10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5606 í B-deild Alþingistíðinda. (4904)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hún er misjöfn þingreynsla hv. þm. og ég hygg að hjá sumum þeirra blundi sú hugsun að Alþingi sé afgreiðslustofnun og þar sé aðalatriðið að koma sem flestu í gegn. Nú er það svo að nefndir hafa verið mjög önnum kafnar að undanförnu. Ég vil geta þess að menntmn. starfaði það grimmt í gær að búið var að setja fund þegar menn sluppu frá nefndarstörfum inn í deild. Og það vita allir að nefndartími er ekki ávallt frjáls, þó að þannig sé frá málum gengið að nefndum sé ætlaður ákveðinn tími í skipulagi þingsins.

Þannig stendur t. d. á að allshn. Sþ. hefur fundartíma á sama tíma og menntmn. Nd. Hv. 5. þm. Norðurl. e., sem er formaður menntmn. Nd., var orðinn mjög óhress yfir þeirri frekju og þeim yfirgangi sem honum fannst sér vera sýndur af formanni allshn. með því að vilja standa fast á því að þessi fundartími væri fyrir störf allshn. Nú vildi svo til að þetta hafði gerst nokkrum sinnum í röð og hann vildi ekki una því að það héldi áfram. Ég get að sjálfsögðu ekki frekar en aðrir þm. verið á tveimur nefndarfundum samtímis og ákvað að fella niður fund s. l. þriðjudag af þessari ástæðu til að geta mætt í menntmn. og sinnt þar störfum sem vissulega voru aðkallandi.

Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega að það verður að sjálfsögðu kaltað til fundar í allshn. og þar verða ýmis mál enn tekin fyrir. En ég er líka reiðubúinn að gera grein fyrir því í lok þingsins hverjir hafa mætt til fundarsetu að staðaldri í n., ef þess verður óskað, þannig að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvernig vinnuframlag nm. er, þeirra sem þar hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa. Og það má vel vera að þeir sem eru nú hvað kátastir í dag í þessum efnum og hafa rekið hvað harðast eftir því að nefndir starfi, þeir hugsi sig um tvisvar áður en þeir rjúki af stað með aths. í tíma og ótíma.