10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5607 í B-deild Alþingistíðinda. (4905)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Vegna þeirra umr. sem hér hafa orðið um þingsköp, um störf nefnda þingsins, finn ég mig knúinn til að vekja athygli á því að á fundi Ed. í gær óskaði ég mjög eindregið eftir því að þar yrði tekið fyrir 71. mál, sem er frv. til l. um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Þetta mál var lagt hér fram á hinu háa Alþingi 2. nóv. og vísað til n. 14. nóv. Ég óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir. Forseti beindi þeim tilmælum til formanns n. í Ed. að svo yrði gert.

Á fundi landbn. í morgun, þegar eftir því var óskað að málið yrði tekið til umr., kaus formaður, eftir því sem mér hefur skilist, að verða ekki við þeirri ósk heldur taldi hann sig þurfa að bíða eftir niðurstöðu þingflokksfundar um málið. Nú er það svo að þetta mál fjallar um einkarétt einokunarfyrirtækis, sem rekið er í skjóli ríkisins og flytur inn ónýtar kartöflur, sem mjög hafa verið til umr, í fjölmiðlum og meðal þjóðarinnar að undanförnu. Nú spyr ég: Er það orðið svo að talsmenn hinna skemmdu kartaflna í Sjálfstfl. ráði ferðinni um störf og gang þingmála hér? Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi, að þingmál sem flutt eru með eðlilegum hætti skuli ekki fást tekin fyrir og skuli ekki fást hér inn í þingið til afgreiðslu, þannig að vilji þingsins geti komið í ljós. Til hvers er verið að vísa málum til nefndar? Er það til að drepa þeim á dreif? Er það til að svæfa þau? Ég hélt að það væri til að afgreiða þau. En kannske mega talsmenn hinna skemmdu kartaflna og einokunarsjónarmiða sín orðið svo mikils hér á hinu háa Alþingi að þetta er hægt að gera með þessum hætti. Ég vona að sú verði ekki raunin, heldur geri ég enn kröfu. um að þetta mál fái eðlilegan framgang á hinu háa Alþingi.