08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5538 í B-deild Alþingistíðinda. (4794)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er um mikilsvert mál að ræða, þar sem er þessi till. til þál. á þskj. 715. Þetta er mikilsvert mál og afdrifaríkt og getur orðið okkur afdrifaríkt um árabil. Það varð t. d. afdrifarík ákvörðun þegar Alþingi ákvað að reisa járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Það væri betra að þessu fyrirtæki vegnaði skár en Grundartangaverksmiðjunni hefur vegnað til þessa. Þó að bjartsýnismenn séu enn að spá fallega fyrir fyrirtækinu, og vonandi sé eitthvað að léttast byrðin af því, þá höfum við öðlast þar dýrkeypta reynslu. Ég held að við getum slegið því föstu að þetta þjóðfélag rís ekki undir mörgum svona fallít verksmiðjum. Þess vegna væri betur að þessu fyrirtæki vegnaði skár og væri betur undirbúið en Grundartangaverksmiðjan sem þó var reist að ráði færustu sérfræðinga.

Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli Alþingis á því að þessi þáltill. er ekki í nákvæmu samhengi við áður gerða samþykkt Alþingis í lögum um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þar hljóðar 3. gr. þannig, með leyfi forseta:

„Í sambandi við hlutafélag skv. 1. gr. er ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að kr. 25 millj. í hlutafé í félaginu á árinu 1982 og taka lán í því skyni.

Áður en ráðist verður í framkvæmdir við verksmiðjuna og hlutafé félagsins aukið skal stjórn félagsins gera eftirfarandi:

a) Undirbúa frekari hönnun verksmiðjunnar og leita tilboða í byggingu hennar og búnað.

b) Gera ítarlega áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað, svo og nákvæma framkvæmda- og fjármögnunaráætlun, og gera aðrar þær athuganir er máli skipta.

c) Undirbúa samninga um orkukaup, tækniaðstoð og sölu afurða verksmiðjunnar eftir því sem þurfa þykir.

Stjórn félagsins skal gera skýrslu um starfsemi félagsins og athuganir og skal sú skýrsla lögð fyrir næsta Alþingi. samþykki Alþingi niðurstöður skýrslunnar er ríkisstj. heimili að leggja fram allt að 200 millj. í hlutafé til viðbótar.

Þegar ákvörðun um að leggja fram viðbótarhlutafé hefur verið tekin er ríkisstj. heimilt að kveðja aðra aðila til samstarfs skv. 2. gr. laganna.“

Svo hljóðaði 3. gr. laga um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði sem samþykkt voru á Alþingi 7. maí 1982. Ég átti þá sæti í iðnn. Nd. og var kunnugur þessu máli og hef fylgst nokkuð með því síðan. Ég held að það hafi ekki verið hugsun okkar, sem stóðum að þessum varnagla um að Alþingi þyrfti að leggja blessun sína yfir þetta mál aftur, því að þó að við værum í sjálfu sér jákvæðir vegna hugmyndarinnar um byggingu þessarar verksmiðju, flestir eða allir sem stóðu að þessum varnagla, þá voru þar margir lausir endar sem við vildum fá að festa betur en þá lá fyrir.

En enn er þetta nokkuð í lausu lofti og það sem við höfum við að styðjast þegar okkur er uppálagt að samþykkja hér till. til þál. sem hljóðar svo:

„Með vísun til laga nr. 70 frá 17. maí 1982,“ — þ. e. lögin sem ég var að lesa úr — „um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, ályktar Alþingi að veita ríkisstj. heimild til að taka ákvörðun um að reisa og reka kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð og leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild.“

Í grg. er vitnað í skýrslu sem að vísu er orðin nokkuð gömul og hefur nú verið endurskoðuð en liggur hér ekki fyrir við afgreiðslu þessa máls. Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli fyrirliggjandi verðspár staðfesta hinir nýju útreikningar að kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði geti verið vænlegur orkunýtingarkostur.“

Ég undirstrika þetta orðalag, „geti verið vænlegur orkunýtingarkostur“. Ég er ekki að draga í efa að þetta geti verið vænlegur orkunýtingarkostur en ekki er nú sannfæringarkraftur að baki þessari ályktun. Þar af leiðir að mér sýnist að það hefði að skaðlausu þurft að skoða þetta mál áfram.

Ég vil taka það fram að hér er einungis um heimild að ræða. Það verð ég að segja að ég ber mikið traust til hæstv. núv. iðnrh. Ég hef miklu betra traust á fjármálaviti hans en hæstv. fyrrv. iðnrh. þó góður hafi verið. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er ekkert gefinn fyrir praktískar áætlanir. Hann var í sinni ráðherratíð góður að eyða fé en hann var ekki eins hugsunarsamur um að afla. Þess vegna held ég að þessari heimild sé skár borgið í höndum hæstv. núv. iðnrh. þó að ég sé hins vegar ekki — (Gripið fram í.) Nei, nei, nei, nei, nei, nei, það fólst ekki í orðum mínum þó að ég sé hins vegar ekki að hefja hann á neinn stall.

Það kom hér fram í ræðu hv. fyrrv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, að hann var mjög óánægður yfir því að hér skyldi vera dregið fyrr í þessum umr. samasemmerki á milli járnblendiverksmiðju og kísilmálmverksmiðju. Ég vek athygli á að þegar var verið að taka ákvörðun um byggingu járnblendiverksmiðju í þessari stofnun lágu fyrir góðir útreikningar, miklu nákvæmari og betur grundaðir útreikningar, meira að segja í tvígang, stórkostlega vel hannaðir útreikningar um hvað sú verksmiðja mundi skila í þjóðarbúið. Þar gætti mikillar bjartsýni sem því miður hefur reynst óraunhæf. Ég vonast til að þessar bjartsýnu velviljuðu spár Austfirðinga og annarra áhugamanna um byggingu þessarar verksmiðju standist og af þessu fyrirtæki geti orðið einhvern tíma í framtíðinni.

Mér þykir verra hvað horft hefur verið framhjá mengunarþætti þessa máls, en fyrir honum hefur augunum að mestu leyti verið lokað, því miður. Ég held að Reyðarfjörður sé viðkvæmt svæði og vel geti svo farið að þar verði ekki heppilegt svæði undir mannabústaði í nábýli við þessa verksmiðju.

En til þess að svona fyrirtæki eigi rétt á sér verður það að geta borgað orku sem það þarf að nota með sæmilega réttu orkuverði. Það má ekki borga með þessari orku. Rafmagn frá nýjum virkjunum verður of dýrt til þess að nota það í þessu fyrirtæki, svo framarlega sem gengið er út frá þeim spám sem stjórn félagsins hefur lagt til grundvallar. Ekki borgar sig að virkja nema markaður finnist fyrir orkuna og ekki borgar sig að selja orkuna nema að fá kostnaðinn að verulegu leyti uppi borinn. Þarna er um nokkurn vítahring að ræða.

Ég vek athygli á því í framhaldi af hástemmdri ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar um þá auðlind sem við eigum í orkunni að 50–60% af orkuverðinu er þrátt fyrir allt erlendur kostnaður, því miður. Þegar þessi auðlind er komin í nýtanlegt horf er hún kannske ekki nema að hálfu leyti íslensk.

Við megum ekki steypa okkur í skuldir til þess að reisa orkuver sem síðan tapa á orkusölu. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda bæði áætlanir um orkuver og áætlanir um orkunýtingu og reyna að hafa af þessu sem heildstæðasta mynd og sem allra raunhæfasta.

Ég hefði áhuga á því að eyða hér nokkrum mínútum, en neita mér um það í bili, að ræða eignarhald á svona fyrirtækjum. Um það mætti tala langt mál. Ég held að okkur sé, við fyrirtæki slík eins og þetta, mjög mikilvægt að hafa virk yfirráð yfir öllum þáttum framleiðslunnar.

Þó að hér sé að minni hyggju verið að taka lokaákvörðun um byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði er þetta enn skv. orðanna hljóðan einungis heimild. Ég vil láta það verða mín lokaorð að þessi heimild verði vonandi skynsamlega notuð og hún verði heldur látin ónotuð en óskynsamlega notuð.