07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5499 í B-deild Alþingistíðinda. (4760)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þennan fund með langri umfjöllun um þetta mál. Ég tel þó óhjákvæmilegt að minna hér á afstöðu minni hl. sjútvn. Ed. svo og þá gagnrýni sem þetta frv. hefur sætt af hálfu ákveðinna hagsmunaaðila sem hér eiga í hlut. Sú gagnrýni hefur einkum verið tvískipt eðli málsins skv., þ. e. gagnrýni á þann kostnaðarhlut útgerðar sem tekinn er fram hjá skiptum og í öðru lagi á ráðstöfun gengismunar.

Í nál. minni hl. sjútvn. segir, með leyfi forseta m. a.: „Augljóst er að þessi ráðstöfun“ — og þar er átt við kostnaðarhlutdeild útgerðarinnar — „hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu sjómanna. Sjómenn hafa á undanförnum árum mjög lent undir skurðarhnífi stjórnvalda. M. a. þess vegna hafa kjör þeirra versnað meira en nokkurra annarra stétta í landinu. Þessar síendurteknu aðfarir að kjarasamningum sjómanna hafa mjög skert þau hlutaskipti sem gilda eiga milli áhafnar og útgerðar svo að ef fram fer sem horfir hverfur brátt hinn upphaflegi tilgangur hlutaskipta. Sjómannasamtökin hafa af þessu tilefni skorað á hin einstöku sjómannafélög að taka nú þegar til rækilegrar endurskoðunar launakerfi sjómanna. Ályktanir Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands eru prentaðar sem fskj. með þessu áliti.“

Og í þeim fskj. segir m. a. í ályktun Sjómannasambands Íslands, með leyfi forseta:

„Fundur sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands, haldinn 7. júní 1983, samþykkir eftirfarandi ályktun:

Sambandsstjórn SSÍ tekur undir ályktun formannaráðstefnu ASÍ varðandi brbl. ríkisstj. og þær grimmilegu aðgerðir sem í þeim felast gagnvart íslenskri sjómannastétt.

Fundurinn bendir á að á undanförnum árum hafa sjómenn tekið á sig kjaraskerðingu umfram aðra launþega sem við síðustu fiskverðsákvarðanir hefur þó að nokkru verið leiðrétt. Sjómenn eru tilbúnir sem og aðrir launþegar að axla sínar byrðar vegna þess vanda sem nú er í þjóðfélaginu, en ekkert þar umfram.

Þá telur fundurinn að enn hafi stjórnvöld ekki sýnt á borði sinn framgang með lagasetningu eða öðrum hætti þar sem tekið er á verðbólguhvetjandi þáttum þessa þjóðlífs.

Fundurinn vekur athygli á að enn er höggvið í þann sama knérunn af núverandi ríkisstj. sem aðrar undanfarandi ríkisstjórnir hafa gert sig sekar um og sett eru lög er raska enn frekar hlutaskiptakerfi sjómanna. Þessum síendurteknu aðförum að kjarasamningum sjómanna mótmælir stjórn sambandsins harðlega.“

Þetta var, herra forseti, úr ályktun Sjómannasambands Íslands. Í ályktun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá 9. júní árið 1983 segir m. a.:

„Vegna brbl. ríkisstj. og þeirra ákvæða í þeim er snerta sjómenn ályktar Farmanna- og fiskimannasamband Íslands eftirfarandi:

Með lögum hefur hinn frjálsi samningsréttur launafólks og vinnuveitenda verið afnuminn að hluta, allt til loka maímánaðar 1985.

Hinar sérstöku ráðstafanir til styrktar sjávarútveginum ganga í raun enn frekar en orðið var á þau hlutaskipti er gilda eiga milli áhafnar og útgerðar, svo að ef fram fer sem horfir hverfur brátt hinn upphaflegi tilgangur hlutaskipta.“

Ég læt þessar tilvitnanir nægja, herra forseti, tek undir þær og læt þær duga til að lýsa andstöðu minni við þau efnisatriði þessa frv. sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Hæstv. sjútvrh. vék að því áðan í sinni stuttu framsögu með þessu frv. að vandi útgerðarinnar sem slíkur hefði ekki allur horfið með þessum ráðstöfunum á vori er leið og má til sanns vegar færa. Þaðan af síður varð nokkur bót ráðin á þeim mikla vanda sem sjómannastéttin í landinu hefur orðið að taka á sig umfram aðra aðila og langt umfram vinnuveitendur sína, þ. e. útgerðaraðilana, og var í raun aukið á þann mismun sem þar var þegar á orðinn með þessum brbl. og setningu þeirra.

Ég er sem sagt andvígur þeirri málsmeðferð sem þetta frv. gerir tillögu um hvað þessi tvö efnisatriði varðar og vildi, herra forseti, þó langt sé liðið á nóttina, lýsa því í örfáum orðum.