08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5525 í B-deild Alþingistíðinda. (4789)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Sú þáttill. sem hér er til umr. er skýr og skilmerkileg. Hún hljóðar upp á það að veita ríkisstj. heimild til að ákveða fyrir hönd þjóðarinnar að reisa nýtt þungaiðnaðarfyrirtæki hér á landi, margumrædda kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, og hún hljóðar upp á það að ríkisstj. sé heimilt að ákveða að sú verksmiðja verði reist fyrir erlent fjármagn, en rekin með niðurgreiddu íslensku vatnsafli og ódýru íslensku vinnuafli sem á hvergi sinn líka í norðurálfu eins og nú er komið málum hér á landi. Þessi þáltill. hljóðar upp á þetta þótt leita þurfi heimilda Alþingis til að taka erlend lán til að hefja rekstur verksmiðjunnar.

Það má segja að nú sé skammt stórra högga á milli í stóriðjumálum. Í gær var afgreitt til 3. umr. í hv. Ed. frv. til l. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Það frv. felur í sér heimild til að taka nýjan erlendan aðila inn í það tapfyrirtæki án þess að til álita komi að hækka um svo mikið sem eitt mill orkuverð til fyrirtækisins. Og í dag stöndum við frammi fyrir þáltill. þar sem kveðið er á um heimild til að reisa annað slíkt þungaiðnaðarfyrirtæki enn á ný með þátttöku erlendra aðila og enn á ný án þess að leitast verði við að ná raforkuverðinu upp í svo mikið sem framleiðsluverð orkunnar nemur hér á landi, ef marka má það sem stendur á 1. bls. í grg. með till., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Verð á raforku til Kísilmálmvinnslunnar hf. skuli vera sambærilegt og til hliðstæðra fyrirtækja.“ Íslenskur almenningur má sem sagt samkv. þessu búast við því að eiga að halda áfram að niðurgreiða dýrum dómum orku til meira eða minna erlendra fyrirtækja. Hvernig geta menn borið fram slíka till. einn daginn og tala síðan af hita og þunga um það hinn daginn að nauðsynlegt sé að lækka og jafna hitunarkostnað almennings, eins og menn hafa verið að gera undanfarið í hv. Ed.? Slíkur málflutningur á sér enga stoð á meðan á þennan veg er á málum haldið og sá tvískinnungur, sem kemur fram í máli þeirra sem hann við hafa, er með ólíkindum.

Jafnstaðlaus er sá málflutningur, sem löngum hefur verið hafður uppi og sem fram kemur í grg. með þessari þáltill., að stóriðju beri að reisa hér á landi vegna þess að hún sé vænlegur orkunýtingarkostur. Ef stóriðja er vænlegur orkunýtingarkostur, hvers vegna hefur hún þá aldrei getað keypt orkuna á svo mikið sem framleiðsluverði? Hvers vegna þarf að borga með orkunni til fyrirtækja sem reist eru að því er sagt er til þess að nýta hana? Mér er lífsins ómögulegt að fá raunveruleikann í orkuverðsmálum og þessa röksemdafærslu til að ganga upp. Út úr þessu dæmi fæ ég aðeins eina útkomu: tap á orkubúskap landsmanna. Og hver borgar þetta tap? Það hefur almenningur hér á landi gert árum saman og má nú samkvæmt þessari þáltill. búast við að taka á sig enn þyngri byrðar í þeim efnum þegar við bætist nýtt orkufrekt fyrirtæki sem borga þarf með. Einnig má búast við að götin í ríkisfjármálunum haldi áfram að stækka af þessum sökum og að taka þurfi fleiri og meiri erlend lán til að stoppa í þau. Ég spyr: Er þetta nokkurt vit?

Að orkuverðsmálum slepptum er spurning um aðra hagkvæmni og arðsemi að þeim iðnaði sem hér um ræðir. Ef marka má orð hæstv. iðnrh. er hér um sambærilegan iðnað að ræða og þann sem er að finna í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Fjárhagsstaða þess fyrirtækis hefur að undanförnu verið til umr. í hv. Ed. og hafa menn farið mörgum orðum um hið stórfelda tap sem verið hefur á þessum rekstri á undanförnum árum þrátt fyrir að fyrirtækið hafi keypt orkuna á niðurgreiddu verði og starfsræksla þess verið á alla lund eins og best verður á kosið. Menn hafa einnig í þessu sambandi rætt um gagnsleysi rannsókna til að segja af eða á um atvinnurekstur af þessu tagi og talað um byggingu járnblendiverksmiðjunnar sem gríðarleg fjárfestingarmistök, einhver hin mestu hér á landi að Kröfluvirkjun undanskilinni, svo eitthvað sé nefnt af þeim fjölmörgu neikvæðu atriðum sem tiltekin hafa verið varðandi rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Samt komst meiri hl. hv. þdm. að þeirri niðurstöðu að járnblendiverksmiðjuna yrði að styrkja og að miklu skyldi kosta til til þess að halda rekstrinum áfram, þ. á m. að taka skyldi japanska fyrirtækið Sumitomo inn í reksturinn þó nefnt sé í sama orðinu að hinir framsæknu og forsjálu Japanir séu um þessar mundir að flytja stóriðjurekstur sinn úr landi til að rýma til fyrir arðbærari og hugnanlegri léttiðnaði heima fyrir.

Í dag, rétt um sólarhring síðar, stöndum við frammi fyrir þáltill. sem hljóðar upp á heimild til að reisa annað sams konar fyrirtæki hér á landi. Hvers konar endileysa er þetta? Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurtöðu að stóriðju af þessu tagi skuli haldið áfram hér á landi og ný sett á laggirnar á meðan tínd eru til um leið mörg og þung rök fyrir hinu gagnstæða? Sú þráhyggja sem endurspeglast í íslenska stóriðjudraumnum á sennilega vart sinn líkan á byggðu bóli ef áfram gengur svo sem eftir hefur rekið.

Ég minnist áðan á þá framsæknu iðnaðarþjóð Japani. Í því sambandi er fróðlegt að athuga það sem segir í grg. með frv. um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, en þar stendur á bls. 6, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þessa“, þar er verið að tala um hátt raforkuverð í Japan, „hefur það verið á stefnuskrá félagsins“, þar er átt við Sumitomo, „að koma á fót viðskiptasamböndum erlendis til að tryggja þetta efni“, þar er átt við kísiljárn, „fyrir viðskiptavini sína og þá helst á frambúðargrundvelli. Að athuguðu máli hefur það verið mat félagsins að áhættusamt væri að taka þátt í byggingu alveg nýrrar verksmiðju vegna hins háa stofnkostnaðar sem því væri samfara. Hefur félagið því fremur leitað eftir samstarfi við nýlega og vel búna verksmiðju sem samkeppnishæf væri, bæði með tilliti til stofu- og rekstrarkostnaðar.“

Það er sem sagt skoðun Japananna að of áhættusamt sé að leggja í byggingu nýrrar verksmiðju af því tagi sem við erum að fjalla um hér. Og þá er það spurningin: Því ættum við að fara að taka þá áhættu að reisa nýja verksmiðju af þessu tagi? Varla er um mikið áhættufé að ræða í ríkissjóði um þessar mundir og væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. fjmrh. segir um það — eða getur það e. t. v. verið að Sumitomo sé líka með í spilinu hvað varðar kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði? Í grg. með frv: um járnblendiverksmiðjuna er það tiltekið, með leyfi forseta, „að hið nýja samstarf við Sumitomo búi yfir margvíslegum möguleikum sem engin leið er að sjá yfir nú.“ Þetta er á bls. 4 í grg. Nú væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv, iðnrh. hver hin erlendu stóriðjufyrirtæki eru sem talað er um á bls. 2 í grg. þáltill. um kísilmálmverksmiðjuna. Þar er talað um að fulltrúar úr stjórn kísilmálmverksmiðjunnar hafi kynnt málið fyrir erlendum stóriðjufyrirtækjum. Hver eru þessi fyrirtæki? Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. áðan að að mati stóriðjunefndar væri ekki æskilegt að láta slíkt uppi á þessu stigi málsins, en stóriðjunefnd er ekki enn þá orðin löggjafarvald hér á landi. Ég tel harla hæpið að ætlast til þess að þingheimur samþykki þáltill. eins og þessa án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um við hvern er hér verið að ræða.

Jafnframt væri fróðlegt að fá það betur upplýst en ráðh. gerði áðan hvernig arðsemisútreikningar varðandi kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði hafa breyst og hversu traustar þær verðspár eru sem liggja til grundvallar þeim útreikningum því það er ekki ýkjalangt síðan hæstv. iðnrh. hélt því fram héðan úr þessum ræðustól að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins fengi ekki staðist. Hér hafa greinilega orðið snöggar veðurbreytingar og tel ég nauðsynlegt að ráðh. upplýsi þingheim um hvernig á þeim standi.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hljóðar þessi þáltill. upp á heimild til að hefja enn á ný stóriðjuframkvæmdir hér á landi. Það má segja að hér á Alþingi Íslendinga megi finna þrjár meginstefnur í stóriðjumálum, svo sem ég hef áður minnst hér á. I fyrsta lagi er sú stefna sem hæstv. iðnrh. túlkar og sem felst í því að byggja hér upp stóriðju með meirihlutaeignaraðild erlendra aðila. Sú stefna, sem hljóðar upp á sölu úr landi með þessum hætti á íslensku vatns- og vinnuafli, er fyrir mér nánast það sama og að selja sjálfstæði þessarar þjóðar í hendur erlendra aðila. Af slíkum viðskiptum höfum við ríkulega neikvæða reynslu þar sem eru viðskipti okkar við Alusuisse sem alþjóð eru kunn. Í öðru lagi er sú stefna í stóriðjumálum sem þm. Alþb. túlka hér og sem felur í sér að hér skuli sett á laggirnar stóriðja, en með meirihlutaeignaraðild Íslendinga. Ég er hæstv. iðnrh. hjartanlega sammála, eins og ég hef áður sagt, um að þetta er afleit stefna þótt ekki sé það að öllu leyti á sömu forsendum. Ég hygg að við séum sama sinnis, ég og hæstv. ráðh., um að Íslendingar hafi ekki og muni ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa að slíkum fyrirtækjum sjálfir né fái þeir nokkru ráðið á þeim markaði þar sem stóriðjuframleiðsla er seld, eins og saga járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga tekur af öll tvímæli um. En svo skilja leiðir okkar hæstv. ráðh. Á meðan hann, og Alþb. með honum, vill auka enn stóriðjurekstur hér á landi, þá vil ég ekki sjá neinn þungaiðnað hér innanlands og er það þriðja stefnan í stóriðjumálum hér í þinginu.

Ég vil ekki frekari stóriðju hér á landi vegna þess að það þýðir í reynd aukin fjárhagsleg ítök erlendra aðila hér á landi, sem sumir hverjir eru voldugri á alþjóðavettvangi en smáríki á borð við Ísland. Það höfum við séð á óyggjandi máta í samskiptum okkar við Alusuisse.

Í öðru lagi hefur stóriðja hér löngum verið rekin með bókfærðu tapi, sbr. járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og álverið í Straumsvík, þannig að ég sé ekki hver er fjárhagslegur ávinningur af slíkum atvinnurekstri.

Í þriðja lagi er hér um mengandi og náttúruspillandi iðnað að ræða, og væri fróðlegt í þessu sambandi að fá að heyra frá hæstv, iðnrh. hvernig ætlað er að hátta mengunarvörnum við þessa kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Í fjórða lagi þýðir aukin stóriðja enn auknar virkjunarframkvæmdir, en eins og menn vita hefur vegna stóriðjusjónarmiða verið farið of hratt í slíkar framkvæmdir á undanförnum árum eins og erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins sanna. Hlutdeild Landsvirkjunar í erlendum skuldum Íslendinga nemur nú þegar 60%. Ef þessi kísilmálmverksmiðja verður reist þýðir það enn auknar erlendar lántökur til þess að hægt sé að byggja nýjar virkjanir sem síðan er allt útlit fyrir að muni selja verksmiðjunni orkuna undir framleiðsluverði. Það er þessi fjárfestingarstefna sem leitt hefur okkur út á þá heljarþröm sem fjárhagur íslenska þjóðarbúsins er nú á, eins og víðfræg fjárlagagöt sýna og sanna. Þessi fjárfestingarstefna á greinilega að halda áfram og skiptir þá engu hvaða ríkisstjórn situr að völdum á Íslandi. Upp í götin á svo að fylla með smámunum á borð við tannlækningar skólabarna — smámunum við hliðina á því gífurlega fjármagni sem um er að ræða í stóriðju- og virkjanamálum.

Efnalegur hagur Íslendinga næstu áratugi mun sannarlega fara eftir því hvað gert verður eða látið ógert í stóriðju og virkjanamálum, og er uggvænlegt hversu fáir þm. sjá ástæðu til að sitja hér við þessa umr. og taka þátt í henni.

Í fimmta lagi er sérhvert atvinnutækifæri í þungaiðnaði margfalt dýrara en á öðrum atvinnusviðum. Vil ég nú fá upplýst frá hæstv. iðnrh., ef tök eru á, hvað áætlað er að sérhvert atvinnutækifæri við kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði komi til með að kosta.

Í sjötta lagi eru allar líkur á að aukin stóriðjuuppbygging leiði það af sér að önnur atvinnuuppbygging á Íslandi verði látin sitja á hakanum og það með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég hef áður nefnt það hér í þinginu að það viti þeir sem vita vilja að stóriðja er gamaldags og úreltur atvinnu- og framleiðslukostur. Öll framsæknustu iðnaðarríki heims eru nú að flytja þungaiðnað sinn úr landi, og þau flytja hann til þróunarlandanna og landa eins og Íslands sem reyndar má færa rök fyrir að flokkist til þróunarlanda frá efnahagslegu sjónarmiði.

Ef við Íslendingar ætlum að ná okkur upp úr þeirri einhæfni sem í dag einkennir efnahagslíf okkar gerum við það ekki með því að taka við erlendri stóriðju, heldur með því að þróa hér innlendan iðnað, léttiðnað, byggðan á okkar eigin vitsmunum og þekkingu og helst okkar eigin hráefni líka. Sem dæmi um slíkan iðnað má nefna rafeindatækni ýmiss konar, líftæknina sem mikið hefur verið rætt um og tækni við fullvinnslu matvæla. Enn fremur vil ég enn benda á að við Háskóla Íslands fara fram margvíslegar rannsóknir sem leitt gætu til stórkostlegra möguleika á þessum sviðum, en sem hafa á undanförnum árum búið við mikið fjársvelti. Ef svo heldur áfram í þessum efnum gerum við okkur ekki einungis seka um dugleysi heldur einnig um heimsku, eins og haft hefur verið á orði.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er ég andvígur þessari þáltill. af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi felst engin framtíð í stóriðju hér á landi, þvert á móti. Hún mun leiða okkur í enn meiri ógöngur á flestum sviðum en við höfum hingað til þurft að reyna. Í öðru lagi er ég andvíg þessari þáltill. vegna þess að hún hljóðar upp á heimild til aukinna erlendra ítaka í íslensku efnahagslífi. Af slíku höfum við neikvæða reynslu og það ríkulega neikvæða reynstu þar sem eru samskipti okkar við Alusuisse og má mikið til vinna að sú reynsla verði okkur víti til varnaðar.

Einnig er ljóst að ef við tökum hér við erlendri stóriðju í stórum stíl mun sú stóriðja taka til sín stóran hluta af þeirri orku sem framleidd er í landinu, sem aftur þýðir að lítið verður afgangs til að fullnægja þörfum íslenskrar atvinnuuppbyggingar sem þá er líklegt að látin verði sitja á hakanum. Og hvar erum við þá stödd? Ef íslenskir atvinnuvegir fá ekki að þróast sökum orkuskorts, heldur verði orkan veitt erlendum aðilum til atvinnuuppbyggingar hér á landi, þá er hætt við því að allar meiri háttar ákvarðanir í íslensku atvinnu- og efnahagslífi verði teknar af erlendum aðilum. Og hvar er þá komið sjálfstæði lítillar þjóðar við ystu höf? Það vil ég biðja þingheim að íhuga.