10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5610 í B-deild Alþingistíðinda. (4912)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað ekki að ófyrirsynju að hæstv. forsetar hér hafa í tvígang með stuttu millibili talið ástæðu til að veita ákúrur formönnum nefnda vegna slælegs starfs nefnda hér í þinginu. Það er ekki að ástæðulausu sem slíkt gerist, og ég hygg að hæstv. forsetar hafi til þess fullkomin og gild rök að veita slíkar ákúrur.

Ég kom nú aðallega hér upp í fyrsta lagi vegna þess að mér heyrðist hv. þm. Guðmundur Einarsson segja það áðan: Við ætluðumst til þess af þeim nefndarformönnum sem við kusum. — Nú spyr ég hv. þm.: Kaus BJ hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson sem formann tiltekinnar nefndar? Ég frábið a. m. k. Alþfl. því að hafa átt aðild að formannskjöri þeirra sem nú stýra fundum í nefndum Alþingis. Hér birtast á ýmsan hátt innanhússerjur í Sjálfstfl. þessa daga, og með ólíkindum uppákomurnar í þeim flokki nú orðið, eftir tiltölulega stutt hlé um tíma. Ég minnist þess ekki þann tíma sem ég hef setið á þingi að hafa heyrt orðalag eins og hv. þm. Egill Jónsson valdi flokksbróður sínum hér áðan. En þetta er enn ein myndin, enn ein sönnunin um það, að það er ekki einvörðungu innan Sjálfstfl. sem slíkt ástand ríkir, það ríkir ekki síður álíka ástand milli stjórnarflokkanna á þessu þingi. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á að það er umr. um þingsköp en ekki almennar stjórnmálaumr.) Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort óeðlilegt sé að víkja að slíku með tilliti til framkomu hv. þm. Egils Jónssonar hér áðan. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það er gersamlega óhugsandi að fara þá leið að ræða um þingsköp nema halda sig við þingsköp. Ef við gerum það ekki þá ónýtum við þetta form til þess að gera athugasemdir við þingsköp. Ég vil biðja hv. þm. að gæta þessa. ) Ég tel, hæstv. forseti, að ég hafi á engan hátt farið frekar út fyrir ramma umræðna um þingsköp en þeir sem hér á undan hafa talað og ástæðulaust fyrir hæstv. forseta að vera með athugasemdir í þessum dúr, enda mun ég halda áfram máli mínu í svipuðum dúr og ég var búinn að hefja það áðan. Það er raunar undarlegt að mál eins og hér er um að ræða í Ed., þar sem hv. þm. Egill Jónsson er formaður, skuli ekki fást út úr n. á þeim tíma sem tugum eða hundruðum tonna af ónýtum, óætum eða eitruðum kartöflum er dreift hér í sölubúðir til almennings. Á tíma sem þessum fæst ekki einu sinni út úr n. mál sem snertir greinilega hagsmuni ákveðinna aðila í þessu landi. Það er engu líkara en hér á hv. Alþingi eigi þessir aðilar góðan stuðning í því að láta slíkt mál ekki koma til umr. á þessum tíma, vegna þess að líklega er það sá tími sem er hvað kjörnastur fyrir það að almennt sjái fólk í gegnum með hvaða hætti einokunin er ríkjandi í þessum þætti eins og svo mörgum öðrum. Það er engu líkara en hv. þm. Egill Jónsson hafi tekið að sér varðgæslu þess einokunarkerfis sem nú er við lýði að því er varðar sölu á kartöflum og raunar fleiri slíkum vörutegundum. Það er fróðlegt til þess að vita að varðhundurinn, sem nú hefur sig mest í frammi í þessum efnum, er fulltrúi einkaframtaksins í landinu. (Gripið fram í: Varðhundurinn?)