08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5507 í B-deild Alþingistíðinda. (4768)

442. mál, Suðurlína

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Ég fagna því sem kom fram í orðum hans að aðveitustöð á Prestsbakka er inni í kostnaðaráætlun við lagningu Suðurlínu í ár. Hins vegar hefði ég óskað eftir frá honum afdráttarlausari svörum um það hvort aðveitustöðin verður byggð þrátt fyrir þetta svar og fer ég fram á það vegna þess að þegar spurt er eftir því hjá RARIK og Landsvirkjun þá virðist þar allt á reiki um hvort af þessu verði í ár. Ég vænti því afdráttarlausari svara um þetta atriði.

Það er ljóst að setja þarf miklu fastari reglur almennt um útboð og eftirlit með þeim en verið hefur til þessa og leggja betur mat á tilboð einstakra verktaka og möguleika þeirra til að standa við þau og taka ekki mjög lágum tilboðum. Þetta er meginmál að gert verði í framtíðinni. Tilgangur minn með að bera fram þessa fsp. var m. a. að kanna varðandi þessa framkvæmd hvernig að hefði verið staðið í þessum þáttum. Hin skriflega skýrsla, sem hér liggur og ráðh. hefur útbýtt, dregur þessa hluti ekki nægilega fram. Ég hefði viljað fá þetta borið saman miklu betur. Það vinnst ekki tími til, þó að skýrslan sé komin hér á borð, að glöggva sig nægilega á þessu. Ég þakka fyrir að þetta er þó komið á borð, þó að æskilegra hefði verið að það hefði komið fram með gleggri hætti. Ég óska sérstaklega eftir að fá svör endurtekin varðandi aðveitustöðina á Prestbakka, hvort hún verði byggð í sumar.