09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5561 í B-deild Alþingistíðinda. (4814)

153. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Það virðist alveg ljóst að meiri háttar ágreiningur er um þetta mál innan ríkisstj. fyrst fjmrh. kemur hér upp og gerir veigamiklar athugasemdir við kjarnaatriði í frv. Ég held að stjórnarflokkarnir þurfi þá að gera það upp við sig hver sé afstaða þeirra til málsins og hvernig þeir ætli að standa að því. Ekki geri ég ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. komi hér og geri athugasemdir við algjör kjarnaatriði í málinu og meginatriði en greiði síðan atkvæði með því vegna þess að það er stjfrv. Það væri a. m. k. mjög óvenjuleg afstaða. En ég hygg að það hljóti að koma til athugunar hjá stjórnarflokkunum hvort ekki sé rétt að fresta afgreiðslu þessa máls ef sá ágreiningur er uppi sem mér virðist vera af því sem hæstv. fjmrh. hefur nú sagt.