08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

41. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda þarfa fsp. og tímabæra. Ég hlýt að fagna vaxandi starfsemi að þessum málum eins og fram kom eða fyrirheit voru gefin um í svörum hæstv. ráðh. Hér er um stórt mál og viðkvæmt að ræða. Það hefur verið hér til umr., eins og hv. fyrirspyrjandi rakti, á liðnum þingum og er óþarft að endurtaka nokkuð af eigin sjónarmiðum hér í því máli. En ég vil ítreka að það sem hér er spurt um er í raun og veru grundvöllur lagasetningarinnar á sínum tíma. Það var lögð megináhersla á fræðslu og ekki síður ráðgjöf sem forsendur þeirrar rýmkunar sem þá var gerð og ég studdi heils hugar og var bæði réttmæt og eðlileg.

Ég ítreka það líka að þegar að þessum lögum er sótt víða að og óskað eftir að þrengdar verði heimildir til fóstureyðinga vegna félagslegra aðstæðna t. d., þá er eina andsvarið að auka þessa fræðslu, gera hana að eðlilegum þætti í skólakerfinu og ekki síður að efla þá sjálfsögðu ráðgjöf til hlutaðeigandi, sem alltaf þarf að vera til staðar, svo að þessi neyðarréttur konunnar, sem ég vil kalla svo, verði ekki af henni tekinn eða skertur stórlega. Sá réttur er dýrmætur, sem ég treysti konum fyllilega til að fara með, ef að er staðið af hálfu ráðgjafaraðila svo sem ætlunin var og sjálfsögð skylda er lögum samkvæmt.