09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5559 í B-deild Alþingistíðinda. (4812)

153. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Frsm. menntmn. og formaður, hv. 5. þm. Vesturl., hefur gert ítarlega grein fyrir þessu máli í sinni framsöguræðu. Ég vil aðeins með örfáum orðum leggja á það áherslu að að meginefni til er hér um brýnt mál að ræða þar sem þetta frv. fjallar um að herða mjög viðurlög við misnotkun á efni og eignarrétti annarra — við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum—við þjófnaði á efni. Ég held að það sé mjög til bóta.

Að því er önnur ákvæði frv. varðar, m. a. þetta gjald sem lagt er á hljóðbands- og myndbandsspólur, vil ég aðeins undirstrika það, sem raunar kom vel og greinilega fram hjá frsm., að forsenda stuðnings míns við þetta frv. er sú að þetta leiði ekki til hækkunar á útsöluverði á þessum vörum. Þær eru þegar í mörgum tilvikum helmingi til þrisvar sinnum dýrari hér en þær eru í nágrannalöndunum og eru því vinsæll flutningur í farteski ferðamanna til landsins þó að alls ekki sé hægt að tala um að það sé beinlínis um smygl að ræða því að menn hafa leyfi til að versla fyrir þann ferðagjaldeyri sem þeir fá eitthvað til sinna einkanota svo sem venja hefur verið.

En það getur ekki gengið að svona mikill verðmunur sé á þessum hlutum, það leiðir okkur í ógöngur eins og menn vita. Mér er tjáð að myndsegulbandstæki séu meðal þess vinsælasta sem menn reyna að koma með ólöglegum hætti inn í landið. Þess vegna beini ég því til hæstv. fjmrh. að við þá endurskoðun tollalaga og tollskrár sem nú er í gangi verði þess gætt að þessi gjöld sem leggjast nú á þessar vörur horfi ekki til lækkunar á útsöluverði eða öllu heldur að tollar á þessum vörum verði lækkaðir verulega frá því sem nú er.

Ég hygg að ekki sé ósanngjarnt að sú leið sé farin hér sem farin hefur verið í flestum grannlöndum okkar að leggja á þetta nokkur gjöld, ekki há að vísu, eins og hér er gerð tillaga um. En ég legg ríka áherslu á það að þetta verði ekki til að hækka enn frekar útsöluverð á þessum varningi. Hæstv. fjmrh. hefur að ég hygg sýnt mikinn skilning á því máli og ég vona að framkvæmdin verði sú sem ég hef hér gert grein fyrir. Ég styð þetta frv. ásamt öðrum nm. með þeim breytingum sem til hafa verið lagðar.