08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5544 í B-deild Alþingistíðinda. (4797)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki efna til almennra umr, um þessi stóru mál en vil þó taka fram að allir munu nú sammála um að tækni í að eyða mengun fleygi fram.

Þetta mál hefur auðvitað sína þýðingu fyrir Austurland. Það er yfirgnæfandi meiri hluti fylgjandi þessu máli í þeim byggðum sem hlut eiga að því, eins og kunnugt er. Hins vegar hef ég aldrei verið því fylgjandi að byggja verksmiðju af þessu tagi nema líkur séu á því að það fyrirtæki geti borið sig, vegna þess að ef það ber sig ekki leggst það niður og þá er verr af stað farið en heima setið.

Varðandi verksmiðjuna á Grundartanga er það rétt, sem komið hefur fram, að verið hefur stórhalli á þeim rekstri fram að þessu. Ég skal ekki leggja neinn lokadóm á hvernig þeim rekstri reiðir af þegar upp er staðið. Það hafa verið mjög óhagstæðir tímar, miklu óhagstæðari tímar til slíks rekstrar en menn gerðu ráð fyrir þegar verksmiðjan var byggð, og það er kannske fyrst og fremst það sem hefur farið úrskeiðis í þessu efni. En við skulum vona að það stóra fyrirtæki og þýðingarmikla verði að lokum rekið með hagnaði og verði rekið áfram því að það hefur auðvitað mikla þýðingu í ýmsum efnum.

Stóriðjan sem slík er auðvitað þáttur í enn þá stærra máli, þar sem eru okkar raforkumál, okkar orkuöflun. Við búum við mjög dýrt rafmagn í dag. Ég skal ekki leggja dóm á hvernig hægt er að komast frá því máli, hvernig við getum fengið ódýrara rafmagn með öðrum hætti en þeim að virkja stórt. Ég dreg mjög í efa að við getum í framtíðinni framleitt ódýrt rafmagn nema með því að virkja stórt. Ég held að það sé almennt viðurkennt að stórvirkjanir skiti ódýrara rafmagni en smærri virkjanir þó að frá því séu auðvitað fjölmargar undantekningar. En ég held að það sé viðurkennt sem aðalreglan.

Ef það er svo að við getum ekki framleitt ódýrara rafmagn en við gerum nú öðruvísi en að virkja stórt erum við komnir að þeim þætti hvernig á að tryggja markað fyrir þá orku. Þá kemur inn í dæmið m. a. stóriðjan og annar atvinnurekstur.

Það er dýrt að framleiða rafmagn í okkar landi og dreifa því. Við erum svo skelfilega fámennir og dreifðir. Og svarið við því að framleiða ódýrara rafmagn kann að felast í því að virkja stórt. Þetta er spurning um ákvörðun. Þetta er spurning um hvort menn vilja framleiða dýrt rafmagn eða ódýrara rafmagn og taka þá á sig vissa ókosti sem kunna að vera því samfara að framleiða ódýrt rafmagn. Þetta eru valkostir og menn verða að gera upp við sig hvað menn vilja gera.

Ég vil upplýsa það hér, sem hefur raunar komið fram í blöðum, að aðalfundur miðstjórnar Framsfl. gerði ályktun um þetta mál á fundi sínum fyrir nokkrum dögum og beindi því til ríkisstj. að því yrði hraðað.

Ég er fylgjandi erlendri aðild að þessu fyrirtæki. Ég held að það sé traustara og tryggara að erlend eignaraðild komi þarna til. Að hve miklu leyti? Það er spurning. Það fer eftir því hvernig samningum er hægt að ná. Mér fannst hæstv. iðnrh. nokkuð stórtækur þegar hann lagði það allt að því til eða bauð upp á það að minnka íslensku aðildina úr 51% niður í 1%. Hins vegar held ég að það hafi mátt skilja mál hans svo að hann hafi átt við 50% minnkun ef hann þarf á því að halda seinna, þannig að aðildin gæti þá orðið 25 eða 26%. (HG: Passar það framsókn?) Það getur vel verið að það passi framsókn, það fer eftir atvikum. Eins og ég sagði áðan álít ég að það fari eftir því hvernig samningar bjóðast hve mikil erlenda aðildin eigi að vera. Ég hef ekki neina fordóma í því sambandi. Ég er fylgjandi þeirri stefnu almennt séð í þessum málum að Íslendingar leitist við að eignast þau fyrirtæki sem hér er um að tefla. Hvað það á að gerast á löngu tímabili er annað mál. Ég held að það hafi verið skynsamleg stefna hjá Norðmönnum. Þeir höguðu sínum málum þannig leng í vel að þeir eignuðust smátt og smátt þessi fyrirtæki. Ég held að það sé skynsamleg stefna að eignast meira eftir því sem mönnum vex fiskur um hrygg.

Ég vonast til þess að Alþingi samþykki þessa þáltill., en vil taka það fram enn þá einu sinni að ég álít hreint óráð að byggja svona verksmiðju og reka svona fyrirtæki nema líkur séu á því að hægt sé að gera það með árangri, þannig að fyrirtækið geti borið sig. Ég held að flestir séu sammála um að svona fyrirtæki muni ekki bera sig fyrsta kastið. Ég held að flestir séu sammála um að það þurfi sinn tíma til þess. Mér hefur heyrst á þeim sem starfa í þessum málum að það sé vaxandi áhugi fyrir erlendri aðild. Það hlýtur að vera vegna þess að menn hafi meiri trú á því að hægt sé að reka fyrirtæki af þessu tagi með sæmilegum árangri.