09.05.1984
Neðri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5585 í B-deild Alþingistíðinda. (4866)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það breytir auðvitað litlu þótt reynt sé að mótmæla þessari allsherjarsátt hinna fjóru stóru. Mér er fullkomlega ljóst að þessi lausn fékkst ekki á einni nóttu heldur kostaði hún mikla vinnu og margra vikna fundarsetu. Og hér er ekki aðeins um samkomulag fjögurra stjórnmálaflokka að ræða heldur miklu fremur málamiðlun ólíkra hagsmuna innan hvers flokks fyrir sig og virðist þó af ummælum margra ekki hafa náðst til fulls.

Fullyrt hefur verið að fá lagafrv. hafi verið undirbúin jafnrækilega og þau frv. til breytinga á stjórnarskránni og kosningalögunum sem nú liggja fyrir þinginu, og sé ég ekki ástæðu til að draga það í efa. Skv. framansögðu má því búast við að þessi frv. verði samþykkt á þessu þingi, nema formenn flokkanna hafi þeim mun verra taumhald á liðsmönnum sínum. Það skal fúslega viðurkennt að Kvennalistakonur hafa ekki haft hátt um þessi mál. Framboð okkar fyrir síðustu kosningar átti sér fremur stuttan aðdraganda og átti sér aðrar meginorsakir en þær að við hygðumst vinna að breytingum á kjördæmaskipan og kosningalögum. Það er þó langt frá því að við séum skoðanalausar í þessu efni, en eins og í flestum ef ekki öllum flokkum og stjórnmálasamtökum falla þær skoðanir ekki svo nákvæmlega í einn farveg að ég geti mælt fyrir hönd Kvennalistans í heild. Ég tala því einkum fyrir sjálfa mig í þetta sinn.

Ég hef fulla samúð með sjónarmiðum kjósenda á landsbyggðinni og skil ótta þeirra við höfuðborgarvaldið en ég get ekki fallist á réttmæti þess að berjast gegn höfuðborgarvaldinu með því að viðhalda misrétti í atkvæðavægi. Við erum fámenn þjóð og eigum að standa saman að lausn mála. Misrétti í atkvæðavægi vinnur gegn því og elur á tortryggni og úlfúð milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Misrétti eftir búsetu á að mínum dómi að leiðrétta á annan hátt en með misjöfnu atkvæðavægi.

Ef rétt væri að lagfæra misrétti sem af búsetu hlýst með misjöfnu atkvæðavægi þá mætti væntanlega með sama rétti lagfæra margháttað annars konar misrétti á sama hátt. T. d. væri þá með sama hætti sanngjarnt að freista þess að rétta hlut kvenna með því að láta þær hafa tvöfaldan atkvæðisrétt á við karla. Vill einhver það? Ekki hefur það enn komið til tals meðal kvenna svo að mér sé kunnugt um, enda að mínum dómi aldeilis fráleitt. (ÓÞÞ: Stjórna þær ekki bændum sínum?)

Mér er reyndar fyrirmunað að skilja hvers vegna svokallaðir landsbyggðarþingmenn, sem alltaf eru í meiri hluta hér í þinginu, hafa ekki unnið markvisst að dreifingu valdsins um landið í stað þess að einblína á togara hér og vegarspotta þar og gera landsbyggðina sífellt háðari höfuðborgarvaldinu. Í þessu sambandi er vert að minnast þess að fyrir nokkru var stofnuð lausanefnd eins og síðasti ræðumaður einmitt kom líka að. Sú nefnd átti, það ég best man, einmitt að fjalla um jöfnun misréttis milli landshluta. Enn þá hefur sú nefnd ekki komið saman svo að eitthvað er nú áhuginn takmarkaður hjá þeim sem ráða.

Samtök um kvennalista telja að draga eigi verulega úr miðstýringu og þá sérstaklega að færa valdið frá ríki til sveitarfélaga, auka vægi og vald landshlutasamtaka og dreifa ríkisstofnunum meira um landið. Að því ætti að vinna markvisst en hins vegar alrangt að blanda því saman við vægi atkvæða eins og meiri hluti þm. vill enn þá gera en alveg áreiðanlega minni hluti kjósenda. Ég legg því til að þetta frv. verði fellt. Það bætir lítið það ástand sem nú ríkir í kördæmaskipan og skiptingu þingsæta milli kjördæma, þrátt fyrir nýjar reikningskúnstir, svo sem kynntar eru á þskj. 222 sem nú er til meðferðar í n. hér í Nd. Skylt er þó að viðurkenna að þetta er allgóð lausn miðað við þau markmið sem þessum lögum er ætlað að ná, sem voru þessi helst: jöfnuður milli flokka, nokkur leiðrétting á búsetuvægi og betri landsdreifing þingliðs án þess að breyta kjördæmaskipan frá því sem nú er. Þessi markmið eru að sumu leyti mótsagnakennd og niðurstaðan getur aldrei orðið rétt að allra dómi. Í mínum huga er alveg ljóst að eina raunverulega réttlætið er að allt landið sé eitt kjördæmi og öll atkvæði kjósenda jafngild. En líklega er langt í það réttlæti.