08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

46. mál, móttökuskilyrði sjónvarps í N-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga, sem birtast á þskj. 49 í 1. tölul., með leyfi forseta:

„1. Hvað er fyrirhugað að gera til að bæta óviðunandi móttökuskilyrði sjónvarps víða í Norður-Þingeyjarsýslu?

2. Hver er stefna núverandi stjórnvalda hvað varðar uppbyggingu sjónvarpsendurvarpsstöðva til að bæta móttökuskilyrði á miðunum umhverfis landið?"

Það má vel vera ljóst að þegar yfir 120 manns undirrita yfirlýsingu, þar sem þeir lýsa því yfir að þeir neiti að greiða afnotagjöld sjónvarps þangað til einhverrar úrlausnar sé að vænta, þá er alvara á ferðum. Löghlýðnir borgarar eins og við Norður-Þingeyingar erum, og ég leyfi mér að fullyrða: með afbrigðum, grípa ekki til slíkra örþrifaráða að gamni sínu. En nú hefur einmitt þetta gerst: að yfir 120 greiðendur afnotagjalda sjónvarps, sem er nær undantekningarlaus þátttaka notenda á viðkomandi svæði, þ.e. í byggðunum við Öxarfjörð, hafa neitað að greiða afnotagjöld sín og eru liðnir síðan tæpir tveir mánuðir. Enn hafa þessu fólki engin svör borist og því tel ég eðlilegt að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig þessum málum líði.

Það er að sjálfsögðu réttlætismál að sem allra flestir hafi án tillits til búsetu aðgang að sameiginlegum fjölmiðlum þjóðarinnar, enda greiði þeir þá keisaranum það sem hans er í því sambandi. En það er á hinn bóginn jafnmikið réttlætismál og ekki síður að mönnum sé ekki ætlað að greiða verulegar upphæðir til þjónustu sem þeir hafa engin tök á að nota og hafa alls engan aðgang að, eins og hér um ræðir. Menn hafa jafnvel haft það á orði á Kópaskeri, svo að dæmi sé tekið, að þá væri nær að þeir greiddu afnotagjöld til norskra sjónvarpsstöðva heldur en hinnar íslensku.

Ég vona að svör þau sem hæstv. menntmrh. gefur hér á eftir feti í sér fyrirheit um úrlausn í þessu máli, svo að fólkið í viðkomandi byggðarlagi geti aftur greitt sín afnotagjöld, sem ég veit að það mun gera með glöðu geði fái það notið þeirrar þjónustu sem gjaldtökunni á að fylgja.

Um síðari lið fsp. til hæstv. menntmrh. þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Hér er að sjálfsögðu um stórt verkefni að ræða, sem verður ekki hespað af á einni nóttu, en engu að síður finnst mér rétt að lýsa eftir stefnu núverandi stjórnvalda í þessum efnum, m.a. vegna eindreginna óska frá sjómönnum þar um.