09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5592 í B-deild Alþingistíðinda. (4882)

136. mál, hafnalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og raunar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni var þessi breyting á 12. gr. gerð skv. till. samgn. Ed. Þær breytingar komu aldrei til mín eða í ráðuneytið. Þessar breytingar byggðust á umsögnum um frv. sem bárust nefndinni. Formaður nefndarinnar skýrði mér frá þessum umsögnum og þeim breytingum sem væri farið fram á og nefndin væri hlynnt að gera. Ég taldi að nefndin yrði að meta það og vega hvað langt ætti að ganga.

Hins vegar vakti ég athygli á því, að sú nefnd sem upprunalega samdi frv. og ráðuneytið sem fór yfir það vildu reyna að búa sem attra best um hnútana til að tryggja tekjur hafnanna.

Hins vegar eru enn inni ákvæði í 12. gr. eins og að halda má eftir skráningar- og þjóðernisskírteinum til tryggingar greiðslu skipa- og vörugjalda, og að vörugjald af útflutningi og aflagjald skal auk þess tryggt með veði í útflutningsbirgðum þess aðila sem skuldar vörugjald. En hitt var tekið út, skuldbinding banka sem lánar út á vöru. Þetta getur auðvitað verið matsatriði og ég tel sjálfsagt að verða við tilmælum hv. þm. um að nefndin athugi nánar þessi atriði.