09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5568 í B-deild Alþingistíðinda. (4825)

81. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. Það frv. sem hér er fjallað um er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 64 frá 31. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er það til breytingar á III. kafla áðurnefndra laga sem fjalla um rannsóknir í þágu atvinnuvega landsins. III. kafli þeirra laga fjallar um Hafrannsóknastofnun og er tilgangur þessa frv. einkum sá að styrkja stjórn og bæta skipulag þeirrar stofnunar.

Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur fjallað mjög ítarlega um frv., leitað umsagnar ýmissa aðila, sem málið varðar, og heimsótt stofnunina og rætt við stjórn hennar, forsvarsmenn og fulltrúa starfsfólks.

Þess er rétt að geta að þetta frv. var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og þá í þessari hv. deild og hafði þáv. sjútvn. þessarar deildar unnið allmikið í málinu með öflun umsagna og upplýsinga og studdist núverandi nefnd mjög við þau gögn.

Helstu breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum eru að það er fjölgað í stjórn stofnunarinnar úr þremur í fimm. Með þessu fyrirkomulagi eru sköpuð ákveðnari tengsl við hagsmunaaðila en núverandi lög gera ráð fyrir.

Frv. gerir ráð fyrir að ráðnir verði tveir aðstoðarforstjórar að stofnuninni. Forstjóri og aðstoðarforstjórar skulu ráðnir til fimm ára í senn. Annar er forstjóra til aðstoðar um vísindaleg málefni, en hinn um fjármál og rekstur og verður þannig fjármála- og rekstrarstjóri stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að hann annist stjórn á rekstri skipa stofnunarinnar og almenna fjármálastjórn og fjárhagsáætlanir hennar. Þarna er um veigamikla breytingu að ræða þar sem fjármálastjórnin er færð til stofnunarinnar sjálfrar, en hún hefur að hluta til, t. d. rekstur hafrannsóknaskipanna, verið hjá rekstrardeild Ríkisskipa.

Í nefndinni kom mjög skýrt fram að í þetta starf yrði ráðinn starfsmaður með góða þekkingu og sérmenntun á sviði rekstrar og fjármála. Aðstoðarforstjórarnir yrðu þannig með tvö aðskilin starfssvið, annar með vísindasviðið og framkvæmdastjórn þess, en hinn með rekstrarsviðið og framkvæmdastjórn þess. Nánar mun ég ekki fara út í þessa skilgreiningu hér, enda er það nokkuð innanríkismál stofnunarinnar hvernig þessu verður raðað niður.

Skv. umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar má áætla að kostnaðarauki vegna samþykktar frv. þessa og vegna þeirrar skipulagsbreytingar sem þar er lögð til verði 400–450 þús. kr. á ári miðað við verðlag eins og það var í okt. 1983.

Sjútvn. þessarar hv. deildar er sammála um að mæla með samþykkt frv., en leggur til nokkrar brtt., sem eru fluttar á þskj. 785, og mun ég fara yfir þær, með leyfi forseta.

Við 1. gr. síðari mgr. 13. gr. breytist. Í frv. segir: „Sjútvrh. ræður deildarstjóra að fengnum tillögum stjórnar og forstjóra, en forstjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar.“

Breyting sú er nefndin leggur til að gerð verði er að það verði ekki sjútvrh. heldur forstjóri sem ræður deildarstjóra að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar og einnig ræður hann annað starfslið hennar.

Það sem eftir lifir af mgr. er lagt til að verði óbreytt. Þetta var nokkuð mikið rætt af þeirri nefnd sem fjallaði um og undirbjó þetta frv. á sínum tíma og virtust vera þar skiptar skoðanir, en nefndin, sem fjallar um þetta nú, er sammála um að ráðning starfsfólks verði í höndum forstjórans í þessu tilviki en ekki sjútvrh. Þar sem þarna er forstjóri ráðinn og deildarstjórar í fimm ár í senn verður öllu meiri ábyrgð og ferskari stjórn á fyrirtækinu, enda leggur nefndin til að svo verði að staðið sem áður sagði:

Við 1. gr. Síðari málsliður 2. mgr. 15. gr. — þetta eru síðustu þrjú orðin í næstsíðustu mgr. 15. gr. — falli niður, en þar stendur: „Nefndin er ólaunuð“. Þetta leggjum við til að verði fellt niður. Þarna er um að ræða ráðgjafarnefnd sem á að vera til ráðgjafar og ráðuneytis fyrir stofnunina og við viljum ekki festa það í lögum að ekki megi greiða þessari nefnd laun ef svo stendur á.

Við 1. gr. frv. Í 16. gr. laganna er eitt orð sem lagt er til að falli út, þ. e. þriðja orð í fyrstu línu. Þar stendur: Hafrannsóknastofnuninni er nú heimilt að starfrækja, en við leggjum til að fellt sé niður orðið „nú“. Þá verður setningin heillegri en hún er í frv.

Við 2. gr. á bls. 3. Þar segir í frv.: „Lög þessi öðlast þegar gildi:“ Þar er sú breyting lögð til að lög þessi öðlist gildi 1. júlí 1984.

Í þessu frv. er ákvæði til bráðabirgða og það leggur n. til að verði fellt niður. Hún telur ekki þörf á að það sé þarna inni þar sem búið er að kveða á um lögfestingu þessa frv., ef að lögum verður, frá 1. júlí næstkomandi.

Nefndin varð öll sammála um það, eins og ég sagði, að frv. yrði samþykkt með þessum breytingum og læt ég því máli mínu lokið.