09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5562 í B-deild Alþingistíðinda. (4818)

153. mál, höfundalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við það frv. sem hér er á ferðinni, fyrst og fremst vegna aðatefnis þess sem er að styrkja stöðu íslenskra höfunda, styrkja stöðu þeirra sem skapa íslensk menningaverðmæti, styrkja höfundarétt almennt. Höfundar hafa löngum átt undir högg að sækja vegna þess að erfitt er að hafa eftirlit með því hvenær rétti þeirra er fullnægt í notkun almennra neytenda.

Það hafa alltaf verið í gildi frá því að farið var að hyggja að hagsmunum höfunda sérstakar og óvenjulegar reglur um rétt þeirra. Ekkert fer á milli mála að það frv. sem hér er á ferðinni felur í sér mjög sérstæðar og óvenjulegar reglur sem m. a. felast í því að verið er að leggja gjald á þá sem kaupa ónotaðar hljóðbandsspólur og myndbandsspólur án þess að neinar sönnur séu á það færðar eða fyrir fram vitað um það hvort þeir nota þær á síðara stigi til þess að taka upp verk íslenskra höfunda eða ekki. En vegna þess að ekki aðeins rökstuddur grunur leikur á því heldur full vissa manna er um það að í mjög mörgum tilvikum eru spólur af þessu tagi notaðar til að fjölfalda efni sem íslenskir höfundar eiga rétt að þykir þó eftir atvikum rétt, ef svo mætti að orði komast eins og gert er í dómsniðurstöðum stundum, að taka upp þessa sérstæðu reglu að innheimta afgjald af höfundarétti sem notaður er á segulbandsspólum og hljóðbandsspólum með innheimtu sértaks gjalds þegar spólurnar eru keyptar óháð hinu hvort þær verða síðar notaðar í þessum tilgangi eða ekki.

En vegna þess að þessi sérstaka gjaldtaka er svo óvenjuleg og sérstæð leiðir það aftur af eðli máls að hún sker sig kannske nokkuð úr með ýmsum hætti og ekkert einkennilegt að sérfræðingar fjmrn. telji ýmislegt óvenjulegt við þessa gjaldtöku og sérstætt og í litlu samræmi við það sem almennt tíðkast við skatttöku hér á landi. En það þarf ekki að þýða að gjaldtakan sé óeðlileg eða ónauðsynleg og enn síður að hún eigi ekki rétt á sér.

Ég get vel fallist á ýmsar þær athugasemdir sem fram koma hjá sérfræðingum fjmrn. Vissulega hefði komið til greina að fjmrn. hefði innheimt þetta gjald og skilaði því síðan. Vissulega hefði komið til greina að haga innheimtunni með allt öðrum hætti en lagt er til í þessu frv. En það er um tæknileg atriði að ræða sem mér sýnist að skipti þó ekki höfuðmáli í þessu sambandi. Höfuðmáli skiptir að höfundur nái rétti sínum og að samþykkt þessa frv. verði til styrktar íslenskri menningu. Þó að ég geti vel séð einn og annan ágalla á þessu máli ætla ég alveg hiklaust að styðja það eins og það kemur af skepnunni, eins og stundum er sagt, eins og það kemur frá þeim sem það hafa undirbúið og óháð því hvort afleiðingin verður sú að þessi ákveðnu tæki og bönd hækki eitthvað í verði eða ekki. Hér er um svo óverulega hækkun að ræða að ég held að tilgangurinn helgi meðalið í þessu tilviki.

Þó vil ég eindregið taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni og raunar fleirum sem tekið hafa þátt í þessari umr. að ég teldi eðlilegt og raunar þarflegt að fjmrh. beitti sér fyrir því að lækkuð yrðu gjöld að sama skapi á þeim tækjum sem hér eiga hlut að máli þó að ég geri það vissulega ekki að neinu úrslitaatriði við afgreiðslu málsins. Það mál verður vafalaust tekið til athugunar á síðara stigi. Eins og fram kom í bréfi fjmrn. er stefnt að því að samræma gjaldtöku af ýmsum vörum sem fluttar eru til landsins og bera í dag óhæfilega há gjöld. Stefnt er að því að lækka gjöldin þar sem þau eru allra hæst. Í mörgum tilvikum er um tæplega 200% skatt að ræða, ég man nú ekki töluna nákvæmlega en ég hygg að hún sé ekki fjarri lagi að vera einhvers staðar í kringum 180% þar sem gjaldtaka ríkisins verður hæst þegar allt er talið saman, á þeim vörum sem mest eru skattlagðar. Þessar vörur flokkast þar undir og gætu því hugsanlega lækkað eitthvað í verði þegar þessari endurskoðun lýkur.

Ég treysti því eins og fleiri ræðumenn að hér eigi sér stað viss samræming og þessar vörur lækki í verði. Það er þó ekki úrslitaatriði frá mínu sjónarmiði og ég styð megintilgang frv. alveg heils hugar óháð því hvernig fer um þessa endurskoðun og hvenær hún á sér stað. Því að þetta er sannarlega gott mál sem á eftir að verða íslenskri menningu til styrktar.