09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5572 í B-deild Alþingistíðinda. (4830)

329. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv. þetta er það til komið vegna stöðu útgerðarinnar nú og í sambandi við fiskverðsákvörðun frá því í vetur. Þetta er að sumu leyti angi af þeim aðgerðum sem gerðar voru af núverandi ríkisstj. fyrir tæpu ári, þ. e. þeim gengisbreytingum sem gerðar voru í upphafi starfsferils ríkisstj. Skuldabaggi á útgerðinni jókst um allan helming við þær aðgerðir og þá kom í ljós að á mörgum fiskiskipum hvíldu það miklar skuldir að ekki var um það að ræða að Fiskveiðasjóður, þó út í það væri farið, gæti lánað þeim viðbótarlán skv. þeim reglum sem sjóðurinn lánar eftir, þ. e. út á 75% af tryggingarverðmæti skipanna.

Það væri ekki úr vegi að spyrja um það við þessa umr. hver næsti leikur er varðandi aðstoð við fiskiskipastólinn. Það var upplýst á fundi n. að hér væri vandinn ekki leystur nema að hluta, m. a. væri með þessu ekki bjargað stöðu þeirra skipa sem verst eru stödd þó að um það sé reyndar rætt að þeir aðilar sem skulda meira en 90% af matsverði skipa sinna hafi möguleika til að útvega aukaveð. Það kemur jafnvel ekki að haldi hjá þeim skipum sem hvað verst eru stödd. Þau hafa sjálfsagt ekki mikið af aukaveðum upp á að hlaupa.

Ráðh. er nú ekki staddur hér í Ed. og ég veit ekki hvort formaður sjútvn. hefur aðstöðu til að svara þessu, en ég taldi ástæðu til að láta þetta koma fram við þessa umr.

Ég vil einnig taka undir það, sem kemur fram í nál., að n. leggur áherslu á það, og það kom fram í umr. í n., að við setningu reglugerðar um þessi mál yrði einnig tekið tillit til hinna smærri fiskiskipa, en samkvæmt reglum Fiskveiðasjóðs er miðað við 20 tonna báta, þ. e. skuldbreytingarlán fiskiskipa nái að 20 tonna markinu. Vitaskuld er fullt af smærri bátum í fjárhagsvanda. Okkar till. er sú, að í reglugerðinni verði miðað við alla yfirbyggða fiskibáta.

Við í stjórnarandstöðunni, þ. á m. við Alþb.-menn, töldum ekki ástæðu til annars en að standa að þessu frv. þar sem þetta er nauðsynleg ráðstöfun til þess að þarna megi vera um að ræða ákveðna sameiginlega fyrirgreiðslu í gegnum Fiskveiðasjóð.