09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5591 í B-deild Alþingistíðinda. (4881)

136. mál, hafnalög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er mælt fyrir er komið frá Ed. og þar voru gerðar á því talsverðar breytingar frá því frv. sem fyrir var lagt og unnið hafði verið á vegum ráðuneytis af sérstakri nefnd, svo sem gerð er grein fyrir í athugasemdum með frv.

Það sem ég ætlaði aðeins að víkja að við 1. umr. hér í hv. deild er sú breyting sem gerð er á 12. gr. frv. frá upphaflegu horfi, breyting sem samþykkt var í hv. Ed. og varðar möguleika sveitarfélaga og aðstöðu til innheimtu á hafnargjöldum. Með brtt. við 12. gr. voru felld út eftirfarandi ákvæði í sambandi við þetta mál:

Í 12. gr. frv., eins og það liggur hér fyrir, segir í 4. lið: „Vörugjald af útflutningi og aflagjald skal auk þess tryggt með veði í útflutningsbirgðum þess aðila sem skuldar vörugjald“.

Í framhaldi af þessu sagði í frv., eins og það var lagt fyrir í Ed.: „og hefur hafnarsjóður haldsrétt í varningnum uns gjaldið er greitt.

Verði misbrestur á greiðslu aflagjalds skal viðskiptabanki fiskkaupanda, ef óskað er, standa hafnarsjóði skil á greiðslu gjaldsins, er hann tekur veð í viðkomandi framleiðslu. Enn fremur skal útflytjandi eða banki, er greiðir framleiðanda söluverð varnings, greiða hafnarsjóði áfallið en ógreitt vörugjald af viðkomandi varningi.“

Þetta sem ég hef hér lesið var fellt út við breytingu í hv. Ed. og með því veiktur mjög verulega möguleiki hafnarsjóðanna til að tryggja greiðslu vörugjalds af viðkomandi útflutningi.

Nú er það eðlilega nokkurt álitamál hvaða tillit eigi að taka til hagsmuna hafnarsjóða í þessum efnum, en yfirleitt eru þeir nú ekki of vel staddir og möguleiki þeirra til að beita þeim ákvæðum sem eftir standa í frv., eins og það liggur hér fyrir, eru ekki ýkja miklir, að hafa tryggingu með veði í útflutningsbirgðum þess sem skuldar vörugjald.

Brottfall þessa ákvæðis, að verði misbrestur á greiðslu aflagjaldsins, þá skuli viðskiptabanki fiskkaupanda, ef óskað er, standa hafnarsjóði skil á greiðslu gjaldsins, er auðvitað mjög veikjandi fyrir hafnarsjóðina varðandi möguleika þeirra til að fá skilvísa greiðslu á þessu gjaldi. Við þekkjum það, ekki síst í hinum minni byggðarlögum, að möguleiki þessara sjóða til að ganga að fyrirtækjum þar með mjög hörðum hætti eru ekki ýkja miklir, eða þeirra aðstaða er ekki sterk í þeim efnum, þannig að ég teldi að ekkert hefði veitt af því að halda inni þeim ákvæðum, a. m. k. að verulegu leyti, sem voru í frv. eins og það var lagt fyrir í hv. Ed. Ég vek hér athygli á þessu við þessa umr. og óska eftir því að þetta fái alveg sérstaka athugun í viðkomandi nefnd.