08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

395. mál, staðgreiðslukerfi skatta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt, hvað líði áformum um staðgreiðslukerfi skatta.

Eins og kunnugt er hafa áform um upptöku staðgreiðslukerfis opinberra gjalda verið til umræðu um áratuga skeið hér á landi, en fyrst var bryddað opinberlega á að taka upp slíkt kerfi 1947. Árið 1965 kemst skriður á málið, er þáv. ríkisstj. lýsti yfir að hún vildi beita sér fyrir að taka upp slíkt kerfi. Var ríkisskattstjóra falið að sjá um undirbúning málsins. Skilaði hann grg. um staðgreiðslukerfi grannlanda okkar í sept. 1966 og skýrslu um málið í heild í okt. 1966. Í október 1966 var síðan skipuð sjö manna nefnd til að undirbúa staðgreiðslu. Skilaði hún áliti 14. mars 1967. Í apríl 1967 var samþykkt þáltill. um kosningu sjö manna milliþinganefndar til að halda könnun málsins áfram. Skilaði sú nefnd áliti í jan. 1970.

Snemma árs 1975 var ríkisskattstjóra því næst falið að gera tillögur og grg. um staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. Skilaði hann skýrslu um málið í maí 1975. Veturinn 1977–1978 var síðan undirbúið frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda í tengslum við almenna endurskoðun á skattalögum er þá stóð yfir. Var frv. lagt fram samhliða tekju- og eignaskattsfrv. 1978, en dagaði uppi. Aftur er flutt frv. um þetta efni 1981. Það var ekki heldur útrætt á þinginu.

Á þeim árum sem fyrrnefndur undirbúningur hefur staðið hafa margar ríkisstjórnir haft það á stefnuskrá sinni að taka upp staðgreiðslukerfi opinberra gjalda, en þau áform ætíð runnið út í sandinn. Staðgreiðslukerfi opinberra gjalda er hins vegar ekki á stefnuskrá núv. ríkisstj. Verður að telja að það hafi haft ótvírætt neikvæð áhrif á þróun núgildandi innheimtukerfis, þ. á m. frekari samvinnu ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum, að ætíð var búist við gjörbyltingu á þessu sviði innan skamms.

Í öðru lagi er spurt af hvaða orsökum mál þetta hafi tafist. Staðgreiðslukerfi opinberra gjalda hefur, eins og að framan er lýst, verið til umræðu um áratugaskeið. Hefur mikil vinna verið innt af hendi til undirbúnings slíks kerfis. Verður ekki betur séð en ástæða þess að slíkt kerfi hefur ekki verið lögleitt nú sé sú, að þegar á hólminn er komið hefur ætíð reynst skorta pólitískan vilja til að taka það upp.

Í þriðja lagi er spurt hve miklum fjármunum hafi verið varið til undirbúnings þessa máls. Síðasta áratuginn a.m.k. hefur undirbúningur málsins verið í höndum embættismanna og þá einkum ríkisskattstjóra. Á þetta bæði við um skýrslu Sigurbjörns Þorbjörnssonar um efnið á árinu 1975 og undirbúning þeirra lagafrv. sem flutt voru 1978 og 1981. Hefur þessi undirbúningur að mestu verið unninn samhliða öðrum embættisstörfum og er ekki um að ræða að lagt hafi verið á þessu tímabili í kostnað vegna þessa málefnis sem neinu nemur og sérgreinanlegur er frá öðrum kostnaðarliðum í embættiskerfinu.