17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Frv. það sem hér um ræðir er til staðfestingar brbl. Ég vil aðeins vekja athygli á því við þessa umr., að undir þessi brbl. rita handhafar forsetavalds, þ.e. forsrh., forseti Sþ. og forseti Hæstaréttar, en nú háttar svo til við útgáfu þessara brbl., að þar skrifar undir hæstv. landbrh., sem einnig var forseti Sþ. um það leyti. Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri gloppu, sem er í þessu kerfi okkar. Þetta hlýtur auðvitað að teljast gersamlega óviðunandi og ekki í samræmi við þá þingræðisreglu sem við viljum starfa eftir. Ég held að það sé mjög brýnt að við, sem eigum sæti á hinu háa Alþingi, gerum ráðstafanir til að svona tilvik komi ekki upp aftur. Það er til vansa fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar að svona tilvik skuli geta komið upp og á ekki að láta óátalið.

Það mætti segja sitt af hverju um það, hæstv. fjmrh., hvort niðurfelling þessa skatts er þess eðlis að til hefði þurft að koma útgáfa brbl. Hvers vegna mátti þetta ekki bíða og hljóta rétta og eðlilega umfjöllun á Alþingi? Ég held að þarna hafi menn, svo sem oft áður, teygt sig býsna langt í notkun brbl.-heimildar stjórnarskrár og fullkomlega hefði verið eðlilegt að afnám þessa skatts og frv. um það hefði verið látið bíða þar til Alþingi kom saman.

Nú er auðvitað líka umræðuefni að þessi skattur var ekki hugsaður til langs tíma. Hann var hugsaður tímabundið, og ég geri ráð fyrir að ýmsir þeirra sem stóðu að því að samþykkja þetta álag á ferðamannagjaldeyri á sínum tíma hafi ekki gert það með glöðu geði, en var ill nauðsyn eins og þá stóð á. Hins vegar er spurning hvort nú er nákvæmlega rétti tíminn til að afnema þetta gjald af ferðagjaldeyri. Ég held að svo hafi ekki verið. Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun á röngum tíma. Ég held að að skaðlausu hefði mátt bíða með að fella þennan skatt niður þar til betur áraði í okkar þjóðarbúi og þar til betur áraði hjá ríkissjóði.

Það er svo líka umræðuefni, sem fara mætti um nokkrum orðum, að þegar lokið var fundi gjaldeyrissjóðs og alþjóðabanka í Washington birti Ríkisútvarpið viðtal við hæstv. viðskrh. — einhverra hluta vegna ekki hæstv. fjmrh., má vera að það hafi verið samkomulag þeirra í milli hvor kynnti þetta mál, — og þar var þjóðinni sagt að nú væru gjaldeyrisviðskipti á Íslandi frjáls. Þessi yfirlýsing hæstv. viðskrh. í fréttum Ríkisútvarpsins var auðvitað alröng vegna þess að gjaldeyrisviðskipti á Íslandi, eins og þau horfa við íslenskum almenningi, voru ekkert frjálsari eftir en áður. Það hafði nákvæmlega engin breyting orðið á reglum um ferðamannagjaldeyri. Það hafði engin breyting orðið á því sem sneri að almenningi varðandi gjaldeyrisviðskipti, þannig að yfirlýsing hæstv. viðskrh. í Ríkisútvarpinu um að nú væru gjaldeyrisviðskipti frjáls var ekki efnislega rétt og til þess eins fallin að blekkja þá sem á hlýddu — allavega að gefa mjög ranga mynd af því sem þarna hafði gerst. Það hafði engin breyting orðið gagnvart íslenskum almenningi önnur en sú, að þessi 10% voru felld niður.

Ég held sem sagt að þetta hafi verið rétt ákvörðun á röngum tíma, eins og nú árar í fjármálabúskap íslenska ríkisins og hjá ríkissjóði. Þess vegna hefði þetta að skaðlausu mátt bíða um sinn. Ég er sammála því að þennan skatt átti að fella niður, en ég held hins vegar að það hafi ekki verið rétti tíminn að gera það nákvæmlega núna og ég held í öðru lagi að það hafi verið ástæðulaust að gera það með brbl., heldur hefði Alþingi átt að fá að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti.