09.05.1984
Neðri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5579 í B-deild Alþingistíðinda. (4864)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til framhaldsumr. frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 1944. Ætla má að um frv. þetta verði miklar umr. Frv. er komið óbreytt frá hv. Ed. Flm. þess eru forustumenn stjórnmálaflokka á hv. Alþingi þannig að líklegt er að frv. hafi góðan byr í seglin. Um þetta frv. mætti margt ræða, allan aðdraganda þess og afgreiðslu. Sjálfur gæti ég vísað til fyrirvara sem ég gerði fyrir ári síðan þegar þetta frv. kom til atkvæða hér í hv. deild. En á þessu stigi ætla ég ekki að ræða frv. í svo mjög löngu máli, aðeins benda á eitt atriði.

Ég tel víst að það sé ætlunin að fá þetta frv. samþykkt á þessu þingi og þar með að meira sé en tjaldað til einnar nætur. Miklu fremur tel ég að frv. séu ætlaðir langir lífdagar. M. a. þess vegna vil ég vekja athygli manna á 1. gr. frv. þar sem fjallað er um kjördæmin í landinu. Þar segir svo í 3. tölul., að Vesturlandskjördæmi nái yfir Borgarfjarðarsýslu, Akraneskaupstað, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu. Ég vil geta þess að þarna er ekki minnst á yngsta kaupstað landsins. Ólafsvíkurhreppur hlaut kaupstaðarréttindi 23. mars 1983 og er því kominn á annað ár. (ÓÞÞ: Þeim er ekki ætlað að hafa kosningarrétt.) Ég skal ekki um það segja, hv. ritari, en mér finnst þó ástæða til að vekja athygli á þessu, einkum af því að ég hygg að þessu frv., ef að lögum verður, sé ætlað að gilda um langa hríð. Þess vegna sakna ég þessa nafns á yngsta kaupstað landsins, eins og ég nefndi.

Ég held ég láti nægja að vekja athygli á þessu atriði og geta hv. þm. ásamt þeim nm. sem um þetta mál fjalla þá velt þessu atriði fyrir sér, hvort hér er hyggilega eða vel á málum haldið.