08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5507 í B-deild Alþingistíðinda. (4769)

442. mál, Suðurlína

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar. Það er rétt sem hv. 6. þm. Suðurl. segir að það fauk fyrir, án þess að ég geti þó borið neinn ákveðinn aðila fyrir þeirri frétt, að e. t. v. mundi ekki verða ráðist í byggingu aðveitustöðvarinnar á Prestsbakka. En það var á meðan menn voru vokins um hvort yfirleitt yrði lokið við Suðurlínu. En það var svo að heyra að yfirlýsingar mínar væru kannske ekki alveg metnar fullgildar þegar þær voru gefnar um þá ákvörðun, og þótti ýmsum sem ekki væri fullkomlega í gadda slegið, aðallega vegna þess að þá voru lánsfjáráætlanir og fjárhagsáætlanir ekki afgreiddar. En lokaákvörðun hefur verið tekin um að ljúka við Suðurlínu og aðveitustöðvar henni tengdar. Og í þeirri áætlun sem ég rakti hér er gert ráð fyrir 20 millj. kr. vegna Prestsbakka aðallega, en þó lúkningu við Hóla í Hornafirði. Það er frá þessu að segja og ég vona að þetta svar sé skýrt.

En vegna þess, sem ég skil vel, að hv. fyrirspyrjanda þykir ekki nægjanlega aðgöngugott það sem hér liggur frammi um upplýsingar um einstaka verkþætti og tilboð í þá, þá vannst mér ekki betri tími til að matreiða þessar upplýsingar, því að þær sem ég fékk fyrst hjá Rafmagnsveitunum að beiðni minni voru allsendis ófullnægjandi og bað ég um á nýjan leik að málið yrði betur upplýst og greinilegar sundurgreint.

Ég get vel hugsað mér að lýsa því yfir nú að ég muni láta vinna frekar að útfærslu og nákvæmari samanburði á þessum þáttum þótt síðar verði. Það skal ég gjarnan athuga ef hv. fyrirspyrjandi vill þá að öðru leyti sætta sig við þessi svör að svo komnu.