08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5519 í B-deild Alþingistíðinda. (4784)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur fjallað um till. til þál. um nýtingu og rekstrargrundvöll sláturhúsa sem lögð var fram á þskj. 98, en flm. þeirrar till. voru þeir hv. þm., 2. þm. Austurl. Helgi Seljan og 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson. N. leitaði umsagna allmargra aðila um þessa till., Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, landbrn. og Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það var nokkuð samdóma álit þeirra sem leitað var til að rétt væri að slík athugun færi fram sem getið er um í till. Hins vegar komu fram athugasemdir við orðalag till., sérstaklega að því er snertir áherslur varðandi þá athugun sem lagt er til að framkvæmd verði. Í till. er lögð sérstök áhersla á að endurbæta eldri sláturhús en umsagnaraðilar töldu yfirleitt að erfitt væri að slá því föstu, a. m. k. fyrir fram, heldur væri rétt að það væri tekið til athugunar án þess að niðurstaða væri gefin í skyn fyrir fram. Af þessum ástæðum leggur n. til að till. verði breytt eins og fram kemur á þskj. 760 og tillgr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga hvernig bæta megi rekstrargrundvöll sláturhúsa, m. a. með því að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni, svo að lengja megi nýtingartíma þeirra. Enn fremur verði kannað hvort hagkvæmt sé að endurbæta eldri sláturhús, svo að viðunandi sé, eða ráðast í nýbyggingar.