08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

53. mál, starfsemi endurhæfingarráðs

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þessa fsp. rifja upp að starfsemi endurhæfingarráðs, sem skipað er sjö mönnum, hefur í meginatriðum verið tvenns konar: annars vegar að fjalla um beiðnir um fjármagn úr Erfðafjársjóði og gera tillögur um úthlutun og hins vegar að hafa með höndum atvinnuleit og vinnumiðlun fyrir fatlaða.

Starfsmaður endurhæfingarráðs, Karl Brand, hefur aðallega sinnt vinnumiðlunarstartinu og unnið í nánum tengslum við Múlalund, sem er verndaður vinnustaður. Auk hans vinna hjá endurhæfingarráði félagsráðgjafi í hálfu starfi og skrifstofumaður í hálfu starfi.

Varðandi þau verkefni sem endurhæfingarráð hefur haft með höndum mun úthlutun á fjármagni verða í höndum stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, sbr. 36. gr. laga um úthlutun úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Varðandi atvinnuleit og vinnumiðlun ber svæðisstjórnum samkv. 22. gr. laga um málefni fatlaðra að sinna þeim þætti, en þar segir:

„Atvinnuleitin skal starfa í nánum tengslum við félmrn., vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila.“

Samkv. lögum um málefni fatlaðra munu því svæðisstjórnir taka þennan vinnumiðlunarþátt, sem endurhæfingarráð hefur sinnt. Hér er fyrst og fremst um Reykjavíkursvæðið að ræða eins og framkvæmdin hefur verið. Með þessar breytingar í huga gerði félmrn. till. um að fjölga stöðugildum svæðisstjórnar Reykjavíkur úr einu upp í 3.5 frá næstu áramótum að telja, sbr. frv. til fjárl., eins og hv. alþm. geta séð á bls. 221.

Þá má geta þess, að félmrn. hefur haldið marga fundi, m.a. með formanni endurhæfingarráðs. um þessar breytingar, einnig með formanni ráðsins og formanni svæðisstjórnar Reykjavíkurborgar varðandi húsnæðismál, starfsmannahald o. fl. Enn fremur hefur nýverið verið haldinn fundur með formanni og fulltrúum úr ráðinu um framhald þess starfs sem endurhæfingarráð hefur haft með að gera.

Þá hafa verið haldnir fundir um þessi mál bæði hjá svæðisstjórn Reykjavíkur og Ráðningarskrifstofu Reykjavíkurborgar svo og með forstöðumönnum verndaðra vinnustaða í Reykjavík. Ég legg áherslu á að samstarf takist meðal þessara aðila um framkvæmd nýrra laga um málefni fatlaðra að því er þetta varðar og að ekki verði röskun á því starfi, sem fram hefur farið hjá endurhæfingarráði í þágu fatlaðra, sem fram undan er með breytingu laganna.

Ég hef hvergi orðið var við annað í umræðum en allir væru tilbúnir að leysa þessi mál farsællega, og ég geri ráð fyrir því að sú starfsemi, sem fer fram á skrifstofunni í dag, muni halda áfram þar til nýtt skipulag hefur þróast á næstu vikum eða fyrstu vikum nýs árs, eftir að lögin taka gildi.

Ég vil geta þess hér. að farið hefur fram mjög ítarleg könnun á húsnæðisaðstöðu fyrir þessa starfsemi og verið er að ganga frá samningum um leiguhúsnæði í Hátúni 10 til að tengja þessu verkefni. Því er mér óhætt að fullyrða, að af hálfu félmrn. og annarra aðila er skipulega unnið að farsælli lausn þessa máls. Það er núna unnið við reglugerðir um framkvæmd laganna ásamt ýmsum skipulagsþáttum, sem þarf að fjalla um með tilkomu nýrra laga.

Ég tel mig geta fullvissað hv. fyrirspyrjanda um að það verði gengið þannig frá þessum málum að ekki verði röskun á þeirri starfsemi sem nú fer fram, heldur verði tryggt að hún verði aukin með tilkomu nýrra laga.