07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5503 í B-deild Alþingistíðinda. (4764)

272. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64 frá 1965.

Þetta er 272. mál Nd. á þskj. 523. Frv. felur í sér í stuttu máli að komið verði á fót sjálfstæðri rannsóknastofnun sem nefnist Rannsóknastofa lífefnaiðnaðarins og heyri undir iðnrn.

Uppbygging og skipulag þessarar rannsóknastofu er í öllum aðalatriðum sniðið eftir köflum III–VII í gildandi lögum um þær rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem fyrir eru. Þó er rétt að vekja athygli hv. þd. á nokkrum atriðum varðandi einstakar greinar frv.

Í 55. gr. er kveðið á um það að Rannsóknastofa lífefnaiðnaðarins skuli staðsett á Akureyri eða í nágrenni. Um það atriði segir í grg. með leyfi forseta:

„Gerð er till. um að Rannsóknastofu lífefnaiðnaðarins verði valinn staður á Akureyri. Er það m. a. gert vegna þess að hér þarf nánast að byggja frá grunni nýja stofnun og gefst því gott tækifæri til að sýna í verki vilja til dreifingar ríkisstofnana um landið. Einnig má á það benda að á Eyjafjarðarsvæðinu fellur mikið til af hráefnum frá landbúnaði og sjávarútvegi sem ætla má að geti orðið undirstaða öflugs lífefnaiðnaðar. Þá mundi tilkoma slíkrar rannsóknastofnunar efla skólastarf á æðri stigum á viðkomandi stað og verðá lyftistöng í menntunarmálum jafnt sem í atvinnulegu tilliti.“

Við þetta mætti svo vissulega ýmsu bæta. Ég læt nægja að benda á alvarlegt atvinnuástand á Eyjafjarðarsvæðinu undanfarið sem rökstyður það að svo sannarlega er þar þörf fyrir nýsköpun í atvinnulífi. Koma slíkrar rannsóknastofnunar á svæðið eins og hér er flutt frv. um og sú þekking sem þar með mundi flytjast inn í byggðarlagið og þróast upp getur haft margháttuð jákvæð áhrif á atvinnulíf á viðkomandi stað. Auk þess leyfi ég mér að fullyrða að norðanlands sé fyrir hendi mikill áhugi á því að nýta möguleika lífefnaiðnaðar til nýrrar sóknar í atvinnulífi. Þess hef ég orðið var bæði við Eyjafjörð, á Húsavík í Mývatnssveit og víðar.

Í 58. gr. er ákvæði um það að forstjóra skuli skipa til fjögurra ára í senn. Ég vek athygli á þessu af því að í gildandi lögum annarra rannsóknastofnana atvinnuveganna eru engin tímamörk sett hvað þetta varðar. Ákvæði þetta er hins vegar hliðstætt lögum um Iðntæknistofnun Íslands.

Í 60. gr. er talið upp hverjir skuli tilnefna fulltrúa í ráðgjafarnefnd stofnunarinnar. Þeir eru Alþýðusamband Íslands, bæjarstjórn Akureyrar, Iðntæknistofnun Íslands, rannsóknastofnanir atvinnuveganna, einn fulltrúa hver, Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Vinnuveitendasamband Íslands. Forstjóri stofnunarinnar á síðan sæti í nefndinni.

Þessar tilnefningar skýrast að hluta til af staðsetningu rannsóknastofunnar, þ. e. hvað bæjarstjórn Akureyrar og Verkmenntaskólann á Akureyri og hugsanlega fleiri aðila á viðkomandi svæði varðar. Einnig þótti rétt, m. a. með hliðsjón af staðsetningu og eðli starfseminnar, að aðrar rannsóknastofnanir atvinnuveganna ættu aðild að ráðgjafarnefndinni svo og Iðntæknistofnun og Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands. Aðild Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins er í þessu tilfelli jafnsjálfsögð og þegar um aðrar hliðstæðar stofnanir er að ræða.

Í 61. gr. er verksvið stofnunarinnar skilgreint á eftirfarandi hátt: „Verkefni Rannsóknastofu lífefnaiðnaðarins skulu m. a. vera:

1. Rannsóknir til eflingar og hagsbóta fyrir lífefnaiðnað inn í landinu.

2. Rannsóknir á nýtingu innlendra hráefna til lífefnaiðnaðar.

3. Rannsóknir á þróun framleiðslutækni og aðferð í lífefnaiðnaði og aðstoð við að koma á fót nýjum framleiðslugreinum.

4. Nauðsynleg rannsóknarþjónusta við lífefnaiðnaðinn.

5. Kynning á niðurstöðum rannsókna í vísinda- og fræðsluritum.“

Í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64 frá 1965, er kafli um almenn ákvæði, svo sem um tekjur hinna ýmsu rannsóknastofnana. Einnig segir í núverandi 63. gr. áðurnefndra laga að nánari ákvæði um starfsemi stofnana þeirra er lög þessi taka til megi setja með reglugerð. Þ. á m. er heimilt að ákveða breytingar á verksviði einstakra stofnana, enn fremur að heimila sérfræðingum rannsóknastofnananna að kenna við Háskóla Íslands. Með lögum er því einungis verið að setja starfseminni lagaramma og skilgreina verkefni eða verksvið einstakra stofnana í grófum dráttum.

Um nauðsyn slíkrar rannsóknastofnunar á sviði lífefnaiðnaðar mætti hafa langt mál, herra forseti. Í áfangaskýrslu nefndar um lyfja- og lífefnavinnslu sem skilað var í maí árið 1984, segir að lífefnaiðnaður muni almennt eiga bjarta framtíð fyrir sér og að mikið magn sé til af hráefnum fyrir slíkan iðnað. En nefnd þessi tók jafnframt fram að umfangsmiklar og skipulegar rannsóknir væru forsenda þess að kanna grundvöll lífefnaframleiðslu og að ráða þyrfti sérstakt starfsfólk til að sinna slíkum rannsóknum. Þessi atvinnugrein hefur verið talsvert til umræðu undanfarið. Ég tel óþarft, herra forseti, að telja hér upp allar þær glæstu framtíðarspár sem menn hafa haft um framtíð lífefnaiðnaðar. Hv. þm. hafa fengið sent gögn um þetta efni á þessum vetri og eflaust kynnt sér þau gaumgæfilega. Þau tala sínu máli um það nánast samhljóða álit allra, sem til þekkja, að þessi tegund atvinnurekstrar eigi sér mikla framtíð. Því er þetta mál hér flutt með tilvísan til þess.

Að lokinni 1. umr. legg ég svo til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.