09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5600 í B-deild Alþingistíðinda. (4895)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég harma að hæstv. landbrh. skuli ekki vera staddur við þessa umr. og enn fremur og ekki síður formaður þeirrar nefndar sem fjallaði um þessi bankamál, hv. 1. þm. Suðurl. Ég hefði viljað leggja fyrir hann nokkrar spurningar í sambandi við þetta mál og tel mjög miður að hvorugur þessara hv. þm. er hér staddur.

Ég kemst ekki hjá því að ræða þetta mál í nokkuð löngu máli þó að frv. sé nú ekki langt. Það er svona:

„1. gr.: Yfirstjórn bankans er í höndum ráðherra þess sem fer með bankamál.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það hefur verið rætt mikið um þessi mál á undanförnum árum og fyrir nokkrum árum, ég man ekki hvað langt er síðan, var mikil umræða um þetta og þá var gerð úttekt á því hvaða stærð banka væri hagstæð upp á rekstur. Það virtist vera að ef banki færi fram úr ákveðinni stærð yrði reksturinn tiltölulega dýrari. Það kom í ljós t. d. að rekstrarkostnaður Landsbankans var meiri en á hinum bönkunum miðað við stærð.

Í þeirri grg. sem hér liggur fyrir er sagt að sameining banka mundi verða hagstæðari kostur. En var gerð úttekt á þessu atriði? Hver var hún? Ég vil helst að svar við þeirri spurningu komi hér fram áður en 1. umr. lýkur um þetta mál. Það segir hér í grg., með leyfi forseta:

„Kostir þess að allir viðskiptabankarnir heyri undir sama ráðherra eru augljósir. Reyndar má segja að önnur skipan mála sé ekki eðlileg. Séu bankarnir undir sama ráðh. tryggir það samræmdari afstöðu stjórnvalda gagnvart bönkunum en verið hefur. Núverandi skipan mála er t. d. af ýmsum talin eiga sinn þátt í örri fjölgun bankaútibúa á undanförnum árum.“

Þessu er slegið fram. En hver er þá reynslan? Hver er reynslan fyrir þessu? Tökum sem dæmi árin frá 1964– 1984. Þá setti Landsbankinn upp 15 útibú, en hann hefur tekið við níu sparisjóðum eða öðrum peningastofnunum. Hjá Búnaðarbankanum hafa á sama tíma verið stofnuð ellefu útibú, en hann hefur yfirtekið sjö sparisjóði eða innlánsstofnanir á sama tíma. Það hefur verið stefna Búnaðarbankans að setja ekki niður útibú öðruvísi en heimamenn óski eftir, ef er sparisjóður á þeim stað, og sparisjóðurinn eða innlánsstofnunin sé í upphafi sameinuð bankanum. Á þessum sama tíma hefur Útvegsbankinn myndað sex útibú, Iðnaðarbankinn átta, Samvinnubankinn níu, Verslunarbankinn fjögur og Alþýðubankinn tvö. Ég held að ef menn athuga þetta standist ekki sú fullyrðing, sem er í grg., að það sé ástæðan fyrir fjölgun útibúa að yfirstjórn þessara banka sé í annarra höndum en viðskipta- og bankamálaráðherra. Nú vil ég taka það fram að það sem ég segi hér um þessi mál beinist alls ekki gegn núv. viðskrh. eða að ég beri nokkurn kvíðboga fyrir því þó að t. d. Búnaðarbankinn færi undir stjórn hans, þann tíma sem ég kann að vera í bankaráði Búnaðarbankans mundi ég ekki kvíða neinu um það, síður en svo. Það má ekki taka orð mín þannig. En ég átel það alveg sérstaklega að þetta frv. skuli vera lagt fram nú án þess að það hafi verið athugaðir aðrir þættir þessa máls og það skuli vera gert á þann veg, sem mun vera einsdæmi um frv. af þessu tagi, málið hefur ekki verið sent til umsagnar. Þetta er nýkomið og var keyrt í gegnum Ed. án þess að senda það til umsagnar. Ég hef fengið upplýst að þetta hefur aldrei skeð áður.

Önnur ástæða fyrir því að æskilegt sé að hafa skipun mála á þennan veg er sögð sú að það þurfi að samræma reglur í sambandi við útlán, að bankarnir séu ekki fyrst og fremst fyrir ákveðinn atvinnuveg eða séu meira alhliða, en ekki fyrst og fremst fyrir einhvern sérstakan atvinnuveg. Ef litið er á hvernig þetta kemur út held ég að það muni koma í ljós að ekki séu miklar líkur fyrir því að þessi ástæða verði metin fullgild miðað við þá reynslu sem við höfum fyrir augunum. Um síðustu áramót var skiptingin þannig að hlutfall Landsbankans af heildarútlánum til landbúnaðar var 10.5%, Útvegsbankans 0.2%, Búnaðarbankans 30.5%, Iðnaðarbankans 1.3%, Verslunarbankans 0.1% og Samvinnubankans 14.7%. Í sjávarútvegi er Landsbankinn með 42.3%, Útvegsbankinn með 50.7%, — þessir bankar eru báðir undir bankamálaráðherra eins og hv. þm. vita, — Búnaðarbankinn með 7.8%, Iðnaðarbankinn er með 0.3%, Verslunarbankinn 0.2%, en Samvinnubankinn 14.5%. Í verslun er Landsbankinn með 12.6%, Útvegsbankinn 13%, Búnaðarbankinn með 15.2%, Verslunarbankinn — hann er undir viðskrh. — með 80.4%.

Ég held að ef þessar tölur eru skoðaðar í réttu ljósi og athugaðar standist ekki sú fullyrðing, sem haldið hefur verið fram, að það að Búnaðarbankinn eða Iðnaðarbankinn séu undir yfirstjórn iðnrh. og landbrh. hafi haft áhrif á útlánaskiptinguna hjá þessum bönkum.

Það er leiðinlegt að lesa upp mikið af tölum, en það væri freistandi að fara betur ofan í þessi plögg til að sýna fram á það enn betur hvað þessi málatilbúnaður er fjarstæðukenndur.

Í sambandi við þessi mál vekur það þó undrun mína mest af öllu að þetta skuli vera tekið úr sambandi áður en önnur atriði eru skoðuð. Það segir hér í grg. með frv., með leyfi forseta:

„Þess má geta að með tillögum bankamálanefndar fylgir bókun um sameiningu og fækkun viðskiptabanka. Í bókuninni kemur fram að nefndin er sammála um að sameining viðskiptabanka væri til mikilla hagsbóta.“

Áfram er haldið í svipuðum tón. Bæði í framsöguræðu hæstv. forsrh. og eins í grg. fer því ekkert milli mála að hverju er stefnt. En þá vil ég leggja þá spurningu fyrir hæstv. forsrh.: Hvers vegna er þetta frv. flutt og hvernig er það hugsað t. d. í sambandi við stofnlánadeildina? Ég vonast til þess að bankamálanefndin hafi athugað hvernig t. d. Búnaðarbankinn varð til og hvernig hann hefur þróast og hafi tekið eitthvert mið af því. En ætli það hafi verið frekar gert en að athuga önnur mál í þessu sambandi, sem ég tel mig hafa sýnt fram á að eru úr lausu lofti gripin.

Sannleikurinn er sá með Búnaðarbankann að hann er stofnaður af sjóðunum. Þessir sjóðir landbúnaðarins voru stofnaðir um aldamót. Grundvöllurinn sem var lagður af Búnaðarbankanum er fyrst og fremst landbúnaðarsjóðirnir. Ég gæti talað langt mál til þess að sýna fram á hvernig þessi þróun er og mun gera það við 2. umr. ef það á að hespa þetta í gegn án þess að skoða málið nokkuð frekar.

Nú er sagt hér í grg. að stefnt sé að því að stofnlánadeildin sé undir landbrh., veðdeildin aftur undir bankamálaráðherra. Þeir sem þekkja til vita að þessar deildir eru í raun og veru reknar saman. Hefur forsrh. eða bankamálanefnd athugað hvernig eignum Búnaðarbankans verði skipt á milli stofnlánadeildar og bankans ef á að gera þarna einhver skil á milli? Hefur hæstv. forsrh. eða bankamálanefnd athugað hvað það mundi þýða fyrir strjálbýlið og fyrir landbúnaðinn ef þetta verður að veruleika?

Það hefur farið fram umræða í þjóðfélaginu um bankamál og um ýmis önnur mál. Ég sé ekki betur en stjórnmálamennirnir séu að hrekjast undan þeim áróðri sem er þyrlað upp í þessu máli, án þess að kanna það hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér. Stjórn stofnlánadeildar var á fundi s. l. mánudag og þá lagði formaður Stéttarsambands bænda fram till. sem var samþykkt af öllum stjórnarmönnum stofnlánadeildar. Með leyfi forseta var þessi till. svohljóðandi:

„Stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins skorar á fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis að senda frv. um breytingar á yfirstjórn Búnaðarbanka Íslands til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda og stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Stjórn stofnlánadeildarinnar telur að nauðsynlegt sé að kanna gaumgæfilega áhrif þeirra breytinga sem frv. gerir ráð fyrir áður en það verður að lögum.“

Ég ítreka að það eru alveg ný vinnubrögð hér á hv. Alþingi ef svona mál eru ekki send til umsagnar t. d. bændasamtakanna, stjórn stofnlánadeildar og annarra þeirra aðila sem málið varðar. Það eru alveg ný vinnubrögð. Og ég vil við þetta tækifæri átelja fjh.- og viðskn. Ed. fyrir slík vinnubrögð. Ég held að það sé engum til góðs að hespa þetta mál af án þess að gera sér grein fyrir því hvernig á að halda á málum að öðru leyti. Það þarf að breyta í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins hvernig málum verður komið fyrir í sambandi við þær eignir sem bankinn á því að það skulu menn vita að Búnaðarbankinn hefur verið rekinn frá fyrstu tíð í mörgum deildum og lengi eða mestan tímann til 1962 voru þessar deildir fjórar sem tilheyrðu landbúnaðinum. Þetta þarf allt að meta.

Hvernig á að fara með stofnlánadeildina? Á að skilja hana frá bankanum? Hver á stefnan að vera? Þetta þarf að gera allt upp. En vegna þess að hæstv. landbrh. er hér ekki og ekki formaður bankamálanefndar, og ég treysti því að orðið verði við áskorun þeirri sem stjórn stofnlánadeildarinnar sendi frá sér og ég er búinn að afhenda formanni n. hér í Nd. og frv. verði sent til umsagnar a. m. k. þeim aðilum sem nefndir eru í till., þá sé ég ekki neinn tilgang í því að flytja hér lengri ræðu. Hitt er annað mál að ég mun rekja þessa sögu hér lið fyrir lið við 2. umr. ef á að knýja þetta fram til þess að það komi í þingtíðindum og fari ekkert á milli mála hvernig þessi mál hafa þróast á undanförnum árum og hvað er verið að gera hér með a. m. k. bundið fyrir annað augað og virðist vera lítil sjón á hinu í sambandi við afgreiðslu þessa máls.