegt kerfi, sem ég er ekki að gera. Ég geri ráð fyrir því að hér síðar við umr. verði reynt að skera úr um vafaatriði og leysa úr þeim mörgu spurningum sem bornar voru fram, m. a. af hv. 7. þm. Reykv. Það er t. d. ein sem hann vakti máls á, sem varðar vinnsluleyfin sem hv. sjútvn. er að leggja til að horfið verði frá með því að fella niður 17. gr., en hins vegar er tekið upp í 16. gr. orðalag sem nauðsynlegt er að skýringar fáist á, um hvers konar vinnsluleyfi er þar verið að ræða sem rn. er heimilt að svipta framleiðanda skv. brtt. hv. sjútvn.

Það vakti athygli mína við upphaf þessarar umr. hversu létt hv. formaður sjútvn., hv. 5. þm. Norðurl. v., ætlaði að vinna sér verkið í sambandi við það að gera grein fyrir störfum og till. n. Hann lét sér nægja að lesa upp örstutt nál., en hann vék tæpast orði að innihaldi þeirra brtt. sem n. stendur að. Verð ég þó að segja að eins og þær eru fram lagðar er það ekki lítið verk fyrir menn að setja sig inn í það hvað heyrir til hverju, hverju er verið að leggja til að breytt verði af hv. sjútvn. Það hefði verið skynsamlegt fyrir hv, frsm. n. að mínu mati að reyna að rökstyðja þær till. sem n. stendur að, en það hefði mátt gera í ekki löngu máli af hans hálfu, svo að menn hefðu aðeins séð inn í hug hv. þm. og áttað sig á því hvernig hv. sjútvn. metur þetta mál að gerðum þessum brtt.

Hér hafa komið fram tilmæli til hv. frsm. að halda til haga í þingtíðindum þeim umsögnum sem n. hefur fengið um frv. og ég tek undir þau tilmæli. Miðað við það að hér hefur ekki verið gerð nein teljandi grein fyrir þeim umsögnum sem n. fékk, þm. hafa ekki fengið þær og það er ekki haft fyrir því að vitna til þeirra í nál., tel ég æskilegt að þessar umsagnir komi hér fram, verði hér kynntar þannig að þær séu aðgengilegar í þingtíðindum. Ég hef skilið það svo að þær vísi nokkuð sín í hverja átt, en margar þeirra, og þá frá aðilum sem til eiga að þekkja, séu mjög gagnrýnar á þetta frv. sem hér er verið að mæla með samþykkt á og lögfestingu á þeim stutta tíma sem lifir þessa þings.

Ég vil taka undir það sem hér kom fram, m. a. hjá hv. 7. þm. Reykv., að skynsamlegra hefði verið að vinna þetta mál á grundvelli gildandi laga, með því að gera breytingar á því sem mönnum helst finnst breytinga þörf á að fenginni reynslu af þeim lögum. heldur en vera að hlaupa út í nýtt og verulega breytt kerfi, kerfi sem fullyrt er af aðilum, sem ég tek mark á, að geti stefnt útflutningi okkar sjávarafurða, okkar þýðingarmesta útflutningi í verulega tvísýnu, kerfi sem okkar helstu keppinautar hafa verið að hverfa frá á undanförnum árum og haft náttúrlega glöggt auga á því hvernig Íslendingar hafa staðið að gæðamálum á sínum mörkuðum. Ég held að menn hafi látið glepjast af áróðri, býsna háværum áróðri sem haldið hefur verið uppi á Framleiðslueftirlit sjávarafurða á liðnum árum, áróðri sem í margri grein hefur verið á misskilningi byggður, svo ekki sé sagt að hann hafi mótast af naggi og ákveðnum fjandskap sem ekki getur talist efnislegur nema að takmörkuðu leyti. Það er ekki vænlegt ef það er hvatinn til lagabreytinga og undirrótin að því að breyta til.

Það er lærdómsríki að líta á það sem fram kemur í grg. um hvernig að undirbúningi þessa máls hefur verið staðið. Það er ekki ýkja traustvekjandi að mínu mati þrátt fyrir þá mörgu fundi sem þar hafa verð haldnir í sambandi við þessi mál.

Ég tel að sá rökstuðningur sem fram kemur í grg. sé lélegt veganesti en raunar í góðu samræmi við þær till. sem fram eru bornar af því fiskmatsráði, sem svo var kallað, sem færði sjálft sig í tillöguformi inn í þetta frv. Ég vil hvetja hæstv. sjútvrh., sem ég ætla að gangi fyllilega heils hugar til verks, að reyna að bæta gæðamál í íslenskum sjávarútvegi, svo sem mikil þörf er á og þjóðhagslega nauðsynleg, þótt margt sé þar í góðu horfi, þá vil ég hvetja hann til þess að íhuga málið í núverandi stöðu. Þeim orðum beini ég einnig til hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að íhuga hvort ekki sé skynsamlegra að fresta afgreiðslu málsins á þessu þingi, nota tímann í sumar til þess að reyna að stilla saman um þetta mál, sem vissulega er ástæða til að koma þannig áfram að þokkalegur friður ríki um það, frekar en að knýja þetta mál hér í gegnum þingið á þeim stutta tíma sem nú lifir.

Við sem erum hér að andmæla þessu frv. gerum það ekki, eða ég hygg að svo sé ekki, af neinum öðrum hvötum en þeim að við teljum að ekki sé hér rétt á málum haldið, þær breytingar sem hér er verið að bera fram frá gildandi lögum horfi ekki til heilla. Hér er þannig efnislegur ágreiningur á ferðinni. Þennan ágreining þarf að leitast við að jafna. Það þarf að gefa þeim hagsmunaaðilum sem farið hafa yfir þessi mál og veitt sínar umsagnir kost á því að bera frekar saman bækur sínar. Það væri hægt að gera með því að hvíla þetta mál milli þinga en vinna í því ötullega svo sem ráðrúm er til í þinghléi eða þann tíma sem er til næsta þings. Þetta geta verið mín lokaorð og ég vona að þessi geti orðið niðurstaðan, því verði ekki svo gef ég ekki annað en staðið á móti því að frv. þetta verði lögfest.