10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5609 í B-deild Alþingistíðinda. (4909)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ekki batnar nú þingreynsla manna hér í salnum ef þeir halda að formenn ráði því hvaða mál fara úr nefndum og hvaða mál fara ekki úr nefndum. Að sjálfsögðu ræður meiri hl. n. því í hverri n. og jafnframt er það eins víst að menn geta, ef þeir óska, látið bóka sérálit sitt í þessum efnum. Hins vegar er það dálítið skrýtið ef blöðin í landinu eiga að fara að stjórna því hvernig starfað er í nefndum. Og það er athyglisvert að ritstjóri, sem kosinn var á þing en hefur ekki mætt til þingsetu enn, hann var kosinn í þá nefnd sem hér er um að ræða, allshn. Sþ., og hafði varamann fyrri part vetrar. Það væri ekki búið að halda marga fundi í n. ef mætingin hefði verið svipuð og þar kom í ljós. Það er hætt við að þeir hefðu ekki orðið löglegir.

Ég vil undirstrika það, að að sjálfsögðu mun meiri hl. nm. ákveða það hvaða mál fara út úr allshn. Ég veit ekki til að nokkurn tíma hafi á Alþingi Íslendinga verið önnur regla en sú. Hitt er svo annað mál, að væri um mál að ræða sem vitað er að yrðu felld hér í þinginu, þá hefur mönnum fundist skynsamlegt að afgreiða þau ekki öll út úr nefndum, vegna þess að bæði hefur það tekið mikinn tíma í n. og hér í þinginu og eins hafa flm. stundum óskað eftir því að mál væru ekki afgreidd út úr nefndum, eða einhver einstakur nm. beðið um frestun á því og málið látið liggja.

Ég vil minna á það t. d. í þessu sambandi, að að ósk hv. 8. þm. Reykv. liggur eitt mál í allshn. Mér finnst dálítið skrýtið ef menn telja að það sé hægt að standa þannig að málum, að formenn hafi eitthvert vald til að koma í veg fyrir það að mál fari út úr nefndum. Hvers lags vitleysa er þetta? Hvers lags fundarstjórn haldið þið að þetta sé? Hvar hafa menn heimildir fyrir svona þvættingi? Fyrir hverja eru þeir að túlka mál sitt með þessum hætti? Halda þeir að menn sitji á staflanum? Mér blöskrar það alveg hvað menn geta látið út úr sér í þessum efnum. (HBl: Annars greindir menn.) Hv. 5. þm. Norðurl. e. fullyrðir að hér sé um greinda menn að ræða. Ég hef ekkert í höndum sem staðfestir það, en hef að sjálfsögðu engan tillöguflutning uppi um annað.