08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

53. mál, starfsemi endurhæfingarráðs

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans og alveg sérstaklega yfirlýsingu hans í lokin, að þessi þáttur verði, eins og lögin reyndar segja til um. stóraukinn.

Það er rétt, eins og kom fram í hans máli, að svæðisstjórnir eiga nú að taka þennan þátt að sér. Ég efast ekki um að hér á Reykjavíkursvæðinu verður bolmagn til þess og ég fagna því að fyrir því er sérstaklega séð í fjárlögum nú að þessum þætti verður þar sinnt enn betur en verið hefur. Ég veit hins vegar, að á landsbyggðinni er þetta meira vandamál og hefur auðvitað verið. Það er ekkert nýtt. Þar þarf svo í framhaldi af því sem gert er hér að reyna enn frekar að útvega fötluðum vinnu við sitt hæfi. Mér er ljóst, að þótt endurhæfingarráð hafi unnið nokkuð að slíkri atvinnumiðlun hefur hún hvergi nærri verið sú sem vera hefði átt og þurft hefði. Það hefur hins vegar komið mörgum til góða, en hér eru ótrúlega margir að koma eftir slys og eftir veikindi ýmiss konar út í atvinnulífið á nýjan leik og þarf að hjálpa.

Ég treysti því að hæstv. ráðh. og rn. hans sjái til þess að þessi lög verði sem fyrst sem virkust og að þau nái til landsins alls. Því miður höfum við af því slæma reynslu varðandi lög af þessu tagi, að ef ekki er alveg sérstakur áhugi fyrir þeim í byggðarlögunum heima fyrir situr oft hlutur landsbyggðarinnar mjög eftir.