09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5563 í B-deild Alþingistíðinda. (4819)

153. mál, höfundalög

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að benda á að þetta sé þarft mál, ég held að það fari ekkert á milli mála. Það er kannske dálítið erfitt fyrir menn að átta sig á nokkuð breyttum vinnubrögðum sem verður nánast að viðhafa vegna breyttra aðstæðna í okkar þjóðfélagi. Mjög erfitt er að fullnægja eignarrétti höfunda inni á heimilum fólks með öðrum hætti en lögin gera ráð fyrir, p. e. þessum almenna hætti. Þó að ég hafi lýst yfir ákveðnum efasemdum við þessa innheimtuaðferð strax við 1. umr. þessa máls hef ég eftir langa umhugsun ekki getað fundið aðra betri ef maður er á annað borð samþykkur því að reyna að bæta mönnum með einhverjum hætti þá meðferð efnis þeirra sem ekki verður öðruvísi bætt.

Það er aðeins eitt atriði í þessu frv. sem ég geri dálítinn fyrirvara við þó að ég ætli mér að greiða atkv. með því. Það er í seinustu mgr. 1. gr. þar sem talað er um sérstaka innheimtumiðstöð. Þó að hér sé talað um gjaldtöku en ekki skatta eða tolla held ég að þetta gjald verði þó að teljast vera þess eðlis sem talað er um í 40. gr. stjórnarskrárinnar að engan skatt skuli á leggja eða af taka nema með lögum. Ég hef í raun og veru þann sama fyrirvara um þessa framkvæmd eins og ég hef lýst yfir um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Hér er verið að koma upp sjálfstæðum innheimtuaðila, nánast utan lögsögu, og þetta er að mínu mati ekki nauðsynlegt. Rn. sjálft hefur umboð til þess að fara með þessi mál ef þannig er á málum haldið og því kemur til álita að mínu mati að bera hugsanlega seinna meir fram brtt. við þetta. Innheimtumiðstöðin er fyrst og fremst sett upp til þess að úthluta þessu gjaldi því það á að úthluta því með ákveðnum hætti til aðildarfélaga Bandalags ísl. listamanna þannig að þau geti nýtt sér þetta gjald til sameiginlegra afnota og full þörf trúlega á stofnuninni sem slíkri en ekki nein ástæða til þess að hún hafi neina hönd í bagga með innheimtu gjaldsins.