07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5500 í B-deild Alþingistíðinda. (4762)

275. mál, eldi og veiði vatnafiska

Landbrh. (Jón Helgason):

Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ræktun, eldi og veiði vatnafiska, sem lagt er fyrir þessa deild á þskj. 526.

Síðasti áratugur hefur verið tími verulegra breytinga í veiði vatnafiska og í fiskræktarmálum okkar Íslendinga. Sérstaklega hafa síðustu ár verið viðburðarík á sviði fiskræktar- og fiskeldismála með tilkomu fjölda nýrra fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Vonandi eru þetta aðeins fyrstu skref nýs atvinnuvegar hér á landi — atvinnuvegar sem skapar ný atvinnutækifæri og færir þjóðinni auknar gjaldeyristekjur.

Breytt viðhorf og nýjungar kalla á endurskoðun laga um þessi mál. Á árinu 1979 fól þáv. landbrh. nefnd sjö manna að vinna að endurskoðun laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Áttu sæti í nefndinni fjórir alþm. sem fulltrúar þáv. þingflokka, en það voru þeir Páll Pétursson, sem var formaður nefndarinnar, Árni Gunnarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Stefán Jónsson. Aðrir í nefndinni voru Árni Jónasson erindreki og formaður veiðimálanefndar, Þór Guðjónsson veiðimálastjóri og Þorsteinn Þorsteinsson bóndi og þá formaður Landssambands veiðifélaga. Síðar var Ólafur Þórhallsson bóndi skipaður áttundi nefndarmaðurinn.

Í skipunarbréfi nefndarinnar sagði að henni væri m. a. ætlað að gera tillögur um fyrirkomulag veiðieftirlits og löggæslu, sjái hún ástæðu til breytinga frá því, sem nú er, að gera tillögur um rannsóknarstarfsemi og sjúkdómavarnir í þágu fiskræktar og fiskeldis, enn fremur að leita leiða til aukinnar tekjuöflunar Fiskræktarsjóðs, þannig að fyrirgreiðsla úr sjóðnum á lánum og styrkjum yrði meiri en nú er til eflingar fiskræktar í landinu.“

Þá sagði í bréfinu að þess væri jafnframt vænst að nefndin gerði tillögur um önnur mál, sem til bóta horfa um veiði vatnafiska og fiskræktarmál, samanborðið við núgildandi ákvæði laga.

Í grg. með frv. kemur fram að það var samróma álit nefndarmanna að gildandi lög um lax- og silungsveiði hefðu reynst vel á flestum sviðum, þótt endurskoðunar væri orðin þörf á sumum þáttum þeirra vegna breyttra viðhorfa síðan þau voru sett. Að þessu athuguðu þótti nefndinni ástæðulaust að endursemja lagabálkinn frá grunni, heldur yfirfór hún gildandi lög og lét þau ákvæði, sem enn eru í samræmi við kröfur tímans, halda sér, en færði til betri vegar þá þætti laganna sem úrelst hafa.

Þau ákvæði laganna, sem nefndin leggur til að breytt verði, lúta einkum að veiðum vatnafiska í sjó, veiðieftirliti, eldis- og fiskræktarmálum, sjúkdómavörnum og skipulagi og fjármálum Fiskræktarsjóðs.

Ég nefndi hér fyrr að síðustu ár hafa verið viðburðarík á sviði fiskræktar- og fiskeldismála. Þannig voru 17 klak-, eldis- og hafbeitarstöðvar hér á landi þegar lögin um lax- og silungsveiði voru síðast endurskoðuð 1970, en nú eru þessar stöðvar orðnar 45 og vitað er um fjölmarga sem hafa í hyggju að hefja starfsemi á þessu sviði.

Laxveiði hefur verið mjög breytileg á síðustu árum. Mest var hún árið 1978 og veiddust þá alls rúmlega 88 þús. laxar. Minnst var veiðin hins vegar árið 1982 eða um 41 þús laxar, en á árinu 1983 nam veiðin rúmlega 58 þús. löxum.

Í þeirri lægð sem laxveiðin hefur verið síðustu ár hefur stöðugleiki í endurheimtum hafbeitarstöðvanna í Kollafirði og Lárósi verið einkennandi þrátt fyrir verulega sveiflu í laxagengd í árnar á þessum tíma. Gefur þessi árangur vísbendingu um að unnt sé með gönguseiðum frá eldisstöðvum að draga úr óæskilegum sveiflum í laxveiðinni, sem menn vilja rekja til lakari náttúrlegra skilyrða og úthafsveiði á laxi.

Á árinu 1983 var hlutur stangveiði í heildarveiðinni 52%, netaveiði 29% og hafbeitarlax var 19% af heildinni, sem er hæsta hlutfall til þessa, enda tvöfaldaðist hafbeitarlaxinn frá árinu áður. Þess má geta að á árunum 1972–1981 var hafbeitarlaxinn að meðaltali 5.3% af heildarveiðinni.

Til viðbótar laxveiði á villtum laxi kemur framleiðsla á eldislaxi og nam hún árið 1983 um 50 lestum, en það var um 20% af heildarþunga laxaframleiðslunnar það ár. Til samanburðar var lax veiddur í ám það ár 67% af heildarþunganum og hafbeitarlaxinn 13%.

Nýjungar í laxeldi í formi hafbeitar og eldis í kerjum og kvíum hafa náð fótfestu hér á landi, þótt vissulega eigi enn eftir að vinna að rannsóknum og tilraunum á ýmsum sviðum. Hafbeit hefur lengst verið rekin á Vesturlandi og með góðum árangri. Brautryðjendastarfið á Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði sýndi að stórfelldir möguleikar voru fólgnir í hafbeit. sömu sögu er reyndar að segja um þann árangur sem náðst hefur í rekstri stöðvarinnar í Lárósi á Snæfellsnesi.

Hins vegar hefur ekki orðið jafnhröð uppbygging varðandi hafbeitarstarfsemi og ástæða hefði verið til að ætla að kæmi í kjötfar reynslunnar í Kollafirði. Ljóst er þó að ýmsir byrjunarörðugleikar segja til sín í hafbeit þegar farið er af stað á nýjum stað. Ekki er ástæða til annars en ætla að þeir erfiðleikar verði yfirstignir.

Við þurfum líka að sækja fram hvað varðar eldi í kerjum og kvíum, en þar skapar jarðhitinn okkur hagstæð skilyrði. Einnig þurfum við að huga að ræktun annarra nytjafiska en lax og silungs, en í því efni verður að viðhafa nauðsynlegar sjúkdómavarnir.

Samhliða nýjungum í framleiðslu eldislax og hafbeit hefur verið farið inn á nýjar brautir við sleppingu laxaseiða, m. a. ofan ófiskgengra fossa og í stöðuvötnum, og má ætla að þetta starf skili sér á næstu árum. Rannsóknir og tilraunir með silungsveiði í vötnum benda til aukinna möguleika í nýtingu vatnasilungs.

Frv. það sem hér liggur fyrir er, eins og fyrr sagði, samið af nefnd sem m. a. var skipuð fjórum þáv. alþm. Ég taldi því rétt að leggja frv. fram í þeirri mynd sem nefndin skilaði því. Þó hafa í meðförum ríkisstj. verið gerðar tvær breytingar á frv. er lúta að ákvæðum um veiðieftirlit.

Ég hef orðið var við að menn vilja enn fá tækifæri til að huga að breytingum á lax- og silungsveiðilögum og yfirfara þær tillögur sem nefndin gerði. Frv. þetta er því lagt fram til kynningar nú með þeirri ósk að sú þingnefnd sem fær það til meðferðar leiti eftir umsögn þeirra aðila sem frv. varðar og þm. fái tækifæri til að tjá sig um efni þess. Umsagnir verða síðan teknar til athugunar og frv. yfirfarið og vonandi verður unnt að leggja það aftur fram snemma á næsta þingi.

Hér er ekki ástæða til að rekja allar þær brtt. sem felast í þessu frv., en rétt er að vekja athygli á að heiti laganna verður breytt úr „Lög um lax- og silungsveiði“ í: Lög um ræktun, eldi og veiði vatnafiska. Er þessi tillaga til merkis um hve fiskrækt og fiskeldi eru orðin snar þáttur veiðimálanna. Taldi nefndin ástæðu til að þess sæi nokkur merki í heiti laganna.

Tillögur nefndarinnar lúta, eins og áður sagði, einkum að veiði vatnafiska í sjó, veiðieftirliti, fiskeldis og fiskræktarmálum, sjúkdómavörnum og málefnum Fiskræktarsjóðs. Þannig er lagt til að ekki megi veiða silung í sjó utan netlaga og frv. gerir ráð fyrir að felldur verði niður réttur þeirra sex jarða á landinu sem heimild hafa til laxveiða í sjó, en það eru jarðir sem höfðu þessi hlunnindi í fasteignamati 1932 og eru í Borgarfirði og á Mýrum.

Tillögur frv. miða að því að veiðieftirliti verði komið í fastari skorður með því að skipta lendum í tólf veiðieftirlitsumdæmi og lagt er til að tekjur Fiskræktarsjóðs verði auknar m. a. með 40 millj. kr. stofnframlagi ríkissjóðs sem greiðist á fjórum árum, 10 millj. á ári. Enn fremur auknum gjöldum til sjóðsins frá vatnsaflsstöðvum og gjaldi sem fiskeldis- og hafbeitarstöðvar greiði.

Eigi að byggja upp fiskrækt og fiskeldi hér á landi sem nýja atvinnugrein er eitthvað lætur að sér kveða í atvinnulífi þjóðarinnar þarf að koma til aukið fjármagn til að byggja upp nauðsynlega aðstöðu. Alþingi þarf því að taka afstöðu til þess með hvaða hætti eigi að fjármagna þessa uppbyggingu.

Það er líka ástæða til að íhuga hver eigi að vera hlutur útlendinga í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar í framtíðinni, en sem kunnugt er hafa erlendir aðilar mjög leitað eftir aðstöðu og þátttöku í fiskrækt hérlendis. Við þurfum þar eins og á öðrum sviðum að hagnýta okkur þá þekkingu sem við getum fengið frá öðrum löndum og aðra aðstoð, en huga þarf að hve langt á að ganga um sameign á þessu sviði.

Eins og áður sagði höfum við á síðustu árum öðlast margvíslega þekkingu á þessum málum og þó að sum þeirra svara, sem fengist hafa, hafi vakið margar nýjar spurningar hafa þau þó aukið bjartsýni okkar á þeim möguleikum sem felast í aukinni fiskrækt og fiskeldi.

Í umræðum um ný tækifæri í framleiðsluatvinnugreinum okkar er fiskeldi og aukin hagnýting veiðivatna ofarlega á blaði. Aðstaða okkar er þar á ýmsan hátt betri en annarra þjóða. Landið liggur fjarri fiskveiðilögsögu þeirra, þar sem víða fer fram mikil veiði á laxi þegar hann gengur í sjó. Ár og vötn eru hér ómenguð. Og í þriðja lagi gefur jarðhitinn okkur mikla möguleika, sem reynslan er þegar farin að sýna hvernig hægt er að nýta þó aðeins hafi þar verið stigin fyrstu skrefin. Þar hefur einkum verið rætt um rekstur stórra stöðva, en engu að síður er mikilvægt að leita leiða til að fiskeldi og fiskrækt verði styrk stoð til eflingar atvinnulífs í strjálbýli við þá framleiðslubreytingu sem nú er óhjákvæmileg í sveitum. Að þessum þætti þarf vel að huga við endanlega afgreiðslu frv.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta yfirgripsmikla mál að þessu sinni, en ítreka þá málsmeðferð sem ég gat um áðan og legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.