09.05.1984
Neðri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5586 í B-deild Alþingistíðinda. (4867)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason vísaði til yfirlýsingar sem hann kvað vera yfirlýsingu formanna þeirra flokka sem fluttu frv. sem nú er til meðferðar á hinu háa Alþingi í annað sinn. Ég leyfi mér að lesa þessa yfirlýsingu í heild sinni, með leyfi forseta. Þar segir:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. Að leggja fram með frv. þessu, sem sérprentað fskj., „Skýrslu stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar“ (Reykjavík, janúar 1983). Þetta er gert í því skyni að almennar umræður fari fram um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ætti almenningi þá að gefast kostur á að tjá sig um þá endurskoðun þannig að afgreiðsla nýrrar stjórnarskrár geti orðið með vönduðum hætti að lokinni rækilegri umfjöllun.

2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Ég vil taka heils hugar undir fjölmargt af því sem hv. þm. sagði um mismunun eftir búsetu og skal ekki endurtaka það hér. Þar er um fjölmargt að ræða sem þarf að lagfæra. Hins vegar vildi ég með því að lesa yfirlýsinguna leggja áherslu á að í fyrsta lagi eru það þingflokkar þessara flokka en ekki flm. frv. sem þessu hétu. Ég er ekki að skorast þar undan ábyrgð. Ég stend að því með þingflokki Framsfl. að þetta verði efnt. Og í öðru lagi, sem er kannske meira mál, lofað er að þetta verði gert samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár, en alls ekki samhliða afgreiðslu þessa máls.

Hér er aðeins um eina breytingu á stjórnarskránni að ræða. Stjórnarskrárnefnd starfar enn og eins og ég minnti á í umr. hér á hinu háa Alþingi hefur hún sent drög að breytingum til umsagnar í þingflokkum. Hafa ekki borist, að því er ég best veit, mikil viðbrögð við því. Ég beitti mér hins vegar fyrir því að þingflokkarnir tilnefndu mann til að fjalla um það sem sagt er í þessari greinargerð.

Hér segir að þetta skuli afgreiða samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Mér hefði aldrei dottið í hug að svo gífurlega umfangsmiklar breytingar, sem þar þyrftu að vera á ferðinni, ég tek undir það með hv. þm., verði hristar fram úr erminni með afgreiðslu þessa máls á síðustu vikum þingsins.

Vitanlega er verið að vinna að slíkum breytingum á fjölmörgum sviðum. Stjórnarskrárnefnd sjálf vinnur að slíkum breytingum. Á vegum félmrn. er nú hafið miklu nánara samráð við sveitarfélögin, m. a. um skiptingu valds á milli ríkis og sveitarfélaga sem er lengi búið að vera í umfjöllun.

Hv. þm. gerir að vísu lítið úr frv. um jöfnun upphitunarkostnaðar, en þó er um mjög mikla aukningu á fjármagni í þessu skyni að ræða frá því sem t. d. var á fjárlögum síðasta árs. Ég tek undir það að meira þarf að gera á því sviði, en ég tel að sú viðleitni, sem það frv. sýnir, sé þó mjög stórt spor í rétta átt.

Hugmynd mín var sú, að fulltrúar þingflokkanna fylgdust með því sem fram undan er og verið er að vinna að á þessum sviðum og mætu hvort með því væri ekki staðið við þá yfirlýsingu sem hér er gefin. Ég vil hins vegar lýsa yfir því, að jafnvel þótt svo vel færi að stórt skref yrði tekið óttast ég að lengi verði fundinn einhver mismunur á milli dreifbýlis og þéttbýlis, líklega á báða vegu reyndar, og aldrei náð því jafnrétti sem menn telja fullnægja þeim kröfum sem þeir gera.

Ég vil vísa því algerlega á bug að það sé ætlun þeirra sem fluttu frv. að við yfirlýsingu þessa verði ekki staðið og ég veit ekki annað en þeir þingflokkar sem þessu lofuðu ætli sér að standa við þá skoðun, en ég legg áherslu á að ætíð hefur verið meiningin að það yrði gert í tengslum við afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár sem er í meðferð enn þá í stjórnarskrárnefnd og kemur ekki fyrir þetta þing.