07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5498 í B-deild Alþingistíðinda. (4759)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, sem flutt er til staðfestingar á brbl. sem sett voru í lok maí s. l., en ráðstafanir þessar voru gerðar samhliða gengisbreytingu íslensku krónunnar og er því að verða liðið u. þ. b. eitt ár frá því að brbl. þessi voru sett.

Þetta mál var lagt fram í upphafi þings, er 8. mál þingsins í Ed. og hefur nú verið afgreitt þaðan til Nd. Það er kunnara en frá þarf að segja og ástæðulaust að endurtaka það hér að hagur sjávarútvegsins var mjög slæmur á s. l. vori og því reyndist nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að tryggja afkomu hans. Þessi staða kom fram í því að tekjuaukning hans var ekki í neinu samræmi við kostnaðaraukningu. Það var því nauðsynlegt að breyta gengi íslensku krónunnar til að auka tekjur þessa undirstöðuatvinnuvegar og gera ráðstafanir til þess að kostnaðarhækkanir kæmu ekki í kjölfar tekjuaukningarinnar.

Í 1. gr. frv. eru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja að hluti af tekjuaukningunni renni til reksturs fiskiskipa. Þá hafði orðið mjög veruleg aflaminnkun og því varð að auka tekjur skipanna til þess að rekstur þeirra gæti áfram gengið. Þetta var gert með því að tekin var upp sérstök kostnaðarhlutdeild og var hún 29% til skipa stærri en 240 brúttólestir en 25% til minni skipa.

Jafnframt þessu var lagt niður svokallað olíugjald og dregst það frá þessari prósentu í reynd því olíugjald var tekið áður í gegnum útflutningsgjöld. Þessar ráðstafanir urðu til þess að skiptaverð hækkaði á stærri fiskiskipum um 8% en um 12.3% á skipum minni en 240 lestir. Hlutur útgerðar hækkaði hins vegar meira eða um rúmlega 18%, tæplega 16% hjá togurum og rúmlega 21% hjá bátum.

Brtt. var flutt við meðferð málsins í Ed. í samræmi við fiskverðsákvörðun í febr. s. l. þar sem kostnaðarhlutdeild þessi var lækkuð um 2% eða í 27% á stærri skipunum, um 240 brúttólestir, og í 23% til minni skipa.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um afkomu útgerðarinnar eins og hún var álitin á s. l. vori. Það hefur komið fram síðar að þessar ráðstafanir voru lágmarksráðstafanir. Má segja að þær forsendur sem þá lágu fyrir hafi ekki staðist því að þá gerðu menn sér vonir um að afli gæti orðið svipaður seinni hluta ársins 1983 og hann var seinni hluta árs 1982, en hann varð allnokkru minni en á þeim tíma. Og enn hefur orðið aflasamdráttur þannig að staða útgerðar og sjávarútvegsins í heild hefur farið af þeim sökum versnandi.

Í 3. gr. frv. er fjallað um ráðstöfun á gengismun. Hér hefur áður orðið mjög ítarleg umræða um þá ráðstöfun og ég hef svarað fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar, 12. þm. Reykv., skriflega um þá ráðstöfun. Vísa ég til þess þskj., sem hér var dreift fyrir allnokkru síðan prentuðu, þar sem ljóslega kemur fram hvernig staða þessara mála er.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn. Ég þarf ekki að fjölyrða um það að ég vænti þess að n. reyni að hraða afgreiðslu málsins. Það verður að sjálfsögðu að staðfesta þessi brbl. og því nauðsynlegt að málið hljóti afgreiðslu fyrir þinglok. Ég vil sem sagt leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.