09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5558 í B-deild Alþingistíðinda. (4811)

153. mál, höfundalög

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið um langt skeið til umfjöllunar í menntmn. Þetta er frv. til laga um breytingu á höfundalögum nr. 73 29. maí 1972.

Eins og fram kemur í nál. bárust allmargar umsagnir til nefndarinnar um þetta mál. Flestar þessara umsagna eru mjög jákvæðar í garð frv. Segja má að athugasemdir sé fyrst og fremst að finna í umsögn Neytendasamtakanna þó að ég fari ekki nánar út í það. Einnig barst nefndinni bréf frá fjmrh. þar sem vikið er að frv.

Það sem olli mestum heilabrotum í hv. menntmn. var sú gjaldtaka sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. Má segja að sú gjaldtaka sé eitt meginefni þessa frv. En mig langar, herra forseti, til að lesa upp aðfaraorð frv., ef ég má svo að orði komast:

„Tækniframfarir á síðari árum hafa haft í för með sér stórfellda röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa skv. höfundalögum. Umfangsmikil og almenn not eru nú höfð af verkum höfunda, svo sem með ljósritun, fjölritun, hljóðritun og myndritun, án þess að endurgjald komi fyrir.

Frá sjónarmiði höfundaréttar eru ofangreind not með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er um að ræða einkanot, sem lögmæt og heimil eru skv. 11. gr. höfundalaga. Svo mikið kveður hins vegar að þessum einkanotum nú orðið að ekki verður lengur ætlast til þess að höfundar uni þeim bótalaust. Er með frv. lagt til að lagt verði sérstakt gjald á tæki og tilfæringar til upptöku verka á hljóðbönd eða á myndbönd í þágu einkanota, en heimil einkanot verði ekki þrengd frá því sem nú er í lögum. Í öðru lagi hafa ýmiss konar ólögmæt not af verkum höfunda farið sívaxandi. Verður af þeim sökum að gera ráðstafanir til að auka vernd höfundaréttinda. Er í frv. lagt til að það verði gert með breytingum á réttarfarsákvæðum höfundalaga og ákvæðum um viðurlög við brotum á höfundarétti“

Þessi aðfaraorð, sem ég nefndi svo, lýsa í stuttu máli hvað við er átt með flutningi þessa frv. Eins og ég hef þegar getið um flutti nefndin brtt. Þessi brtt. varðar gjaldið sem nefnt er í 1. gr. frv. Fram kom að sitt sýndist hverjum hvers eðlis þessi gjaldtaka ætti að vera, hvort þetta yrði gjald eða skattur í eiginlegri merkingu þess orðs.

Af þessu tilefni og vegna þeirra umr. og ábendinga í þessu sambandi, sem komu frá fjmrn. og frá Verslunarráði Íslands, og vegna annarra umr. og ábendinga ritaði höfundaréttarnefnd bréf og ég held að rétt sé að ég drepi aðeins á meginefni þessa bréfs, með leyfi herra forseta, en þar stendur:

„Mælt er fyrir um gjald í frv. fyrir afnot af verkum höfunda en ekki skatt, enda er hvorki á því byggt að gjaldið fari um ríkissjóð né að þörf sé á milligöngu innheimtumanna ríkissjóðs vegna greiðslu þess. Á sviði höfundaréttar er alþekkt að gjald fyrir afnot verka sé innheimt án þess að í hverju einstöku tilviki sé unnt að sannreyna hvaða verk hafi verið notuð. Má þar sem dæmi nefna ákvæði 21. gr. höfundalaga og reglur nr. 232 1974 um þóknun til höfunda vegna opinbers flutnings bókmenntaverka og tónverka við guðþjónustur og aðrar kirkjulegar athafnir. Þar sem í frv. ræðir um gjald fyrir afnot af verkum er njóta verndar höfundalaga er ekki eðlilegt að það sé ákveðið einhliða í lögum án samráðs við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta. Í samræmi við meginreglur höfundaréttar er því gert ráð fyrir því í frv. að samráð verði haft við heildarsamtök rétthafa svo og innflytjendur og framleiðendur þótt ráðh. eigi hins vegar að hafa lokaorðið um gjaldið. Er það sami háttur og var á hafður við setningu ofangreindra reglna nr. 232 1974.

Sömu viðhorf hafa hvarvetna ráðið ferðinni þegar gjald fyrir einkaafnot af verkum höfunda hefur verið ákveðið, svo sem í lögum í Vestur-Þýskalandi og Austurríki, og þar sem till. hafa verið gerðar um slíkt gjald, t. d. af hálfu finnsku, sænsku og dönsku höfundaréttarnefndanna, hefur hvergi svo kunnugt sé verið lagt til að gjald af þessu tagi verði ákveðið í lögum.

Í Finnlandi hefur fyrir skömmu verið lagt fram lagafrv. sem í meginatriðum er sama efnis og umrætt frv. til breytinga á íslensku höfundalögunum.

Í Danmörku og Svíþjóð liggja fyrir till. í sömu átt af hálfu höfundaréttarnefndanna þar. Ekki er vitað til að nokkur hafi vakið máls á því í tilefni af þessum till. að slíkt höfundaréttargjald kynni að teljast skattur og lúta þeim sérstöku reglum sem um skatta gilda. Er í álitum þessara nefnda gerður skýr greinarmunur á höfundaréttargjaldi annars vegar og skatti hins vegar.“

Ég taldi rétt, herra forseti, að drepa niður í þetta bréf, þetta álit höfundaréttarnefndar. En þrátt fyrir það sem stendur í þessu bréfi var það niðurstaða nefndarinnar að ákveða þetta gjald í lögum eða í frv. Sú ákvörðun er að mínum dómi ekki einhliða eins og vikið er að í áliti höfundaréttarnefndar. Ég segi það vegna þess að haft hefur verið samband við hagsmunaaðila eða fulltrúa hagsmunaaðila, þ. e. höfundaréttarnefnd í þessu sambandi.

Eins og raunar fram hefur komið varðar brtt. fyrst og fremst gjaldið sem fyrirhugað er að taka skv. 1. gr. Ég fer ekki að lesa upp alla mgr. en niðurlag fyrri mgr. 1. gr. yrði .þá á þessa lund:

„Gjald af tækjum nemi 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða. Gjald af auðum hljóðböndum nemi 10.00 kr. en 30.00 kr. ef um auð myndbönd er að ræða. Menntmrh. setur nánari reglur um gjald þetta, þ. á m. um verðtryggingu gjaldsins.“

Ekki er í sjálfu sér ástæða til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég vil þó geta þess að í n. urðu töluverðar umr. um það hvort slík gjaldtaka væri eðlileg, m. a. með tilliti til þess hversu dýr þessi varningur er hér á landi. Þetta er eins og kunnugt er hátollavarningur og almenningur þarf að greiða fyrir hann hátt verð. Aðrar greinar frv. eru að mínum dómi óþarfi að fara yfir, þær skýra sig sjálfar. Að endingu ítreka ég það að n. leggur einróma til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég þykist hafa gert grein fyrir.